19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3656 í B-deild Alþingistíðinda. (3008)

203. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það ber að fagna því að þm. úr öllum flokkum hafi sameinast um að flytja þá till. sem hér var mælt fyrir. Eins og 1. flm. lýsti eru tvö meginefnisatriði í þessari till. Annars vegar að árétta það sem í till. er sagt að sé stefna Íslendinga: að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn eða eldflaugar, sem slík vopn geti borið, og hins vegar að kjósa sjö manna nefnd til þess að kanna þátttöku Íslands í umræðu um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.

Þó að ég fagni því að þessi till. er hér komin fram og taki undir með 1. flm. um það að hún fái skjóta afgreiðslu í utanrmn. er það því miður þannig að málið er ekki eins einfalt og hv. 1. flm. lýsti hér úr ræðustól. Í raun og veru má draga það mjög í efa að sú fullyrðing sem sett er fram í fyrstu setningu till. sé rétt. Ég hugsa t. d. að hæstv. utanrrh. og þá um leið núv. hæstv. ríkisstj. séu ekki reiðubúin að skrifa undir það að það sé stefna Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn. Að vísu er það þannig að hæstv. ráðherrar hafa gefið út mjög mismunandi yfirlýsingar um þetta efni. Sýnir það kannske best hve afstaða stjórnvalda í landinu er óljós og þeim sjálfum oft og tíðum jafnvel lítt meðvituð, hvað ráðherrar hafa gefið út mismunandi yfirlýsingar um þetta efni. Þessi mismunur hefur einkum falist í tvennu ef skoðaðar eru yfirlýsingar hæstv. ráðh. á undanförnum misserum. Annars vegar er sagt að á Íslandi verði ekki kjarnorkuvopn, sem er fullyrðing þessarar till., og hins vegar er sú stefna, sem hæstv. utanrrh. oftast nær hefur lýst sem stefnu sinni og hæstv. ríkisstj., að á Íslandi verði ekki kjarnorkuvopn nema íslensk stjórnvöld leyfi.

Hæstv. utanrrh. hefur oftast nær, þó hefur hann stundum lýst fyrra skilningnum, það hefur komið fyrir, m. a. í sjónvarpsviðtali, en hann hefur oftast nær lýst því yfir að Íslendingar séu aðilar að þeirri kjarnorkuvopnastefnu Atlantshafsbandalagsins að það sé opið hvort kjarnorkuvopn verði flutt inn í aðildarríkið eða ekki, en það sé hins vegar háð samþykki stjórnvalda í viðkomandi löndum. Athugasemdirnar sem hæstv. utanrrh. hefur gert við þær upplýsingar, sem William Arkin og New York Times hafa veitt, hafa ekki falist í því að það væri verið að áforma að flytja kjarnorkuvopn til Íslands. Mér vitanlega hefur hæstv. utanrrh. aldrei gert athugasemdir við það, heldur eingöngu að öll slík áform yrðu að vera háð samþykki íslenskra stjórnvalda.

M. ö. o., sé litið á stefnu stjórnvalda eins og hún birtist formlega gagnvart öðrum ríkjum, t. d. öðrum ríkjum innan Atlantshafsbandalagsins, þá er það því miður ekki rétt, sem stendur í þessari þáltill., að það sé stefna Íslendinga að hér verði ekki staðsett kjarnorkuvopn. Stefna Íslendinga í stjórnarfarslegu tilliti er hins vegar sú og væri æskilegt að hæstv. utanrrh. tjáði sig um það hér, skv. mínum skilningi, að hér verði ekki staðsett kjarnorkuvopn nema íslensk stjórnvöld samþykki svo. Hins vegar gerist það ærið oft, þegar þessi mál ber á góma, að menn lýsa því sem stefnu Íslendinga að við ætlum okkur ekki að taka við kjarnorkuvopnum af neinu tagi. T. d. hefur núv. hæstv. forsrh. nokkuð oft lýst skoðunum af því tagi. En ég er ekki viss um hvort hann gerir sér grein fyrir muninum á því sem hann er þá að lýsa og því sem er formleg stefna hans eigin hæstv. ríkisstj. Það er satt að segja nokkuð alvarlegt ástand í landinu, og óhugnanleg lýsing á umr. sem hér fer fram, að jafnvel svo ábyrgir aðilar eins og forustumenn í ríkisstj. skuli ekki gera sér grein fyrir þeim afgerandi mun sem þarna er á.

T. d. kom það oft fyrir að fyrrv. hæstv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson, lýsti báðum þessum stefnum sem sinni skoðun og það var oft ærið erfitt að átta sig á því hvorri stefnunni hann í raun og veru fylgdi. Það verður hins vegar að segja núv. hæstv. utanrrh. það til hróss, ef orða má það með þeim hætti, að hann hefur oftast nær kveðið alveg afdráttarlaust að orði um hvor stefnan það er sem hann fylgir. Það er því miður ekki sú stefna sem lýst er í þessari þáltill. Þess vegna væri það í raun og veru mjög merkilegt skref ef Alþingi samþykkti það, hvað þá heldur áréttaði, eins og stendur í þessari till., að það sé stefna Íslendinga að hér séu ekki staðsett kjarnorkuvopn, því að þar með yrði núv. hæstv. utanrrh. að breyta stefnuyfirlýsingum sínum ef hann vildi starfa í samræmi við þá viljayfirlýsingu Alþingis.

Ég taldi, herra forseti, alveg nauðsynlegt að vekja athygli á þessum mun, vegna þess að hann ruglar mjög alla þessa umræðu og gerir það að verkum að margir taka þátt í henni án þess að það sé í raun og veru mjög merkilegt skref ef Alþingi samþykkti það, hvað þá heldur áréttaði, eins og stendur í þessari till., að það sé stefna Íslendinga að hér séu ekki staðsett kjarnorkuvopn, því þar með yrði núv. hæstv. utanrrh. að breyta stefnuyfirlýsingum sínum ef hann vildi starfa í samræmi við þá viljayfirlýsingu Alþingis.

