19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3653 í B-deild Alþingistíðinda. (3007)

203. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 232 flutt till. til þál. ásamt fimm öðrum þm. Hljóðar tillgr. svo:

„Alþingi áréttar þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn eða eldflaugar, sem slík vopn geta borið, og ályktar að kjósa sjö manna nefnd er kanni hugsanlega þátttöku Íslands í umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.

Nefndin skili áliti til Alþingis fyrir 15. október 1985.“ Þannig hljóðar tillgr. en flm. eru Páll Pétursson, Eiður Guðnason, Ellert B. Schram, Guðrún Agnarsdóttir, Guðmundur Einarsson og Guðrún Helgadóttir. Þessi hópur er úr öllum stjórnmálaflokkum og ég legg á það sérstaka áherslu að þetta mál á ekki að gera flokkspólitískt. Málið er miklu alvarlegra en það að við getum leyft okkur að fara að takast á um það eftir flokkspólitískum linum eða reyna að eigna einhverjum einum flokki það.

Í upphafi tillgr. er áréttuð sú stefna Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn eða eldflaugar sem þau vopn geti borið. Um þessa stefnu hafa allir flokkar verið sammála en ég tel mikilvægt að hún verði áréttuð með ályktun Alþingis. Bæði er góð vísa ekki of oft kveðin og þar að auki hafa orðið, síðan þessi till. var lögð fram, umræður í kjölfar staðhæfingar Williams Arkins um að Bandaríkjaforseti hafi heimilað flutning kjarnorkusprengja til Íslands ef til ófriðar kæmi. Í kjölfar þeirra umræðna sem Arkin kom af stað hefur ýmislegt skýrst. Það er ennþá brýnna að árétta stefnu okkar í ljósi þeirrar umræðu, að Alþingi árétti stefnu Íslendinga enn og aftur, svo að heimurinn sjái að stefna okkar hefur ekki breyst í þessu efni og hér viljum við ekki hafa kjarnorkuvopn eða eldflaugar, sem þau geti borið, og okkur sé full alvara.

Síðari hluti till. lýtur að því að Alþingi kjósi sjö manna nefnd til þess að kanna hugsanlega þátttöku Íslands í umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Einhverjir kunna að spyrja: Af hverju ekki að fela öryggismálanefnd þetta verkefni? Það tel ég ekki rétt að gera vegna þess að öryggismálanefnd hefur ýmsu öðru að sinna sem ekki má skjóta á frest. Verkefni hennar eru miklu fjölþættari en umræða um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Rétt er því að setja aðra nefnd til að sinna þessu sérstaka verkefni enda er mjög nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast nákvæmlega með þeirri umræðu. Hún er komin á mikinn skrið og við erum orðnir fullseinir til þess að undirbúa ákvarðanatöku okkar.

Í till. felst ekki ákvörðun um það að við ætlum að gerast aðilar að samtökum um kjarnorkuvopnalaust svæði, heldur einungis að afla nauðsynlegra gagna til þess að vera færir um að taka vitræna ákvörðun. Umræða um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum hófst án þátttöku Íslendinga og þeir fá engu um það ráðið hvernig hún þróast nema með því að taka þátt í henni. Umræðuna getum við ekki stöðvað þótt við vildum. Norðurlönd eru öll enn þá, það við best vitum, kjarnorkuvopnalaus. Hins vegar væru sjálfsagt stórveldin bæði fús að setja þar niður slík tæki ef heimilað yrði eða eftir því óskað af hlutaðeigandi ríkjum.

Umræðan nú hófst með því að ríkisstjórn Svíþjóðar undir forustu Olofs Palme tók að berjast fyrir því að Norðurlönd neyttu þeirrar aðstöðu að þar eru ekki kjarnorkuvopn og reyndu að komast að samningum um að þetta yrði upphaf að víðtækari afvopnun í veröldinni. Jafnaðarmenn á hinum Norðurlöndunum tóku hugmyndum Palme vel enda Palme heimskunnur sem ötull baráttumaður fyrir friði og afvopnun. Ríkisstjórn Finnlands undir forustu jafnaðarmannsins Koivisto forseta og Kalevi Sorsa forsætisráðherra mun reiðubúin að ganga til slíkra umræðna. Það eru hins vegar ekki ríkisstjórnir Kåre Willoch í Noregi og Poul Schliiter í Danmörku. Þær eru ekki enn þá reiðubúnar. Hins vegar mun meiri hluti sennilega vera fyrir alvöruumræðum í báðum þingum. Þetta byggist á því að jafnaðarmenn og flokkar til vinstri við þá, sem eru í báðum löndunum í stjórnarandstöðu, eru áhugasamir um viðræður og þar að auki eru þingmenn á báðum þjóðþingum, sem styðja stjórnina, áhugasamir um þetta efni, þannig að hugsanlega er meiri hluti í báðum þingunum fyrir umræðum um þetta mál.

