19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3685 í B-deild Alþingistíðinda. (3026)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. flutti hér í vetur ræðu um kennara sem tvímælalaust varð til þess að framlengja verkfall opinberra starfsmanna um langan tíma. Hæstv. menntmrh. hefur nú nýlokið við að flytja ræðu sem örugglega á eftir að verða til þess að hleypa slíkum illindum í þessa deilu að hún verður enn erfiðari viðureignar en nokkru sinni fyrr. Ræða hæstv. menntmrh. var samansafn af aðdróttunum, persónulegum árásum, storkunum og heitingum í garð kennara almennt, forustu kennarasamtakanna sérstaklega, en þó einkum og sér í lagi í garð þeirra manna sem setið hafa með hæstv. ráðh. og öðrum forustumönnum og samningamönnum ríkisins við að reyna að leysa þessa deilu. Það er sérkennilegt að á þessum degi, þegar þjóðin bjóst við því að hæstv. ríkisstj. kynni að leita leiða til að leysa þessa deilu, kjósi hæstv. ráðh. að setja fram ögranir, svívirðingar og háðsyrði í garð forustumanna kennara.

Það er kannske skiljanlegt eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. menntmrh. hvers vegna hæstv. forsrh. reyndi að kappkosta það að tala einn í þessum umr. Engu að síður blasir það við að hæstv. menntmrh. hefur nú hér úr ræðustól Alþingis lýst því yfir að þeir menn, sem kennarar hafa valið til þess að vera sína fulltrúa, séu marklausir menn, við þá eigi ekki að tala. Það hafi verið mikil mistök að tala við þá.

Síðan er bætt við og sagt að fyrr en einhverjir stórir og sterkir menn rísi upp í röðum kennara sem leiði kennara aftur inn í skólana muni hæstv. menntmrh. og ríkisstj. ekki aðhafast neitt í þessu máli. M. ö. o.: ríkisstj. hefur greinilega ákveðið í morgun – ef hæstv. menntmrh. er talsmaður ríkisstj. — að ganga á hólm við kennarana í landinu, að bíða og sjá hver er hinn sterki, beita hótunum, ógnunum og persónulegum svívirðingum. Vinur litla mannsins, sem ekki þorir að tala hér á Alþingi í dag af því að forsrh. hefur bannað honum það, velur hins vegar Dagblaðið til að ausa svívirðingum yfir forustumenn kennarasamtakanna.

Hæstv. fjmrh. kýs í viðtali við Dagblaðið í dag að tortryggja og sverta sérstaklega formann HÍK með því að velta sér upp úr ættarnafni hans og frændsemi og skyldleika við annan forustumann launamanna og gera það að eins konar stefnuyfirlýsingu ríkisstj . eins og segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, í fyrirsögn: „Thorlaciusarnir mega ekki gera uppþot að atvinnugrein.“ Í viðtalinu segir svo nánar í þessum sama dúr, með leyfi hæstv. forseta:

„En Thorlaciusarnir“ — það er greinilega einhver manntegund hér á landi — „mega ekki gera uppþot í þjóðfélaginu að atvinnugrein. Þeir verða að kunna að tala við menn með það fyrir augum að ná sáttum. Við höfum reynt allt sem í okkar valdi stendur lögum samkvæmt, út fyrir lög fer ég ekki.“

Hæstv. fjmrh. hafði hér uppi margvíslegar ögranir, hótanir og illyrði í deilu BSRB í vetur. Það er samdóma álit allra að þær yfirlýsingar urðu til þess að skapa þjóðinni varanlegan kostnað og tjón vegna þess hve deilan stóð miklu lengur en þörf hefði verið á. Hæstv. fjmrh. gerði að lokum samning við opinbera starfsmenn sem hann hefði getað náð löngu fyrr ef hann hefði ekki hagað sér eins og ótíndur götustrákur í samskiptum við forustumenn opinberra starfsmanna og með sérstökum ræðuhöldum um kennara hér á Alþingi. Þau hleyptu reiði, réttlátri reiði, í raðir launafólks. Viðbrögðin voru þau að deilan framlengdist.

Nú hefur hæstv. fjmrh. greinilega kosið að fara aftur inn á þessa braut. Hann veltir sér upp úr frændsemi og tengslum formanns HÍK við formann BSRB og sendir kennurum í landinu þessa sérstöku kveðju á sama tíma og hann skýtur sér undan því hér á Alþingi að svara þeim spurningum sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson beindi til hans.

Það er sérkennilegt með þessa hæstv. ráðh. að ef þeir eiga kost á illindum í garð launafólks velja þeir ætíð þann kost. Þjóðinni og almenningi í landinu er bakað mikið tjón. Að lokum semja þeir náttúrlega, semja eins og í dæminu um BSRB. Þeim samningi hefði verið hægt að ná löngu fyrr ef ráðh. hefðu hagað sér eins og sæmilega kurteisir menn í þessum samskiptum. Nú er aftur farið inn á þessa sömu braut. Og nemendurnir í landinu eru fórnarlömb. Ungt fólk er að flosna upp frá námi, þolir ekki álagið, verður kannske mun seinna að ná sínum árangri, sumir hætta kannske alveg. Það er þvermóðska, stærilæti, ögranir og hótanir eins og fram komu í ræðu hæstv. menntmrh. hér áðan sem eru meginorsökin að þessari deilu.

