24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

30. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestlendinga rifjaði upp fyrir þingheimi hvað fyrir mönnum vakti á sínum tíma þegar lögin um kjaradeilunefnd voru sett. Tilgangurinn var sá að setja niður deilur um vinnubrögð og verklag og flýta fyrir lausn mála. Ég get hins vegar fullsannað að þessi tilgangur, góður sem hann var, hafi ekki náðst og það rifjaði upp fyrir manni að það er nú hvorki meira né minna en heil stjórnmálakenning til um það að flest það sem fyrir mönnum vakir, góðviljuðum mönnum, eigi það fyrir sér að snúast upp í andstæðu sína. Ég rifjaði svo upp fyrir hæstv. dómsmrh. að tilgangur góðviljaðra manna með rússnesku byltingunni var sá að leysa Sovétmenn undan oki og áþján, en hefur snúist upp í þá skondnu afleiðingu að reisa tugthúsmúr utan um Sovétþjóðirnar og gerðist á tiltölulega skömmum tíma. Góður vilji engva gerir stoð ef framkvæmdin verður öll á annan veg.

Ef þessi tilgangur hefði náðst hefðu ekki risið slíkar deilur um hlutverk nefndarinnar. Hlutverk hennar er mjög þröngt skilgreint í lagatextanum. Hún á að úrskurða um öryggisgæslu og heilsugæslu. Mér virðist einsýnt að mjög margir úrskurðir nefndarinnar í þessari deilu fái ekki staðist svo þrönga lagaskýringu. Engum blöðum er um það að fletta að miklar deilur hafa risið og ég er ekki í nokkrum vafa um að þær hafa kynt undir illdeilum og tafið fyrir lausn mála. Þess vegna er þetta frv. flutt.

Þegar menn spyrja hins vegar hvort aðrar leiðir komi til greina, þá hefur þegar verið nefndur möguleikinn á að setja upp aðra nefnd sem ég fæ ekki séð að leysi málið. Í annan stað hefur hv. 3. þm. Reykv. lýst fjórum möguleikum.

Í fyrsta lagi óbreyttu ástandi, sem ég tel ekki gott. Í öðru lagi áfrýjunarrétti, sem ég legg til, en hann nefnir þá til félagsdóm. Vissulega kæmi það til álita, en mér sýnist reynslan benda til þess að það sé allt of mikill dráttur á úrskurðum félagsdóms. Málum var skotið til félagsdóms sem upp komu í þessari deilu, þ.e. þeirri miklu deilu sem varð strax í upphafi kjaradeilunnar um hvort rétt lög eða kjarasamningar mæltu fyrir um að laun skyldu greidd út jafnvel þótt verkfall væri eða ekki, og félagsdómur hefur eftir langa mæðu vísað því máli frá en ekki úrskurðað í málinu. Þar er ég að tala um málskot Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar eða BSRB, hvort heldur var hinn formlegi málskotsaðili.

Það kann hins vegar að vera að það sé galli á þessari lausn, sem hér er stungið upp á, ef það reyndist rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. taldi líklegt, að af mundi hljótast endalaust málaflóð þannig að Hæstiréttur yrði kaffærður í slíkum málum. Hvort það er líklegt skal ósagt látið. Það fer nokkuð eftir því hvernig þessi ágæta kjaradeilunefnd starfar. Þessar umr., sem hér fara fram, og þessi tillöguflutningur mætti vafalaust verða nm. umhugsunarefni vegna þess að ljóst er að nefndinni hefur ekki lánast að starfa þannig á grundvelli laganna að það vekti ekki deilur.

En ef menn teldu að þetta væri líkleg afleiðing vil ég árétta að menn skoði rækilega hina leiðina, sem nefnd hefur verið, um hinn aukna meiri hluta. Eins og menn taka eftir er nefndin samansett af níu aðilum og hugmyndin um aukinn meiri hluta byggist þá á því að enginn meiri hluti deiluaðila myndist í nefndinni án þess að fulltrúar Hæstaréttar hefðu þar oddaatkvæði.

Sú leið, sem hv. 3. þm. Reykv. lagði til, að þarna yrði ákveðið millistig, þ.e. málum yrði einfaldlega vísað til verkfallsnefndar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ef þeirra úrskurður yrði vefengdur eða þeirra leyfi ekki fengist fyrir nauðsynlegum störfum væri því vísað til nefndarinnar, virðist mér vissulega að styðjist við hefðir á hinum almenna vinnumarkaði. Hins vegar er ég ekki sannfærður um ágæti þeirrar leiðar og tel reyndar fyrir fram vonlaust að sú leið fengi meirihlutafylgi hér á þingi og allra síst ef reynt væri að afgreiða þetta mál með skjótum hætti.

Um endurskoðun vil ég það segja að öðru leyti að komi það mál upp hér á þingi býður það væntanlega síns tíma, en það er kannske ástæða að gefnu tilefni að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forsrh., sem er ekki hér í salnum, hvenær sé að vænta þeirra lagafrv. sem stjórnskipuð nefnd hefur í undirbúningi um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, um stjórnsýslu og um kjaradóm opinberra starfsmanna. Það er ekkert launungarmál, eins og ég sagði áðan, að þessi frv. voru kynnt fulltrúum stjórnarandstöðunnar síðsumars með þeim ummælum að það væri ásetningur ríkisstj. að flytja slík mál hér í upphafi þings. Eitt þessara mála var um að breyta þeim lögum sem hér hafa verið til umr., þ.e. lögunum um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, með þeim hætti að um kjör allra ríkisstarfsmanna, sem gegna starfi fulltrúa eða svokölluðum háttsettari störfum, færi framvegis eftir úrskurði kjaradóms. Ég vil leyfa mér af þessu tilefni að spyrjast fyrir um það: Hefur þessi nefnd lokið störfum? Hefur hún skilað þessum lagafrv. til þingflokka stjórnarsinna eða til ríkisstj.? Hefur ríkisstj. tekið afstöðu til þessa máls? Og er þess að vænta að ríkisstj. leggi fram á hinu háa Alþingi slík lagafrv.? Það er spurt að gefnu tilefni og mér þætti vænt um ef einhver hér inni úr röðum ráðh. — það er víst engin ráðh. undir þessum umr. eða áhrifamanna úr hópi stjórnarliða, t.d. eins og hv. þingflokksformaður, 2. þm. Norðurl. v., upplýsti eitthvað um það eða hv. 1. þm. Suðurl. sem af sumum hefur hér á hinu háa Alþingi verið titlaður annar forsrh.