19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3650 í B-deild Alþingistíðinda. (3005)

174. mál, efling atvinnulífs á Norðurlandi vestra

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 186 hafa hv. þm. Norðurl. v. leyft sér að flytja þá till. sem hér er til umræðu. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta nú þegar kanna leiðir til þess að efla atvinnulíf á Norðurlandi vestra og koma í veg fyrir versnandi atvinnuástand þegar draga tekur úr framkvæmdum við Blönduvirkjun.“

Tilefni þessarar þáltill. er tvíþætt: Í fyrsta lagi almenns eðlis vegna þess ástands sem ríkt hefur og ríkir í atvinnumálum í þessum landshluta og í öðru lagi vegna sveiflna sem fyrirsjáanlegar eru í atvinnuháttum og atvinnulífi vegna stórframkvæmda við Blönduvirkjun.

Ef í fáum orðum er vikið að fyrra atriðinu er ljóst að afvinnuvegir og afvinnuhættir í Norðurlandi vestra eru og hafa verið tiltölulega einhæfir. Meginþorri fólksins á þessu landssvæði hefur atvinnu sína og framfæri af svokölluðum frumframleiðslugreinum, landbúnaði og sjávarútvegi, einkanlega þó af landbúnaði. Stærri hluti framteljenda í þessu kjördæmi hefur atvinnu sína og framfæri af landbúnaði en í nokkru kjördæmi öðru eða yfir 28% af framteljendum. Kunnugt er að í þessu kjördæmi hafa meðaltekjur framteljenda oftast verið lægri en í öðrum kjördæmum landsins. Það er vitaskuld vegna þess að tekjur fólks sem hefur aðalatvinnu af landbúnaði og raunar frumgreinum hafa allajafnan verið lægri en í öðrum atvinnugreinum í landinu. Allt á þetta þátt í því að þarna er nauðsynlegt að leitast við að gera atvinnulífið fjölþættara og gera það þannig í stakk búið til þess að veita fjölbreyttari og betri afkomumöguleika en nú er.

Rétt er einnig að vekja á því athygli, sem auðvitað dylst engum, að í þeim erfiðleikum sem að þjóðarbúinu hafa steðjað að undanförnu hefur hlutur aðalundirstöðugreina þjóðfélagsins verið lakari en annarra vegna framleiðslutakmarkana í landbúnaði og vegna sóknartakmarkana í sjávarútvegi. Sú staða veldur því að þeir erfiðleikar, sem við höfum gengið í gegnum nú á síðustu árum, hafa hitt strjálbýlið með meiri þunga en þéttbýli landsins.

Allt gefur þetta fulla ástæðu til að taka til athugunar almenna stöðu atvinnulífs á þessu landssvæði, jafnvel fremur en annars staðar. Enn fremur er ástæða til þess að menn átti sig á því að í aðalundirstöðugreinum atvinnulífs á landinu, landbúnaði og sjávarútvegi, hefur sú staða sem upp er komin í peningamálum orðið til mikilla erfiðleika vegna þess að fjármagn, sem lagt er í landbúnað einkanlega, jafnvel suma þætti sjávarútvegsins, skilar sér seinna en í ýmsum öðrum þáttum atvinnulífs, einkanlega á sviði viðskipta og þjónustu.

Ég vil sérstaklega geta þess í sambandi við þennan almenna þátt, sem að baki till. liggur, að það er mikil ástæða til að gefa öllu þessu ástandi gaum. Hin almenna niðurstaða sést kannske best á því að á hálfri öld, frá 1930 til 1980, hefur fólki einungis fjölgað um 7% á Norðurlandi vestra.

Ef vikið er að öðrum þætti þessa máls, sem að baki liggur, þeim sveiflum sem sjáanlegar eru í atvinnulífi kjördæmisins vegna stórframkvæmda við Blönduvirkjun, er það rifjað upp í fskj. með þessari till. að hinn 28. janúar 1982 samþykkti þáverandi ríkisstj. svofellda bókun:

Ríkisstj. samþykkir að fela Framkvæmdastofnun ríkisins, byggðadeild, að vinna í samvinnu við heimaaðila að úttekt á atvinnulífi á Norðurlandi vestra og móta tillögur um eflingu þess, þ. á m. á sviði iðnaðar.

Athugaðir verði hið fyrsta möguleikar atvinnufyrirtækja á svæðinu til að eiga hlut að framkvæmdum við virkjun Blöndu og að atvinnulíf verði treyst til að koma í veg fyrir samdrátt á vinnumarkaði á svæðinu þegar virkjunarframkvæmdum lýkur.“

Nú eru virkjunarframkvæmdir hafnar við Blöndu. Ekki er með fullu hægt að segja á þessari stundu hvaða hraði verður þar á framkvæmdum. Að því var stefnt upphaflega að fyrri vélasamstæða Blönduvirkjunar gæti tekið til starfa haustið 1988. Vel má svo vera að um nokkra seinkun kunni að verða á þeim framkvæmdum, t. a. m. að fyrri vélasamstæðan taki til starfa á árinu 1989, ef svo er, sem heyrst hefur, að ný orkuspá, sem mun vera væntanleg, leiði í ljós að hin almenna raforkunotkun landsmanna hafi nokkuð hægt á sér, sem sé að vöxtur í raforkunotkun landsmanna sé ekki jafnhraður og áður var. Allt verður þetta þó háð því hvort svo fer að stofnun eða stækkun stórfyrirtækja í landinu verði, fyrirtækja sem taka til sín mikla raforku.

