19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3646 í B-deild Alþingistíðinda. (2997)

352. mál, breytingar á húsnæði fyrir hreyfihamlaða

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að hv. þm. hafa mikinn áhuga fyrir þessu máli. Það færi betur að árangur í málinu væri í samræmi við það.

Ég vil aðeins segja það í sambandi við það sem fram hefur komið að auðvitað er það ekki þannig að alltaf hafi staðið á fjármagni í sambandi við þessi mál, því það er hægt að gera ýmislegt í þessum efnum fyrir litla peninga. En því miður hefur áhuginn ekki verið nægjanlega mikill hjá stjórnendum og ýmsum aðilum sem um þessi mál fjalla. Það er sorgleg staðreynd, og ég hef rekið mig á það persónulega, að ýmsir arkitektar og verkfræðingar, sem hanna bæði opinberar byggingar og einkabyggingar, vilja gjarnan loka augunum fyrir þessu atriði, að hanna byggingar þannig að tekið sé tillit til þessa. Menn segja gjarnan: ja, það er enginn í hjólastól hjá okkur og verður ekki á næstunni o. s. frv. Þetta er því miður sorgleg staðreynd sem verður að vinna bug á.

Ég vil aðeins undirstrika það vegna þess sem hér hefur komið fram að ferlinefnd fatlaðra í félmrn. vinnur mjög vel að þessum málum. Hún hefur reynt að tengja starf sitt við ferlinefndir víðs vegar um landið. Eins og ég sagði áðan skrifaði ég í byrjun s. l. árs yfir 70 stærstu sveitarfélögum landsins og óskaði eftir viðbrögðum um stofnun ferlinefndar. Því miður hafa ekki komið svör nema frá rúmlega 20 enda þótt ég hafi ítrekað þetta á fulltrúaráðsfundi sveitarfélaga.

Ég vil aðeins geta hér að lokum um þá skýrslu sem er að koma núna út. Það er mjög viðamikil skýrsla yfir opinberar byggingar hér í Reykjavík eins og ég nefndi í svari mínu. Í skýrslunni eru mjög fróðlegar upplýsingar.

Ég er að láta fjölrita þessa skýrslu eða fjölprenta hana svo að allir hv. alþm. fái hana í hendur mjög fljótlega. Jafnhliða er ákveðið að gera virkilega herferð í framhaldi af þessari skýrslu bæði til að vekja fjölmiðla í landinu til þátttöku í því að kynna þessi mál og reyna að kveikja í almenningsálitinu og þá ekki síst ýmsum ráðamönnum til að gera virkilega átak í þessum málum. Þörfin blasir alls staðar við. Ég vona að þessar umr. nú verði til að kveikja þann áhuga sem nauðsynlegur er til að ná árangri í þessu máli.