19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3689 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að fagna fjarveru formanns Alþb. (Gripið fram í.) — 3. þm. Reykv. en ég ætla að fagna heimkomu hv. varamanns 3. þm. Reykv. Það fer ekki milli mála að hann kom á réttum tíma. Það er eins og hann komi alltaf á réttum tíma þegar vandamálin eru hvað mest í þjóðfélaginu.

Mér finnst áberandi í þessu máli hvað Alþb. hefur reynt að nota ráðh. og vandann sjálfan í auglýsingastarfsemi fyrir sjálfa sig. Framlag það sem hér hefur komið af þeirra hálfu í öllum þessum umr. hefur ekki verið kennarastéttinni eða vandamálinu, sem nú er við að glíma, til framdráttar nema síður sé, enda veit ég ekki til þess að kennarastéttin í heild sinni eða í smáhópum hafi falið þeim forsjá sinna mála.

Hv. 3. þm. Reykv. gat um að ég notaði skæting í skeytum mínum til forustumanna kennarasamtakanna. Það getur vel verið að hægt sé að túlka það svo. En ég er að svara því sem til mín hefur verið beint úr þeirri átt á líkan hátt en ekki eins beiskan. Ég er hér með tilkynningar, bréf til félagsmanna frá launaráði BHM, sýnist mér þetta vera, og launamálaráði ríkisstarfsmanna innan Bandalags háskólamanna á hinni síðunni.

Á baksíðunni er texti sem ekkert er annað en persónulegar svívirðingar á mig. Ég fékk skeyti í útvarpi og fjölmiðlum frá formanni HÍK sem ég átti alls ekki von á vegna þess að ég hef átt með honum þrjá eða fjóra fundi og þeir fundir hafa farið mjög vel fram, enda ekki nema eðlilegt — ef skilningur er ekki hvað bestur hjá þeim sem útskrifast úr æðstu menntastofnun þjóðarinnar á vandamálum þjóðarinnar hverju sinni, hvaðan á hann þá að koma? Halda menn að verkalýðshreyfingin, sem er samningsbundin um kjaramál, fari áfram eftir þeim samningum ef menntamenn þjóðarinnar, sem eiga að vita hvað lagaskyldur eru, brjóta lög og telja sig ekki þurfa að fara eftir þeim. (HG: Hverjir voru að því?)

Til mín var beint einni spurningu frá hv. fyrirspyrjanda og ég skal svara henni. Á síðasta fundi mínum með tveimur fulltrúum, formanni og ég held varaformanni, var það niðurstaða að við næðum ekki samkomulagi, við næðum ekki bráðabirgðasamkomulagi þrátt fyrir viðurkenningu á því að kennarar hefðu dregist aftur úr í launum. Boð fjmrh. var að hækka um einn til þrjá launaflokka til þess að jafna áður en til samninga yrði gengið. Því til viðbótar kom smáhækkun á yfirvinnustuðli sem reiknað er með að þýði um einn launaflokk. Auk þess var farið að þeirri ósk kennara að gerð yrði ákveðin bókun í ríkisstj. Það átti af okkar hálfu að vera tilraun til þess að leysa málið. En það leysti málið alls ekki. En þrátt fyrir það að við næðum ekki saman um bráðabirgðalausn með þessu tilboði fjmrn. til viðbótar bókun sem kennarar óskuðu eftir, þá tókum við þann hluta sem HÍK lagði áherslu á að yrði bókaður í ríkisstj. og gengum frá honum í ríkisstj. Það er samstaða um það í ríkisstj. og það er algjör samstaða um málið í ríkisstj.

Þetta er ekki í fyrsta sinn og það er ekki í annað sinn sem Alþb. ætlar að nota vandamál, sem ríkisstj. á að glíma við, til þess að staðfesta einhvern ágreining á milli ráðh. og það er í jafnmörg skipti sem Alþb. mistekst. (HG: Er þetta ekki allt Alþb. að kenna?) Það eru aðallega Alþb.-menn sem hér hafa talað í þessu máli og það er Alþb. sem tók þetta mál upp. Og það er Alþb.maður, fyrrverandi ráðh., sem hringdi til mín og spurði hvort ég vildi koma inn í og svara fsp. sem forsrh. var búinn að samþykkja að svara. Þess vegna er þetta svona einlitt þó að einn og einn annar þm. hafi tekið til máls í málinu.

