19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3673 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

203. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka það sem hefur verið viturlega og hófsamlega sagt hér í þessari umr. Ég lagði áherslu á það í upphafi í framsöguræðu minni að þessu máli vildi ég halda utan við flokkapólitík. Ég taldi málið það mikilvægt að menn gætu ekki leyft sér að vera að reyna að ota sínum flokkspólitíska tota í flutningi þess eða í umr. Till. er sett fram með þeim hætti, eins og hér hefur komið fram hjá ágætum meðflm. mínum, til þess að reyna að sameina þingheim um að taka skref í rétta átt.

Þessi till. var ekki flutt til þess að reyna að sanna það að Páll Pétursson væri friðarengill blíður eða aðrir meðflm. hans, kannske aldeilis blíðastir allra. Hún er sett fram til þess að reyna að vinna mikilvægu máli, kannske einu því allra mikilvægasta. gagn. Þess vegna tel ég að innlegg hv. 3. þm. Reykv. Ólafs Ragnars Grímssonar hafi verið málinu til óþurftar. Till. er skýrt orðuð og lögð áhersla á það sem ég hélt að menn gætu sameinast um. Það er illt verk að reyna að sprengja upp þá samstöðu og það er undarleg andskotans árátta að reyna alltaf að finna eitthvað sem menn geta verið ósammála um, gera mönnum upp skoðanir og leggja svo út af skoðunum sem þeir eru búnir að ímynda sér að aðrir hafi. Ég held að það sé heppilegt að — (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur einbeitt sér undanfarið að því að vinna að friðarmálum um víða veröld. Ég held að það sé heppilegt upp á friðinn hér heima að hann sé úti að passa heimsfriðinn.

Varðandi orð hæstv. utanrrh. áðan vil ég taka fram svo það valdi engum misskilningi að í þessari till. er ekki verið að taka nema afstöðu til breytingar á afstöðunni til NATO, það felst ekki í þessari till. Það sem í þessari till. felst er fyrst og fremst frysting á núverandi ástandi. Kjarnorkuvopn eru ekki til staðar á Norðurlöndum. Það að vinna í þessum farvegi gæti orðið upphaf að öðru og meira og þarf að verða upphaf að öðru og stærra svæði, en það þarf auðvitað meira til að koma. Þessi umr. er ekki sett fram til höfuðs NATO, þessi umr. hlýtur að gerast með vitund NATO. Það er ekki verið að ákveða einu sinni í þessari till. — og ég undirstrika það æ og aftur — að við eigum að gerast aðilar að þessu kjarnorkuvopnalausa svæði eða með einhliða yfirlýsingu gerast þátttakendur í því. Annar liður till. fjallar um það að kjósa nefnd til þess að fylgjast með umr. þannig að hægt sé á grundvelli þeirrar athugunar og þeirrar þekkingar sem menn afla sér þar að taka ákvörðun um hvort við verðum með eða ekki.

Herra forseti. Ég get lokið máli mínu. Formaður utanrmn., hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, hefur upplýst mig um að hann muni reyna að láta þessar till. fá skjóta meðferð í n. Ákveðið var á fundi utanrmn. í gær að bíða eftir þessari till. áður en aðrar till. um utanríkismál yrðu afgreiddar frá n. Ég vona svo sannarlega að þessi till. verði afgreidd frá n. með jákvæðum hætti og ég vona og treysti því að fulltrúi Alþb. í n. treysti sér líka til að leggja það til.