19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3682 í B-deild Alþingistíðinda. (3025)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austurl. hefur mæli mörg orð eins og hann á vanda til. Hann telur að það veki athygli, ekki aðeins þingheims heldur og alþjóðar, að ekki sé sérstaklega kvatt sér hljóðs til þess að svara spurningum sem skýrt svar liggur fyrir um og hann einmitt vitnaði til. Ég er ekki jafnviss og hv. þm. um að orð hans um þessi mál og ýmis önnur veki alþjóðarathygli, en hvað um það ég skal fúslega útskýra af hverju ég hafði ekki kvatt mér hljóðs. Það var ósköp einfaldlega vegna þess að hæstv. forsrh. hafði lýst skoðun okkar allra. Ríkisstj. stendur einhuga að þessari skoðun og ég sé ekki að það sé nokkur einasta ástæða til að hver ráðh. komi upp á fætur öðrum til að endurtaka það.

Bæði hæstv. forsrh. og svo að sjálfsögðu hæstv. fjmrh. hafa gert það sem þeir hafa getað til að leysa þessa deilu, ég trúi því alveg, og fyrir mitt leyti hef ég gert það sem í mínu valdi stendur til að fá kennarana til að ganga inn í skólana. Ef hv. 5. þm. Austurl. hefur svo miklar áhyggjur af því að kennarar séu ekki inni í skólunum, hvers vegna hvetur hann þá ekki til þess að fara og gegna skyldustörfum sínum? Ég spyr hv. 5. þm. Austurl.: Telur hann að það sé í samræmi við lög landsins — (HG: Með leyfi forseta.) Ja, það má þó ætla að mér leyfist að draga ályktanir af þeim mörgu orðum sem hv. þm. hefur haft í frammi. Hann virðist telja að það sé í samræmi við lög landsins að kennarar séu fjarverandi frá skyldustörfum sínum og hann virðist telja að það sé eðlileg aðgerð kennaranna að valda því tjóni með fjarvist sinni sem raun ber vitni og orðið hefur. Ef hv. þm. telur eðlilegt að álasa ráðh. fyrir að einhverjar starfsstéttir þjóðfélagsins séu fjarri skyldustörfum sínum án lögmætra forfalla er hann auðvitað að beina orðum sínum til réttra aðila þegar ráðh. eru fjarverandi þingfund án þess að hafa leyfi forseta. En þegar um er að ræða allt aðrar stéttir sem eru fjarverandi án lögmætra forfalla er við þær að tala. Það voru ekki stjórnvöld sem gengu úr störfum sínum 1. mars, heldur tilteknir kennarar. Það eru þeir sem þurfa að fá hvatningu til að ganga til starfa sinna vegna þess sem ítrekað hefur komið fram um lögmæti þessarar gerðar, að ljóst er að hún er ekki lögmæt.

Í öðru lagi gerir þessi aðgerð engum gagn, en öllum tjón. Hún flýtir ekki fyrir lausn mála, hún greiðir ekki fyrir lausn mála og ég tel með ólíkindum að hún sé líkleg til þess að hagstæðari niðurstaða fáist en ella mundi vera.

Ég held, herra forseti, að óþarft sé að hafa fleiri rök um þetta mál. Ég held að mörgum séu þau ákaflega ljós. Að því er varðar það atriði, sem hæstv. forsrh. nefndi, að hópur kennara telji sig ekki vera ríkisstarfsmenn lengur, þá ættu þeir ekki að krefjast þess að ríkið semdi við þá. Ríkið semur við sína starfsmenn en ekki þá sem starfa utan ríkisgeirans. Það þarf að vera samræmi í þessum hlutum.

Hv. þm. spurði um hvað átt væri við með því, sem sagt var í frétt í NT í dag, að rætt yrði um það á ríkisstjórnarfundi hvort veita bæri kennurum þeim sem ekki hefðu komið til skyldustarfa sinna innan fárra daga formlega lausn frá störfum. Ég veit nú ekki hvernig á að útskýra þetta öðruvísi en það er sagt. Mér sýnist þetta þurfi ekki skýringa við. Það liggur alveg í augum uppi hvað þarna er átt við. Hv. þm. veit ósköp vel að til þess að ríkisstarfsmaður fái lausn frá störfum þarf vissar formsaðgerðir. Núna hafa ríkisstarfsmenn þessir, sem hér er um að ræða, frest til 1. júní. Lögum samkvæmt hefur verið framlengdur uppsagnarfrestur þeirra. Það er rétt, sem hv. þm. segir og virðist undrast, að ég hafði það traust á kennurum að ég hélt að þeir mundu virða lög landsins og hagsmuni nemenda sinna og ganga til skyldustarfa sinna og forða þeirri örvæntingu sem gripið hefur um sig meðal nemenda. Ég veit að það eru þm. í öllum flokkum sem eru sama sinnis og álíta að kennarar ættu að vera komnir til skyldustarfa sinna fyrir löngu. Það er nefnilega fjöldi manna í þjóðfélaginu sem hefur staðið áratugum saman í kjarabaráttu fyrir aðrar stéttir og slíkt fólk hefur komið að máli við mig og sagt: Við höfum staðið í erfiðri kjarabaráttu. Við höfum staðið í verkföllum. En við höfum skömm á ólöglegum verkföllum.