En ég segi alveg eins og er, ég ætla ekki að beina fsp. til hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar, 7. þm. Reykv., alls ekki. En ég hef heyrt það frá forustu verkamanna að að sjálfsögðu munu þeir gera kröfur til sömu prósentuhækkana í launum og út úr þessum samningum kemur ef þeir á annað borð sprengja það launakerfi sem er við í lýði með þjóðinni í dag. Ég verð að segja alveg eins og er, það er ekki nokkur maður sem getur með rétti staðið á móti því að þeir fái sömu prósentuhækkun. Ég mundi ekki standa að því að verkamennirnir, sem vinna hörðum höndum að verðmætasköpun í þjóðfélaginu, í undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar sem öll okkar velmegun byggist á, yrðu enn þá einu sinni látnir dragast aftur úr, það er nóg komið af því. (ÓRG: Hvað fékk hann sjálfur mikla kauphækkun?) Ég veit ekki hvort þessi fsp. hv. 3. þm. Reykv. heyrðist. (ÓRG: Ég skal endurtaka hana.) Mér er engin þægð í að endurtaka hana, en mér er ákaflega lítil þægð í því að forseti leyfi svona frammíköll og samtöl ef það á að snúast upp í það að ég fái ekki að klára mitt mál. (Forseti: Samtöl eru ekki leyfð meðan á umræðum stendur og sá sem hefur orðið mælir í fullum rétti.)

Í framhaldi af síðasta fundi mínum með forustumönnum kennara í þessari vinnudeilu vorum við sammála um það að við næðum ekki samkomulagi um bráðabirgðalausn, að við næðum ekki samkomulagi um endanlega lausn. En við vorum sammála um það eitt — og upp á það tókumst við í hendur — að málið mundi halda áfram á eðlilegri leið skv. þeim farvegi, sem lög gera ráð fyrir í Kjaradómi. Deilan er einmitt komin til Kjaradóms. Ég veit ekki annað en að allir hafi skilað grg í dag. Að sjálfsögðu verður að virða þau lög.

Ég fagna því að ég hef verið svo einlæglega beðinn um að tala. Venjulega er ég beðinn um að tala ekki. En Alþb. saknar mín úr öllum vandamálum sem þeir eiga við að stríða vegna þess að ég gef þeim alltaf upp boltann til að koma upp aftur og verða sér enn þá meira til skammar. Þeir gera sér bara ekki grein fyrir því. En það er allt í lagi, nú er ég kominn upp og nú er ég búinn að tala, nú getið þið komið upp og haldið áfram að verða ykkur til skammar.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. prófessor Ólafi Ragnari Grímssyni að það sem hann vantar og hann saknar og ræður sér ekki fyrir illsku út af, það er að það vantar ágreining innan ríkisstj., þetta uppáhaldsumræðuefni Alþb.

Af hverju hef ég ekki komið fram og af hverju hef ég ekki talað? Það er einungis vegna þess að ég álít að svona viðkvæm mál, eins og kjaramál, sem eru orðin að viðkvæmum deilumálum og verkföll sem fylgja á eftir til að undirstrika þann samtakamátt sem er í þeim samtökum sem nú standa í kjarabaráttu, eru ekki að mínu mati til þess að ræða á torgum. Samninganefndir hittast og á ábyrgð ráðh. sem að sjálfsögðu á réttu augnabliki verður að gefa Alþingi yfirlit yfir það sem hann er að gera. En allan tímann gefur hann að sjálfsögðu ríkisstj. upplýsingar skref fyrir skref. Ríkisstj. öll hefur verið upplýst og er samstæð í málinu eins og það hefur gengið fram. Það er ástæðan fyrir því að ég hef ekki talað. Ég tel rangt af stjórnarandstöðu að reyna að gera vandamál þjóðarinnar að einhverju auglýsingaefni fyrir sjálfa sig á hv. Alþingi.