19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3647 í B-deild Alþingistíðinda. (2998)

352. mál, breytingar á húsnæði fyrir hreyfihamlaða

Fyrirspyrjandi (Sigríður Þorvaldsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir greinargóð svör. Eins og flestum mun kunnugt er hann mikill áhugamaður um þessi mál. Einnig þakka ég hv. þm. sem tóku undir fyrirspurn mína með umr. af miklum áhuga. Fagna ber útkomu skýrslunnar sem hæstv. félmrh. gat um. Vonandi verður hún til þess að breyting verði á málum og endurbætur á eldra húsnæði verði framkvæmdar. Vera má að fastur tekjustofn sé umdeildur og það getur e. t. v. átt rétt á sér. Samt sem áður ber hinu opinbera að sjá til þess að nægilegt fjármagn verði veitt til nauðsynlegra breytinga á opinberum byggingum í þágu fattaðra.

Ég vil benda á að eins og fram hefur komið var þessi samþykkt gerð 22. maí 1980. En nú er árið 1985. Verð ég að segja að mér virðist hafa tekið óþarflega langan tíma að framkvæma úttektina og skýrslugerðina. Samtök fatlaðra hafa staðið sig vel í því að krefjast réttar síns. Því ber að hvetja stjórnvöld til að styðja alla viðleitni til að skapa fötluðu fólki aðstöðu til að taka þátt í daglegu lífi og gera því mögulegt að nýta hæfileika sína og starfskrafta við hvers konar störf í þjóðfélaginu. Það væri því ekki úr vegi að hafa samráð við aðila sem hvað mest hafa unnið að og barist fyrir þessum málum, því að þeir gætu án efa bent á margar hugmyndir og nýjungar sem framkvæma mætti án þess að það kostaði stórfé.

Um þessar mundir mun vera á döfinni öflug auglýsingaherferð til að vekja athygli fólks á ferlimálum fatlaðra og er það vel. Hún mun án efa örva til breytingaframkvæmda og ekki síst auka skilning almennings um land allt á þessu nauðsynjamáli. Ég vil leyfa mér að skora á hæstv. ríkisstj. að fylgjast rækilega með því að gert verði átak í málefnum hreyfihamlaðra með því að eldri opinberar byggingar verði sem fyrst færðar í viðunandi horf. Vona ég að hv. alþm. fylgi málinu eftir með því að standa þar vörð.

Svo langar mig til að segja að mér virðist dálítið undarlegt sem nýjum þm. hér á Alþingi Íslendinga að þm. þurfa oft að karpa um mál sem allir þm. eru í raun og veru sammála um. Betra væri e. t. v. að eyða tímanum til að vinna að málinu.