Það er mikill ágreiningur um þetta mál í þjóðfélaginu og það hafa gripið um sig mikil sárindi meðal löghlýðinna borgara, að maður ekki tali um þá nemendur sem verða fyrir mjög örlagaríkum áhrifum af þessari aðgerð. Þetta hefur mjög örlagaríkar afleiðingar fyrir marga einstaklinga sem eru ekki aðilar að þessari kjaradeilu. Það er það sem er hið sorglega í þessu máli. Það er vissulega sorglegt að þetta skuli blasa við, eins og hv. þm. vitnaði hér til, á ári æskunnar. Hvað á það unga fólk, sem hér hefur orðið fyrir tjóni, að hugsa um ár æskunnar? Hver var það sem brást skyldu sinni og hafði tekið að sér að starfa við kennslu þessa unga fólks?

Mér er alveg ljóst að það eru mjög skiptar skoðanir um þetta mál í Hinu ísl. kennarafélagi. Hins vegar veit ég að það er rétt að kennarar eru seinþreyttir til vandræða og það vilja þeir láta sjást í samtökum stéttar sinnar. Þeir vilja vissulega styðja vini sína og samstarfsmenn, en þegar að þessum atriðum er komið eins og þau blasa við í dag gerist það að sterkir einstaklingar í þessum hópi hafa þrek til að rísa upp og segja við vini sína: Kæru vinir. Þið eruð á rangri leið. Þið eruð að taka rangar ákvarðanir. Þið eruð að beita vopnum sem snúast gegn þeim sem síst skyldi og þau snúast líka gegn okkur sjálfum. — Og þess vegna segi ég enn og aftur að í máli sem þessu getur ekkert bjargað nema vitund og ákvörðun hvers einstaklings sem hér á hlut að máli. Það skipar enginn öðrum einstaklingi fyrir um að fara og halda uppi ólöglegu athæfi eða að vinna tjón þeim sem falinn hefur verið honum í umsjá.

Þess vegna er það að ég tel aðdáunarvert, og það er ekki einungis í þessari stétt heldur í öllum stéttum og hjá öllum þjóðum, að þeir einstaklingar sem hafa skipt mestu máli — allir einstaklingar skipta máli, mjög miklu hver og einn, — en þeir sem skipta mestu máli fyrir heildina, þeir sem vinna að framförum og umbótum í veröldinni, eru þeir sem hafa kjark til að taka þá áhættu að þeir séu beittir þrýstingi, að þeir séu beittir rangindum, að þeir séu beittir ósönnum ásökunum, um þá séu hafðar uppi rakalausar fullyrðingar, allt þetta þolir slíkt fólk. Það er slíkt fólk sem getur bjargað nemendum í skólum landsins. (HG: Hvaða fólk er þetta?) Það eru þeir kennarar sem snúið hafa til skyldustarfa sinna, sem eru fullir stéttarvitundar, en hafa tekið sér það fyrir hendur að reyna að leiða félögum sínum fyrir sjónir að þeir eru á rangri leið. Þeir vilja kjarabætur og vinna að kjarabótum.