Ef ríkisstj. ætlaði sér að halda sér við þá línu að þessir menn væru lögbrjótar, eins og hæstv. menntmrh. sagði hér hvað eftir annað og hæstv. forsrh. lét í skína, átti hún aldrei að tala við forustu kennarasamtakanna, þá átti hún aldrei að gefa til kynna að hún vildi ná samningum, hún vildi stuðla að viðræðum. Það gekk ekki upp að gera hvort tveggja.

Það kemur fram í málgagni hæstv. forsrh. í dag að ef yfirlýsing hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar um efnisþætti málsins yrði formleg yfirlýsing ríkisstj. væri hægt að leysa þessa deilu strax í dag. Formaður HÍK hefur lýst því yfir að ef ríkisstj. væri reiðubúin að gera efnisþættina í yfirlýsingu forsrh. að formlegri yfirlýsingu ríkisstj. sem stefnumótandi afstöðu fyrir úrskurði Kjaradóms væri þessi deila leyst. Þá gætu skólarnir hafið störf á morgun. Þá væru ekki neinar byrðar lengur lagðar á unga fólkið í landinu sem hæstv. menntmrh. nærri því grét yfir hér í ræðustólnum áðan af umhyggju sinni.

Málgagn hæstv. forsrh. spyr að því í dag í fyrirsögn: „Er ríkisstj. sammála Stein rími?“ Undirfyrirsögn: „Gæti leyst kennaradeiluna.“ Ég held að þetta sé alveg rétt ályktun hjá þessu málgagni Framsfl. Ef ríkisstj. væri reiðubúin að fallast á þessa túlkun væri þessi deila leyst. Það er alveg nauðsynlegt að hæstv. forsrh. svari því hér sem kennarar og almenningur og hans eigið málgagn spyr að: Hvernig stendur á því að ríkisstj. hefur ekki verið reiðubúin að gefa þessa yfirlýsingu? Stendur þá á öðrum ráðherrum Framsfl.? Stendur þá á ráðherrum Sjálfstfl.? Er það ágreiningur innan ríkisstj. sem kemur í veg fyrir að þessi deila verði leyst? Ef svo er þá er rétt að Alþingi skeri úr þeim ágreiningi. Alþingi ber auðvitað sinn hlut af þessari ábyrgð. Ef ágreiningur í ríkisstj. getur ekki leyst svo erfiða og hatramma deilu í okkar landi, sem hefur í för með sér svo miklar fórnir eins og hæstv. menntmrh. lýsti hér áðan, þá á Alþingi að skera þar úr. Þess vegna væri það mjög æskilegt að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir hvort hann sé reiðubúinn að gefa samningamönnum sínum heimild til að standa formlega að stefnuafstöðu sama efnis og forsrh. gaf út og forustumenn HÍK hafa sagt að gæti dugað þeim.

Ef hæstv. fjmrh. er hins vegar ekki reiðubúinn að gefa út slíka yfirlýsingu þá skýri hann það hér á Alþingi hvers vegna ekki, svo að mönnum sé það alveg ljóst hvar kjarninn í þessari deilu er. Sú afstaða hins vegar, sem kom fram hér hjá hæstv. menntmrh. í hinni makalausu ögrunar- og hótunarræðu sem hún flutti hér, er vísasta aðferðin til að framlengja þessa deilu um margar vikur. Það mætti ætla að það leynist með hæstv. menntmrh. einhver draumur um að verða einhvers konar Margrét Thatcher Íslands sem ögrar samtökum launafólks, beitir hótunum þar sem aðrir vilja samninga, gefst ekki upp fyrir kröfum kennara frekar en Thatcher gafst upp fyrir kröfum námaverkafólks. Kannske leynist með hæstv. menntmrh. sá draumur að eftir kannske eins árs harðsvíraða deilu kunni hún að standa sem sigurvegari á rústum hin íslenska skólakerfis eins og Thatcher stendur nú sem svokallaður sigurvegari á rústum mikilvægasta hluta í breska hagkerfinu.

Kannske að innbyrðis valdadeilur og karp innan Sjálfstfl. séu ein af orsökum fyrir því hvers vegna þetta mál er í slíkum hnút.

Herra forseti. Það ber að harma það mjög að hæstv. menntmrh. kaus að flytja þessa ögrunar- og hótunarræðu hér áðan. Hún er eitthvert versta innlegg sem komið hefur í langan tíma í þessa deilu. Það er sönnun þess að þrátt fyrir allt leynist einhver skynsemi með hæstv. forsrh. að hann veit að því færri af ráðherrum Sjálfstfl. sem tala í þessu máli því betra. Hins vegar verður ekki fram hjá þeim gengið að hæstv. fjmrh. fer með samningsvaldið í þessari deilu. Þeir menn sem mæta bæði í Kjaradómi og fulltrúum kennara eru hans fulltrúar. Fram hjá því verður ekki gengið. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. svari því hér hvort hann sé reiðubúinn að staðfesta á formlegan hátt það sem hæstv. forsrh. lýsti yfir fyrir nokkru eða, ef hann er það ekki, hverjar eru þá ástæður fyrir þeirri neitun.