19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3691 í B-deild Alþingistíðinda. (3029)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt nokkuð til í því hjá hæstv. fjmrh. að það mætti notast við þá skilgreiningu á muninum á Sjálfstfl. og Alþb. að Alþb. er flokkur sem kýs að fjmrh. tali sem oftast, en Sjálfstfl. er flokkur sem kýs að hann tali sem sjaldnast. (Fjmrh.: Þetta er gamall brandari.) Nei, þessi er alveg nýr. Hann varð til undir ræðu hæstv. fjmrh.

Hæstv. fjmrh. sagði í lok sinnar ræðu að þessir samningar væru allt of viðkvæmt mál til þess að ræða það á torgum. Hér er nú baksíða næstvíðlestnasta blaðs landsins í dag. Þar er aðalefnið viðtal við hæstv. fjmrh. Hann er önnum kafinn við að ræða þessa deilu á torgum, alveg önnum kafinn, ræður sér ekki. Það streyma út úr honum yfirlýsingarnar. (Fjmrh.: Samningarnir eru ekki komnir.) Hér er hitt málgagn ríkisstj., líka frá deginum í dag. Þar er á einni aðalfréttasíðunni aðalefni annað viðtal við hæstv. fjmrh. þar sem líka streyma út úr honum yfirlýsingarnar. Það er nefnilega vandamálið við þessa deilu að hæstv. ráðh. er alltaf að ræða hana á torgum. Það var ekki verið að fjalla um það hér áðan. Það var hins vegar verið að vekja athygli á því að hæstv. ráðh. kýs að ræða delluna ekki á þeim vettvangi þar sem hann ber ábyrgð, þ. e. á hæstv. Alþingi. En hann er úti um öll torg að ræða hana. Hann er úti um öll torg að hleypa illu blóði í hana. Hann er úti um öll torg að ögra forustumönnum kennara. Hann er úti um öll torg að reyna að vera með útúrsnúninga til að gera þá tortryggilega. (Fjmrh.: Hvort ert þú að kvarta undan því að ég tala eða þegi.) Ég er að kvarta undan því að hæstv. ráðh. talar á röngum stöðum. — Nei, nei, hæstv. forseti. Ég hélt að hæstv. forseti ætlaði að fara að grípa bjölluna. Ég sé að það var misskilningur. Það gleður mig mjög því það er nefnilega munurinn á mér og hæstv. fjmrh. að ef ég kalla einu sinni fram í fyrir honum biður hann strax forseta um aðstoð, biður forseta að sjá nú til þess að ég segi ekki meira. Hins vegar er hann nú þegar búinn að kalla einum sjö sinnum fram í fyrir mér. Ég fagna því í hvert sinn. Það er munurinn á málfrelsinu í Alþb. og Sjálfstfl. Greinilegt að það gilda ekki sömu reglur hjá hæstv. fjmrh. gagnvart honum sjálfum og hann af yfirlæti var í samræðum við forseta áðan að segja að ætti að gilda um aðra þm.

Hæstv. fjmrh. taldi að við værum að reyna að efla deiluna og ófriðinn. Það er mikill misskilningur. Ég bið hæstv. fjmrh. að veita því athygli að í ræðu minni áðan var ég að vekja athygli á því að eitt einfalt skref hæstv. fjmrh. gæti orðið til að leysa þessa deilu, ná sáttum, ná friði, láta skólana taka aftur til starfa. Þetta skref væri eingöngu fólgið í því að hæstv. fjmrh. heimilaði fulltrúum sínum í Kjaradómi og samningamönnum sínum að gefa út yfirlýsingu um það að þeir mundu efnislega fara eftir yfirlýsingu hæstv. forsrh. um dagvinnutekjuviðmiðun. En það vakti hins vegar athygli að í ræðu sinni áðan svaraði hæstv. fjmrh. ekki þessari spurningu einu orði, kaus hins vegar að tala um allt aðra yfirlýsingu sem var gefin fyrir nokkuð löngu. Hann veik hvergi að þeirri spurningu sem ég bar fram, fjallaði ekki einu orði um þessa yfirlýsingu forsrh. og svaraði alls ekki spurningunni sem borin var fram. Þess vegna ber að harma það að þegar menn eru að reyna að benda hæstv. ráðh. á hvaða skref væri hægt að stíga til að leysa deiluna hafa þeir svo lítinn áhuga á því að þeir kjósa ekki einu sinni að ræða það, heldur víkja sér alveg undan og svara úf í hött og fara að rifja upp einhverja allt aðra sögu. Þess vegna hefur hæstv. fjmrh. enn þá ekki svarað þessari spurningu. Hann hefur ekki gert Alþingi grein fyrir því hvers vegna hann er ekki reiðubúinn að staðfesta efnislega yfirlýsingu forsrh. eða ef hann væri það hvenær hann væri þá tilbúinn að gera það.

Þess vegna standa forustumenn kennara, nemendur, foreldrar og þjóðin í heild sinni frammi fyrir því að hæstv. forsrh. hefur gefið út yfirlýsingu. Forustumenn kennarasamtakanna hafa lýst því yfir oftar en einu sinni á síðustu sólarhringum að verði þessi yfirlýsing efnislega staðfest á réttum vettvangi, en ekki bara í blöðum, sé deilan leyst. En hvorki hæstv. menntmrh. né hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh. hafa viljað svara því hér í dag hvers vegna þetta gerist ekki. Og það er svarið sem beðið er eftir. Meðan beðið er eftir því liggur alveg ljóst fyrir að það eru hæstv. ráðh. sem bera alla ábyrgð á því að þessi della er framlengd.

