19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3645 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

352. mál, breytingar á húsnæði fyrir hreyfihamlaða

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Af gefnu tilefni vegna orða síðasta ræðumanns, hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, er ástæða til þess að það komi hér fram að félmn. hefur starfað með mjög eðlilegum hætti í vetur og tekið mál fyrir í þeirri röð sem þau hafa borist nefndinni. Þetta mál verður að sjálfsögðu tekið fyrir í nefndinni þegar að því kemur. Félmn. hefur haldið að ég held 9 fundi. Það hefur reyndar komið fyrir nokkrum sinnum að ekki hefur verið hægt að halda fundi vegna fámennis. En ég býst við að hún hafi starfað ekkert síður en aðrar nefndir í þinginu. Það skal tekið fram að þær umsagnir sem hafa komið um það mál sem hv. þm. ber fyrir brjósti eru yfirleitt neikvæðar og þarf ég ekki að rekja þetta frekar í umr. um þetta mál sem hér er til umr. En það er rétt að það komi fram. Og ég vísa því algjörlega á bug að einstakir hv. þm. komi hér upp og beri nefndum á brýn tóma vitleysu, sem þeir gátu og geta spurt sína flokksmenn um, sem sæti eiga í viðkomandi nefndum. Slíkt er ekki til fyrirmyndar á hinu háa Alþingi.