20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3709 í B-deild Alþingistíðinda. (3044)

98. mál, sóknargjöld

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna þeirra ummæla hæstv. fjmrh. hér áðan að fulltrúi fjmrn. hefði ekki komið á fund nefndarinnar á þessu þingi. Það vill svo til að ég er fundarritari þeirrar nefndar sem um málið fjallaði. Hér er fundargerð 4. fundar sem haldinn var 5. des. 1984. Mættir þar voru Haraldur Ólafsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Árni Johnsen, Salome Þorkelsdóttir og Eiður Guðnason.

„1. Fyrir tekið 98. mál. Á fundinn mætti Árni Kolbeinsson frá fjmrn. Rætt um breytingar á upphæð sóknargjalda og innheimtu. Rætt og frestað. Fleira ekki gert. Fundi slitið.“

Þetta er undirritað af fundarritara og formanni, Haraldi Ólafssyni. Þar að auki veit ég, að formaður nefndarinnar átti alloft viðræður við fulltrúa fjmrn. í síma um þetta mál.