Herra forseti. Það er líka misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að það sé Alþb. sem eigi upptökin að því að benda á þennan flöt málsins. Þeir sem vekja sérstaka afhygli á þessum fleti málsins í dag eru málgagn Framsfl., dagblaðið NT, sem meira að segja hefur svo mikla umhyggju fyrir velferð Framsfl. að það skrifar í dag leiðara sem ber heitið „Framsóknarmenn vakni“. Það er þess vegna mikill misskilningur að þetta sé komið frá okkur í Alþb. Við erum einfaldlega að reyna að flytja þetta hérna inn á þennan vettvang, þessa ábendingu frá hinu málgagni ríkisstj., og reyna að laða ráðh. fram úr skotgröfum óhróðurs og ógnana yfir í að fara þá leið sem hægt er að fara til að ná sáttum.

Ég kallaði fram í fyrir hæstv. fjmrh. sem varð til þess að hann baðst skjóls hjá hæstv. forseta. Frammíkallið var að vekja athygli á því að það hefur nú gerst á undanförnum vikum, bæði með úrskurði Kjaradóms og í frjálsum samningum á vinnumarkaði, að gerðir hafa verið kjarasamningar og felldur úrskurður Kjaradóms þar sem kauphækkanirnar eru á bilinu 35 til 37 eða 38%. Menn geta deilt um hvort þetta sé æskilegt eða óæskilegt. En það hefur gerst, annars vegar í samningum sem eitt stærsta fyrirtæki þessa lands, Flugleiðir, hefur gert á frjálsum og almennum vinnumarkaði og hins vegar með úrskurði Kjaradóms fyrir nokkrum vikum, þegar úrskurðuð voru laun ákveðinna starfsmanna sem vinna hjá ríkinu, að fyrir liggur þessi viðmiðunartala. Það er þess vegna ósköp eðlilegt, þegar bæði Kjaradómur og eitt stærsta fyrirtæki landsins hafa náð niðurstöðu af þessu tagi, að aðrir hópar, sérstaklega kennarar sem óumdeilanlega hafa dregist langt aftur úr öðrum stéttum, horfi á þessa viðmiðun.

Herra forseti. Formaður Kjaradóms mun hafa lýst því yfir í gær að svo gæti farið að Kjaradómur kæmist fyrst að niðurstöðu í lok aprílmánaðar. Ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðh.: Ber virkilega að skilja yfirlýsingar þeirra hér í dag á þann veg að þeir ætli að bíða þar til í lok apríl? Þeir ætla ekki að eiga neitt frumkvæði. Þeir ætla ekki að reyna neitt til að ná sáttum. Ætla þeir jafnvel að halda frekar áfram á þeirri braut, sem þeir hófu að ganga hér í dag, að gefa í skyn að þeir sem væru að tala við þá væru eiginlega lögbrjótar. Það væri mesti misskilningur að vera að tala við þessa menn, þeir hafi ekkert umboð. Er það virkilega ákvörðun ríkisstj. eftir fundinn í morgun að skólakerfi landsins eigi að vera jafnlamað og það hefur verið undanfarið fram til loka aprílmánaðar? (ÁJ: Það er augljós villa í orðsendingu hv. 5. þm. Austurl.) Hver er hún, hv. ritari? Fyrst að ritari kaus að lesa á blöð mín í ræðustól vill hann þá ekki veita mér þá aðstoð að leiðrétta þessa villu? Nú vil ég biðjast aðstoðar hæstv. forseta. (Forseti: Það gildir enn sem fyrr að sá sem hefur orðið hefur rétt til þess að mæla og það er ekki gert ráð fyrir samtölum.) Mér þykir það leitt. Ég vildi gjarnan þiggja ráð frá hv. ritara. Mér er nefnilega ljóst að það er ein villa á þessum texta sem mér var afhentur hér í ræðustól, en ég las hana ekki upp. Ég sagði: „formaður Kjaradóms . Ég nefndi hann ekki með nafni. Það var því enginn villa í því sem ég sagði, hv. ritari. Hins vegar er skemmtilegt að fá það upplýst að þessi ágæti þm. Sjálfstfl., sem ég tel að eigi að fara á sem flest þing alþjóðleg og hérlend, stundar það sér til skemmtunar úr ritarastól og lesa á þá pappíra sem menn hafa með sér til aðstoðar í ræðustól.

Herra forseti. Ég var að ljúka máli mínu þegar ritari hóf þennan fjarlestur sinn. Það er greinilega niðurstaða þessara umr.hæstv. ríkisstj. hefur í dag hafnað sáttaleiðinni, hafnað því að gefa yfirlýsingu efnislega á grundvelli þess sem hæstv. forsrh. sagði fyrir nokkrum dögum. Hún hefur kosið leið ögrunarinnar, leið hörkunnar og ætlað sér ekki að aðhafast neitt í málinu fyrr en í fyrsta lagi að Kjaradómur hefur fellt úrskurð sinn. Það er ákvörðun ríkisstj. um að skólakerfið í landinu verði áfram lamað, jafnvel út aprílmánuð. Til að reyna enn einu sinni að aðstoða hæstv. ríkisstj. vil ég að lokum beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh.: Er ekki hæstv. fjmrh., og hæstv. menntmrh. einnig, reiðubúinn að beita sér fyrir því að Kjaradómur felli úrskurð sinn ekki síðar en í þessari viku? Það ætti að vera hægt. Það eru fullar efnisástæður til þess. Það væri lágmarksframlag hæstv. ríkisstj. til þess að leysa þessa deilu að hún beitti sér fyrir því að Kjaradómur flýtti störfum sínum.