20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3712 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég veit vel að hæstv. ráðh. er maður glaðbeittur og bjartsýnn, en þó þykir mér bjartsýni hans keyra úr hófi ef hann heldur að þetta mál í heild sinni, þ. e. jöfnun hitunarkostnaðar í landinu, verði til friðs fullkomlega. Svo er ekki, eins og hæstv. ráðh. veit mætavel þótt ýmislegt hafi verið gert í þeim efnum á síðustu árum. Hins vegar hefði verið gott að þetta með kirkjurnar hefði verið upplýst fyrr á þessum fundi vegna þess að kirkjunnar mál voru mjög til umræðu fyrr á fundinum og aukaálögur á safnaðarmeðlimi, á sóknarbörnin, m. a. vegna mikils kostnaðar við kyndingu á kirkjum, þannig að þetta „fagnaðarerindi“, innan gæsalappa að vísu, hefði betur mátt koma fyrr.

Ég ætla ekki að fara að efna til umræðna um þetta litla mál hér. Það má eflaust finna réttmæt rök fyrir því, og ég er sammála þeim rökum, að allt skuli þetta undir einum hatti. Þetta frv. minnir mig hins vegar á annað frv. frá í fyrra sem ég veit að hæstv. ráðh. kannast við. Það var myndarlegra og efnismeira frv. um jöfnun hitunarkostnaðar, um þetta sama mál, en þetta er ansi mikið rýrara, sem hér er, og aðeins ein lítil grein um smábreytingu. Það frv. var frv. um aðgerðir til jöfnunar í þessu einu veigamesta jöfnunarmáli þjóðfélagsins og einu þýðingarmesta máli fyrir landsbyggðarfólk. Það var hér til umr. í fyrra og skal sú umr. ekki endurtekin hér, en ljóst var á máli hæstv. ráðh. þá að honum þótti mikils um vert að ná fram því máli, frv. til l. um jöfnun hitunarkostnaðar, sem var í nokkuð mörgum greinum og sem hann taldi boða betri tíð í öllum greinum. Vissulega hefur ýmislegt verið gert þar, sbr. það orkusparnaðarátak sem hann minnti á áðan og ég skal ekkert draga úr að hafi verið býsna myndarlegt. En svo undarlegt sem það var um eitt af meginmálunum sem komu fram í fyrra, þá týndist það í nefnd og hefur ekki síðan sést. (Gripið fram í: Týndist?) Ja, ég man ekki betur en að það hafi týnst því ég man aldrei eftir að nál. kæmi. Hv. iðnaðarnefndarmaður veit kannske að þetta mál hafi komið í nál. þó ég hafi ekki orðið var við það.

Í þeirri nefnd sem um þetta mál fjallaði á sínum tíma áttu einmitt sæti þeir hv. sjálfstæðismenn í þessari deild sem mestan áhuga hafa sýnt þessu jöfnunarmáli, eins og hv. 4. þm. Vestf. og hv. 11. landsk. þm., og hafa sett þetta jöfnunarmál í allri sinni miklu stærð og þýðingu fyrir fólkið á landsbyggðinni sem forgangsmál. Ég veit ekki um ástæðu til þess að þetta frv. dagaði uppi, allavega dagaði það uppi, en þó rámar hv. þm. Skúla Alexandersson í að eitthvað hafi verið gert með þetta mál í n. En ekki hefur hún sýnt því þann áhuga og þann sóma að skila því frá sér, það er a. m. k. alveg ljóst, og það verður ekki skrifað á ábyrgð hv. 4. þm. Vesturl. heldur á ábyrgð einhverra annarra sem hafa ekki séð til þess ástæðu að þetta mál næði þá fram að ganga.

En ég get ekki stillt mig um það rétt aðeins að sýna samtímis þessi tvö frv., þetta litla frv. hér og hins vegar hið myndarlega frv. sem mælt var fyrir hér af röggsemi og venjulegri bjartsýni hæstv. ráðh. í fyrra, og um leið að setja nokkurt samhengi í þetta mál í heild sinni með því að óska eftir því að við 2. umr. þessa máls liggi fyrir samanburður á kostnaði við kyndingu með rafhitun nú og hvernig þau mál stóðu 1. júní 1983, að sjálfsögðu í samanburði við kaupmátt og þar með kaupgetu. Ég held að gott sé að glöggva sig á þessu, einkum í ljósi hins glataða frv. frá í fyrra. Ég bið hv. n. að fá um þetta óyggjandi upplýsingar. Nátengt þessu er rétt að fá einnig samanburð varðandi almenna rafmagnstaxta utan kyndingar, þ. e. venjulega taxta ljósa og annarrar notkunar, og þá í samanburði við kaupgetu 1. júní 1983 og aftur nú. Í ljósi þess hvernig fór um þetta frv. í fyrra er nauðsynlegt að fá þetta fram ef ástæðan kynni að vera sú að hv. iðnn., sem fékk þetta mál þá til meðferðar, hafi ekki afgreitt frv. af þeirri ástæðu að málið væri í það góðu ástandi nú að ástæðulaust væri að afgreiða það og fá fram úrbætur á því.

Þetta vildi ég gjarnan að kæmi fram við 2. umr., samanburður við valdatöku þessarar stjórnar og það hvernig þetta mál stendur í dag varðandi kaupgetu fólksins í landinu. Það gæti sparað fyrirspurnir í Sþ. Allt sem getur sparað okkur tíma og frekari fyrirhöfn í málþófi á þessu þingi er auðvitað af hinu góða.