Hugmyndirnar um svæði eru ekki fullmótaðar. Ég tel líklegast að þegar eða ef samkomulag næst um kjarnorkuvopnalaust svæði, þá yrði leitað eftir því að stórveldin tækju ábyrgð á svæðinu og lofuðu að ráðast ekki á það með hernaði. Margir telja einnig að nauðsynlegt sé að Rússar færi kjarnorkuvopnavíghreiður sín af Kola-skaga og frá öðrum þeim stöðum er næst liggja Norðurlöndum.

Ég tel að hvort sem Íslendingar eru aðilar að umræðu eða ekki muni þær komnar á þann skrið að ekki verði neitt beðið eftir Íslendingum. Ég tel hins vegar að það væri mjög Íslendingum í óhag, ef af kjarnorkulausu svæði yrði án þátttöku Íslands, vegna þess að þá gæti aukist að mun þrýstingur á Ísland og önnur svæði er umhverfis hið kjarnorkuvopnalausa svæði lægju. Þess vegna megum við ekki láta þessa umræðu sem vind um eyru þjóta eða sýna af okkur tómlæti. Verði samkomulag um kjarnorkuvopnalaust svæði, þá tel ég að við þyrftum að vera innan þess og að hag þjóðarinnar yrði þannig best borgið. Landfræðilegar ástæður, fjarlægð frá Skandinavíu og við hafsvæði, sem við getum illa gætt, skapa bæði sérstöðu og erfiðleika. En eins og Olof Palme sagði í ræðu í hátíðasal Háskólans 14. desember s. l. verða Norðurlöndin að leysa þá erfiðleika í sameiningu svo fremi Íslendingar æski þess að vera með.

Ég tel að ekki orki tvímælis að Norðurlandaþjóðirnar séu okkur skyldastar að menningu og lífsviðhorfum og að með þeim eigum við að hafa samstöðu fremur en öðrum þjóðum. Á það ber að leggja áherslu að löndin fylgja mismunandi stefnu í varnarmálum. Þrjár þeirra eru aðilar að NATO en tvær utan hernaðarbandalaga. Þetta útilokar það þó ekki að samstaða gæti náðst um að viðhalda núverandi ástandi, þ. e. kjarnorkuvopnaleysi. Hernaðarumsvif og hernaðarumferð á hafinu í kringum Ísland stofna okkur vissulega í mikinn vanda. Jafnvel þótt við gefum ekki verið vissir um að hafið sé kjarnorkuvopnalaust er þó mikið fengið með því ef landið yrði það. Og það útilokar engan veginn að við yrðum samferða öðrum Norðurlöndum ef til kæmi.

Fyrir tveimur árum var ég meðflutningsmaður Guðmundar G. Þórarinssonar ásamt fleiri framsóknarmönnum að þáltill. um það að Íslendingar beittu sér fyrir fjölþjóðaráðstefnu um afvopnun á og í hafinu umhverfis Ísland. Sú till. náði ekki fram að ganga en hugmyndin er þó góðra gjalda verð og verður væntanlega reynd aftur.

Jafnvægi óttans er skelfileg kenning og vígbúnaðarkapphlaupið er kapphlaup sem enginn getur unnið og allir hljóta að tapa. Áhrifamiklir stjórnmálamenn tala nú í fullri alvöru um það að færa víghreiðrin út í gufuhvolfið jafnframt því sem þeir hafa uppi tal um kjarnorkustríð á takmörkuðum svæðum á jörðinni. Vopnabirgðir í veröldinni eru nú taldar nægja til þess að eyða öllu lífi á jörðinni sjö sinnum. Það eru ekki bjartar horfur og við svo búið má ekki standa. Við leggjum til að Alþingi kjósi nefnd til að kanna það hvort við Íslendingar ættum að gerast þátttakendur í þeirri umræðu sem fram fer á hinum Norðurlöndunum um kjarnorkuvopnalaust svæði. Það er í sjálfu sér stutt skref og kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum e. t. v. lítið annað en staðfesting á ríkjandi ástandi, staðfesting á að ríkjandi ástand verði varanlegt, en skref þó og „handarvik í þágu lífs og friðar“. Það handarvik gæti þó orðið að átaki ef hamingjan væri heiminum hliðholl og þess vegna má ekki láta það ógert. Ef við glötum voninni um betri heim, þá batnar hann ekki heldur. Ég legg til að þessi till. fái skjóta athugun í utanrmn. og ég vona og treysti því að nefndin mæli með samþykkt tillögunnar, enda er um hana víðtæk pólitísk samstaða, og að Alþingi geti kosið þessa nefnd og hún taki til starfa áður en það verður um seinan.