20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3708 í B-deild Alþingistíðinda. (3043)

98. mál, sóknargjöld

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Auk þess sem fram kom hjá mér þegar ég mælti fyrir nál. mínu í upphafi þessarar umr. vil ég nú bæta því við að ég var ekki viðstaddur afgreiðslu málsins úr nefnd. Hún gerðist með nokkuð skjótum hætti og mér fannst strax, þegar mér varð ljóst hvernig nefndin hafði afgreitt málið, að hún hefði kannske afgreitt það með fullmiklum flýti og ekki hefði verið tekið tillit til ýmissa ábendinga, sem fram hefðu komið, m. a. ábendinga frá fjmrn., að vísu sennilega munnlega, en höfðu verið ræddar fyrr á vetrinum á nefndarfundum. Mér fannst að á nefndarfundum væri skilningur á því að það þyrfti að breyta vissum atriðum í þessu frv., en þó fleirum en till. er þarna gerð um og ég var ekki alveg sáttur við það hvernig afgreiðsla málsins fór fram. Nú er komið á daginn að þarna þarf að ýmsu að gæta, sérstaklega þegar við fáum nú bréf frá fjmrn. þar sem því er lýst yfir, eins og gert er í niðurlagi bréfsins, sem fjmrh. las áðan, að það geti svo farið að öll álagning opinberra gjalda tefjist um marga mánuði ef frv. þetta verður að lögum. Þá er meira en lítið að ef samþykkt frv. getur valdið slíkum búsifjum hjá ríkisstj.

Ég ítreka svo það sem ég sagði í nefndinni og sagði hér í upphafi umr. Mér finnst það óhæfileg hækkun gjaldheimtu að fara með þessa prósentu úr almennum nefskatti, eins og hér hefur verið upplýst að var árið 1982 200 kr. nefskattur á mann, og upp í skatt sem getur numið, að vísu í undantekningartilvikum, allt að 0.8% af útsvarstekjum manna. Ég efast ekkert um að þessi gjaldheimta verður tekin upp víða um land í mörgum söfnuðum allt upp í 0.8% og hefði kosið að vandamál þessara safnaða hefði verið leyst með öðrum hætti en svona mikilli aukningu skattheimtu.

Hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson tók af mér ómakið að sýna fram á hve mikil aukning væri þarna í skattheimtu því að hann upplýsti að á árinu 1982 hefði skattheimtan numið 10.3 millj. miðað við það 200 kr. gjald sem á var lagt. En ef lagt hefði verið á 0.8% gjald hefði skattheimtan numið 32.4 millj., sem sagt þrisvar sinnum hærri tölu. Sjá þá allir að það er ekkert ofmælt að þarna sé um verulega aukningu í skattheimtu að ræða. Ég hef reyndar heyrt þessi rök fyrr sem hv. þm. kom með. Hann nefndi reyndar skattprósentuna 0.4% sem gaf 16.2, en hæsta mögulega skattprósenta í sambandi við sóknargjöldin er 0.8% eins og hann réttilega nefndi líka. Það gefur útkomuna 32.4 millj. Það er meira en þrisvar sinnum hærra en nefskatturinn gaf svo að það þarf ekkert að fara í neinar grafgötur með það að þarna getur verið um stórfellda aukningu að ræða. Ég er ekki að segja að það verði það í Reykjavíkurprófastsdæmi, ég þekki það ekki svo vel. Það má vel vera að það verði ekki þar og sé ekki þörf á því þar. En bara þetta einfalda dæmi sýnir okkur hvað þarna getur orðið um mikla aukningu að ræða.

Það er út af fyrir sig rétt að skv. núgildandi lögum er heimilt að bæta við innheimtu sóknargjalda álagi eftir þörfum. En ég benti hins vegar á að það er ekki alveg sambærilegt við þá aukningu sem gefur verið skv. því kerfi sem hér er verið að gera till. um vegna þess einfaldlega að menn veigra sér við að hækka nefskatt upp úr öllu valdi eftir þörfum, skatt sem leggst á alla, háa sem lága. Þar hljóta af eðlilegum orsökum að vera ákveðnar takmarkanir sem koma af sjálfu sér þegar slíkt er lagt undir söfnuðinn. En hér yrði ekki um hliðstæðu að ræða og ákaflega hætt við því að í mjög mörgum tilvikum yrði þessi skattheimta 0.8% af útsvarstekjum og kæmi þá algerlega til viðbótar við það útsvar sem nú er á lagt. Það finnst mér of mikið.

Ég ítreka það sem ég hef sagt hér áður. Ég efast ekkert um að einstakar kirkjur þurfa á stórauknum tekjum að halda. Og ég efast ekkert um að breytingin, sem fólgin er í þessu frv., að breyta úr nefskatti og yfir í hlutfall af tekjum manna, er skynsamleg og rétt breyting. Ég hef ekkert á móti því að innheimta sóknargjalda skili auknum tekjum frá því sem nú er í heildina tekið. En þarna er of langt gengið og að óþörfu að minni hyggju. Miðað við þær umr., sem fram fóru í nefndinni þar sem mér fannst að þessi sjónarmið ættu miklu fylgi að fagna, kom mér hin óvænta og snögga afgreiðsla nefndarinnar á málinu nokkuð á óvart. Ég held að ljóst sé að það veiti ekkert af að nefndin taki þetta mál til nánari skoðunar.