20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3710 í B-deild Alþingistíðinda. (3046)

98. mál, sóknargjöld

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. lét þess getið að ég hefði tekið af honum ómakið með upplýsingar og víst gaf ég honum upplýsingar eins og fram kom í hans máli. En hann hefði að vissu leyti mátt fara betur með þær upplýsingar og draga réttari ályktanir af þeim upplýsingum sem honum voru gefnar.

Hv. þm. bar saman. Ef fyllsta heimild skv. frv. væri notuð fékk hann út að þá hefði álagning sóknargjalda 1982 í Reykjavík numið 32 millj. en hins vegar hefðu álögð gjöld verið, eins og ég hafði tekið fram, um 10 millj. En þetta er ekki sambærilegt. Svona er ekki hægt að bera hlutina saman. Það var upplýst að 1982 var hin almenna heimild núgildandi laga ekki nýtt til fullnustu, þ. e. það voru lagðar 200 kr. á hvern gjaldþegn en ekki 250 kr. Þá hefði í fyrsta lagi hv. 3. þm. Norðurl. v. átt að bera saman hvað kæmi út ef það hefðu verið annars vegar 250 kr. á hvern gjaldanda og svo ef það hefðu verið hins vegar 0.8% af útsvarsstofni. En þá kemur annar samanburður, önnur niðurstaða. En þetta er ekki nægilegt. Hv. þm. hefði, ef hann hefði viljað gera þetta samviskusamlega, átt að bera saman hvað gjöldin hefðu verið há ef fyllstu heimildir hefðu verið notaðar skv. gildandi lögum. En ég virði hv. þm. það til vorkunnar að það gat hann ekki gert vegna þess að það eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja á mikið skv. gildandi lögum.

Auk þess gekk hann alveg fram hjá þeim upplýsingum, sem honum voru gefnar af mér, að skv. frv. eru líka frekari hömlur settar á að heimildir séu notaðar en er skv. gildandi lögum, þ. e. skv. gildandi lögum getur safnaðarfundur algerlega ráðið því sem gert er, en það er ekki hægt skv. frv. Það er sá varnagli í frv. að kirkjumálaráðh. verður að samþykkja. Þetta bið ég hv. þdm. að hafa í huga og hv. 3. þm. Norðurl. v.

Auk þess finn ég mig knúinn til þess að létta af honum þeim áhyggjum að öllu gæti nú stefnt í voða með álagningu og innheimtu útsvara á þessu ári ef frv. yrði samþykkt. Það þarf ekki að vera hvernig svo sem frv. er eða hvort tekið er tillit til athugasemda fjmrh. eða ekki, því að það er ósköp einfalt mál að ákveða gildistöku laganna þannig að engin vandkvæði séu í þessu efni.