Ég taldi, herra forseti, alveg nauðsynlegt að vekja athygli á þessum mun, vegna þess að hann ruglar mjög alla þessa umræðu og gerir það að verkum að margir taka þátt í henni án þess að það sé í raun og veru skýrt hvað þeir eru að tala um. Þetta mál er hins vegar svo alvarlegt og mikilvægt, og við erum bundnir samstarfi í alþjóðlegum samtökum og viljum láta taka okkur alvarlega á alþjóðavettvangi, að það verður að vera nokkuð skýrt hvað menn eru að segja, hver stefnan sé og menn viti hvað það er sem verið er að fara fram á. Ég vil þess vegna spyrja hv. 1. flm. hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér í túlkun á þessari tillögu og hans ræðu að í henni sé ekki átt við neitt „nema íslensk stjórnvöld leyfi,“ heldur sé hér verið að setja fram alveg skilyrðislausa yfirlýsingu um það að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn, því að í till. er ekkert slíkt „nema.“

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því að í þessari till. eru flugvélar undanskildar. Till. er orðuð á þann veg að á Íslandi skuli ekki vera staðsett kjarnorkuvopn eða eldflaugar sem slík vopn geta borið. Nú er það þannig að skv. þeirri hernaðaraðstöðu sem hér er og þeim hernaðaráformum sem uppi eru, og læt ég það þá alveg liggja á milli hluta hvort menn eru sammála þeim eða ósammála, það kemur þessu máli í raun og veru ekkert við, en skv. þeim er gert ráð fyrir því að hér séu flugvélar sem geta borið kjarnorkuvopn. Og hér hafa verið lengi og eru enn flugvélar sem er hernaðarlega ætlað að geta borið kjarnorkuvopn, gegna því hlutverki innan hernaðaráætlana. Sá eiginleiki þeirra er nokkuð mikilvægur þáttur í starfrækslu þeirrar herstöðvar sem hér er.

Þess vegna vil ég spyrja hv. 1. flm.: Er það með ráðnum huga að flugvélar eru undanskildar í þessari till.? Er það ætlun flm. að hér verði t. d. leyft að vera með þær tegundir flugvéla sem geta borið kjarnorkuvopn — og það eru aðeins ákveðnar tegundir af flugvélum sem það geta — þannig að það sé opinn möguleiki að flytja kjarnorkusprengjur til þeirra á mjög skömmum tíma? Má í því sambandi vekja athygli á yfirlýsingum Carringtons lávarðar, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, þar sem hann lét þess getið fyrir nokkru síðan, frá því var greint í New York Times, að hann drægi það mjög í efa að á hættutímum, hvað þá heldur styrjaldartímum, gæfist nokkurt tóm til þess að hafa viðhlítandi samráð við stjórnvöld í viðkomandi löndum um það hvort og þá hvernig ætti að flytja slíkar sprengjur til viðkomandi lands. Í almennri umræðu sérfræðinga um þessi efni er almennt gert ráð fyrir því að ef stjórnvöld samþykkja staðsetningu flugvéla, sem geta borið kjarnorkusprengjur, í sínu landi séu þau að opna möguleikann fyrir slíkt. Mér er ekki kunnugt um það, að til séu hernaðaráætlanir eða það hafi komið fram í umræðum hernaðarsérfræðinga að áform séu uppi um að vera hér með eldflaugar sem geta borið kjarnorkuvopn. Vera má að svo sé þó að mér sé ekki kunnugt um það. En plönin hafa fyrst og fremst snúist um flugvélar sem geta borið slík vopn. Það má að vísu hugsa sér það að skilgreining tillögunnar sé á þann veg að ákveðinn hluti flutningskerfisins, sem flugvélarnar eru með, sé talinn eldflaug og þess vegna eigi tillagan að ná til þess. En það er ekki skv. venjulegri túlkun þess orðs.

Herra forseti. Það er eingöngu til þess að reyna að fá fram, bæði hjá flm. og öðrum hér, fulltrúa ríkisstj. sem hér situr, hæstv. utanrrh., nánari lýsingar á því hvað menn eiga í raun og veru við sem ég hef vakið athygli á þessum tveimur spurningum. sú fyrri felur í sér, eins og ég hef hér þegar lýst, að Alþingi lýsi því yfir að það hafi aðra stefnu í þessum málum en núv. hæstv. utanrrh. hefur lýst sem stefnu sinni og núv. hæstv. ríkisstj. Í öðru lagi felur textinn í sér að flugvélar, sem borið geta kjarnorkuvopn, eru undanskildar í þeirri stefnumörkun sem þarna fer fram.

Ég held að það væri mjög gagnlegt, til þess að við getum öll áttað okkur á því hvað það er í raun og veru sem við viljum, hvað það er í raun og veru sem við erum að segja, að nánari skýringar og svör fengjust við þessum athugasemdum. Kjarnorkuvopn eru í sjálfu sér, hvað þá heldur kjarnorkuvopn og tengsl þeirra við Ísland, í raun og veru svo alvarlegt umræðu- og viðfangsefni. Það er alveg nauðsynlegt að það liggi alveg skýrt fyrir hvað það er sem menn eiga nákvæmlega við og hvers vegna þeir setja hlutina nákvæmlega fram á þann hátt sem þeir eru fram settir, og þar liggi ekki að baki einhver misskilningur eða mistúlkanir, sem aðrir kynnu hugsanlega að færa sér í nyt, þegar að ákvarðanatöku kæmi.