Þjóðviljinn segir í dag að sex manns af 440 hafi snúið til baka. Seinast þegar ég vissi til voru þeir 60. Og það sem meira er að það er ljóst að fyrir síðustu helgi höfðu margir kennarar tekið ákvörðun um að snúa til baka í skólana, en þeim var snúið frá því í nafni stéttarvitundarinnar þannig að ástandið sem nú er í skólunum héldi áfram lengur. Ég veit um mjög alvarlegt tjón af þessum sökum. Þess vegna segi ég að ég vonast til þess enn og ég hef ekki gefið upp trú á að svo sjálfstæðir og sterkir og sanngjarnir einstaklingar séu í þeim hópi sem enn er utan við skólana, en á að vera við skyldustörf sín, að þeir muni koma nemendum sínum til bjargar því að hagsmunir nemenda skipta máli. Það er ekki einungis fjárhagur kennaranna sem skiptir máli, heldur líka fjárhagur nemendanna. Ef við ætlum að byggja upp betra skólakerfi hér um framtíð höfum við skilning á því að það verður unnið að þessum málum áfram í þeim anda sem lýst hefur verið yfir, í þeim anda sem hæstv. forsrh. lýsti yfir áðan. Ríkisstj. hefur á því fullan hug að vinna að uppbyggingu skólakerfisins á næstu árum vegna þess að þar er ein grundvallarauðlind þessa lands. Við munum halda því áfram hvort sem einhverjir einstaklingar kjósa að halda uppteknum hætti eins og nú hefur verið með þeim geigvænlegu afleiðingum sem það hefur haft og mun hafa ef það heldur áfram. Hvort sem menn úr kennarahópi halda áfram að vera utan skyldustarfa sinna eða ekki verður haldið áfram að vinna að lausn þessa máls skv. lögum landsins. Talsmenn ríkisstj. fyrir Kjaradómi munu vinna að því að mál verði þar leyst á þann veg, sem sagt var í samþykkt ríkisstj., að tekið verði tillit til þess munar sem myndast hefur í launum milli annars vegar háskólamenntaðra kennara og annarra háskólamenntaðra manna hjá ríkinu, til aukinna krafna sem gerðar eru til kennarastarfsins og til annarra forsendna Kjaradóms sem gera ráð fyrir, eins og hv. þm. vita kannske, nýrri skipan á launamálum opinberra starfsmanna. (HG: Af hverju er ekki samið um þetta?) Hv. þm. getur fengið lánað lagasafnið hérna frammi á skrifstofu. Þar er getið um ákveðna fresti í svona málum. Sá frestur er liðinn sem samninganefnd hafði til sinna starfa. Ef samkomulag hefur ekki náðst á tilteknu tímabili er Kjaradómi skylt að taka málið til umfjöllunar. Þá á auðvitað að flytja mál sitt þar og reyna að halda fram með rökum og upplýsingum málstað sínum. Það er enginn vafi á að sá málstaður sem studdur er með rökum og upplýsingum hlýtur að ná fram. Þannig stendur þetta mál nú.

Hv. þm. spyr: Af hverju er ekki samið um þetta? Ég veit ekki hvort hann er að hugsa um þá menn sem eru ríkisstarfsmenn eða þá sem eru ekki ríkisstarfsmenn. Ég hafði þegar fjallað um það mál og tel óþarft að fjalla um það atriði frekar. Það verður þá a. m. k. að vera alveg ljóst að þeir sem samið er við telji sig vera ríkisstarfsmenn. Það held ég að fleirum sé ljóst en okkur. Kannske er það þess vegna sem ekki hafa tekist samningar að fulltrúar HÍK í samninganefnd ríkisins sem gengu út 1. mars hafi kannske allan tímann alls ekki talið sig vera starfsmenn ríkisins og þess vegna hafi þeir átt erfitt með að komast að einhverjum samningum við ríkið að þeir töldu sig ekki aðila að málinu. Það er eins og hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að við höfum kannske vaðið í villu um þetta. Við fórum nefnilega eftir lögunum og þeim skilningi sem menn hafa almennt á því að þeir sem hafa ekki fengið lausn frá einhverju tilteknu starfi séu enn þá í því starfi. En það er ljóst eftir því plaggi sem dreift var á fundinum á Hótel Sögu á sunnudaginn og eftir ummælum fulltrúa HÍK í launamálaráði að svo er ekki frá hans sjónarhóli. Mér finnst þetta satt að segja skýra ýmislegt í þessu máli. Það hefði e. t. v. gengið miklu betur ef það hefði verið alveg ljóst frá sjónarmiði þess sem samdi að hann væri raunverulega réttur samningsaðili, þ. e. starfsmaður ríkisins. Þetta skiptir verulegu máli.

Ég held, herra forseti, að það hafi e. t. v. ekki mesta þýðingu að við ræðum þessi mál fram og aftur á Alþingi þó að það skipti í sjálfu sér máli. Ég held að þessi mál liggi ljós fyrir. Ég held að flestir þm. hafi af þessu miklar áhyggjur og ég skírskota enn til þeirra sem sjálfir eiga börn í skólum, bæði framhaldsskólum og grunnskólum. Þeir sem eiga börn í grunnskólum og ekki í framhaldsskólum þurfa að átta sig á því hvað bíður barna þeirra. Þeir munu væntanlega meta það mikils að kennarar snúi aftur til starfa sinna, að lögum landsins verði fylgt í skólum landsins eins og annars staðar í þjóðfélaginu.

Ég vil ljúka þessu máli, herra forseti, á því að ítreka einu sinni enn að ég hef enn þá trú á því að það sé réttlætiskennd til sem veldur því að kennarar snúi aftur til starfa sinna, að þeir taki ákvörðun um að fara og sinna nemendum sínum og forða frekara tjóni en orðið er. Af þeim lausnum sem unnt væri að beita að öðrum kosti er engin svipað því eins góð og ef þeir snéru aftur til starfa sinna.