Um þau efni er að mínu viti ekki hægt að segja með neinni vissu enn þá, en ljóst er þó að mikil sveifla verður í atvinnulífi á þessu svæði meðan framkvæmdahraðinn er mestur og meðan mest umsvif eru á virkjunarsvæðinu við Blöndu. Ætla má að þarna verði mest haft umleikis á árunum 1986 og 1987, ef staðið verður við upphaflegar áætlanir, ella á árunum 1986 til 1988. Ætla má að á virkjunarsvæðinu vinni á þessum árum kannske frá 500 til 600 manns, jafnvel fleira fólk. Þegar virkjunarframkvæmdum lýkur verður hins vegar samdráttur á vinnumarkaði á þessu svæði. Það er einmitt síðari þátturinn í því sem liggur að baki þessari till. að því verði gefinn gaumur og leitast verði við að búa atvinnulíf á þessu svæði undir það að úr stórframkvæmdum hlýtur að draga og að þá sé nauðsynlegt að vinna að því að það fólk sem þarna býr og þarna er að vaxa upp fái vinnu á sínum heimaslóðum.

Ég skal ekki fara út í að skilgreina á hvern hátt að þessu skuli unnið og hvaða fyrirtæki það verði sem verði einkanlega stefnt að að stofna til að bæta úr þessu ástandi. Ég hlýt þó að minna á að í sambandi við umræður um ný stóriðjufyrirtæki í landinu hefur bæjarstjórn Sauðárkróks gert sérstaka ályktun þar sem hún lýsir þeirri skoðun sinni og vilja sínum að álver rísi í Skagafirði. Á sama hátt hafa þrjár sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu gert samhljóða bókun þess efnis að mælt er með því og farið fram á að leitað verði eftir að reisa iðjuver við austanverðan Húnaflóa, iðjuver sem gæti veitt 100–150 manns atvinnu. Er það með tilliti til þess að starfsfólk væri frá nálægum byggðum, þ. e. einkanlega frá þéttbýlissvæðunum á Blönduósi og Skagaströnd.

Þær ályktanir, sem sveitarstjórnir á þessu svæði hafa gert varðandi stóriðjumál og varðandi atvinnumál yfir höfuð um stofnun fyrirtækja af stærri gerð, þótt ekki sé einvörðungu stefnt að álverum, eru gerðar samhljóða og þess verður ekki vart að nokkur úrtölurödd heyrist. Þarna er því ekki þess að vænta að miklar deilur mundu rísa ef að því yrði horfið að reisa slík fyrirtæki á þessum slóðum, en svo kann að vera að sums staðar annars staðar, þar sem menn hafa horft til að reisa slík fyrirtæki, verði það nokkrum vanda bundið vegna deilna og ófriðar heima fyrir sem gæti þá komið málinu í ónýtt efni. Þessu hlýt ég að vekja hér athygli á og ég veit að ég má greina frá því að hæstv. iðnrh. hefur tekið vel í þessar ályktanir á þann máta að hann hefur gefið fyrirheit um að stóriðjunefnd og iðnrn. taki til athugunar og yfirvegunar hvaða möguleika hér sé um að tefla.

Ég vil svo aðeins segja að með þessari till., sem felur vitaskuld í sér að ríkisstj. hafi um þetta vissa forustu, er ekki verið að drepa á dreif frumkvæði heimamanna í þessum efnum eða gera lítið úr því. Ég hef þegar greint frá ályktunum heimamanna, sem stefna að því markmiði sem till. felur í sér, og ég hlýt að segja að vitaskuld næst enginn árangur í efni því sem hér er á dagskrá ef heimamenn hafa þar ekki frumkvæði og vissa forustu fyrir sitt leyti. Ég hef einnig fulla trú á því að svo muni verða. Ég tel hins vegar að eðlilegt sé að ríkisvaldið stefni að því að beita sínu sérfræðingaliði til aðstoðar heimamönnum í tilvikum eins og þessum til þess að kanna þá möguleika sem um er að tefla til að efla atvinnulíf og afkomuskilyrði fólksins. Það er í raun megintilgangur þessarar till. að fara fram á að Alþingi beini því til hæstv. ríkisstj. að svo verði að málum staðið. Að sjálfsögðu þarf um allt slíkt að vera gott samstarf á milli þeirra sem fara með stjórn landsins og þess starfsmannaliðs sem stjórnvöld hafa á að skipa sem og á milli sveitarstjórnarmanna og forustumanna í atvinnumálum á þeim svæðum sem slíkri athugun er beint að.

Ég vænti þess, án þess að ég fari að hafa hér um þetta mál lengri framsögu, að Alþingi sjái ástæðu til þess að taka jákvætt undir þessa till. og þá í þeim tilgangi að þau mál, sem hún fjallar um, séu athuguð sem allra gerst.

Ég vil svo segja að þrátt fyrir samþykkt ríkisstj. frá 28. jan. 1982, sem hér hefur verið lesin og birt er með þessari till., hefur ekki verið unnið eins og til var ætlast að þessum málum. Því telja flm. eðlilegt að málið komi til kasta Alþingis, svo sem ég hef hér greint frá, og vænta þess að við það fáist stuðningur.

Ég leyfi mér svo að fara fram á það, herra forseti, að að loknum þessum hluta umr. verði till. þessari vísað til hv. atvmn.