25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

14. mál, frysting kjarnorkuvopna

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Er von á hæstv. utanrrh.? (Forseti: Það er von á hæstv. utanrrh. Ég veit ekki um komu hans upp á mínútu, en hygg að hann komi fljótlega.) Ég vona það, en ég ætla að hefja mál mitt.

Á s.l. þingi urðu miklar umr. um vígbúnað og afvopnunarmál, enda voru lagðar fram á því þingi a.m.k. fimm þáltill. um þau efni. Auk þess urðu þessi mál tilefni a.m.k. tveggja umr. utan dagskrár. Áhyggjur og áhugi þm. á þessum málum endurspeglar þann kvíða sem gripið hefur um sig meðal almennings, bæði á Íslandi og víða erlendis, ekki síst í Evrópulöndum, — kvíða og ótta vegna sívaxandi vígbúnaðarkapphlaups stórveldanna sem tefla framtíð mannkyns í tvísýnu og ganga þannig í berhögg við vilja almennings. Það hefur því á undanförnum árum vaknað meðal þjóða á Vesturlöndum sterkur vilji til að hafa áhrif á stjórnvöld landa sinna til að hindra frekari vígbúnað og hvetja til afvopnunar. Þeir einstaklingar eru sífellt fleiri meðal lýðræðisþjóða sem vilja ekki vera áhrifalaus peð í valdatafli stórveldanna og gera sér grein fyrir því að ógnarjafnvægi kjarnorkuvopna veitir aðeins tálsýndaröryggi en getur ekki tryggt frið.

Sú staðreynd að hin tvíþætta ákvörðun Atlantshafsbandalagsins komst til framkvæmda á s.l. ári með uppsetningu Pershing og Cruise- eldflauga í löndum Evrópu var mikið áfall fyrir þá sem höfðu beitt sér gegn þeirri framkvæmd. Þessi uppsetning hófst þrátt fyrir kröftug og fjölmenn mótmæli friðarhreyfinga víðs vegar um Evrópu og hún vakti upp spurningar um eðli lýðræðisins og virkni því að skoðanakannanir í löndum Evrópu hafa gefið til kynna afdráttarlausa andúð mikils meiri hluta almennings á því að kjarnorkueldflaugar séu settar upp í löndum þeirra. Undrun sætir því að þrátt fyrir yfirlýstan vilja meiri hluta fólks í þessum efnum í skoðanakönnunum eru á sama tíma kosnir til valda í sumum löndum þeir flokkar sem eru tvímælalaust fylgjandi auknum vígbúnaði og uppsetningu eldflauganna, t.d. í Bretlandi. Þetta sýnir einungis að jafnan er kosið um mjög mörg málefni í þingkosningum, en sjaldnast ræður eitt ákveðið málefni úrslitum.

Þó að uppsetning eldflauganna hafi valdið mörgum friðarsinnum miklum vonbrigðum, þá hefur hún jafnframt orðið til þess að efla samstöðu þeirra og ítreka fyrir þeim nauðsyn afvopnunar. Hún hefur enn fremur dregið athygli manna að því enn einu sinni hve fáránlegt slíkt kapphlaup er sem byggist á því að sanka að sér sífellt kraftmeiri og hættulegri vopnum og eiga líf sitt og öryggi undir því að þau séu ekki notuð eða af þeim hljótist ekki slys. Og menn velta því fyrir sér hvað Atlantshafsbandalagið muni nú taka til bragðs þegar Rússar telja sig hafa svarað uppsetningu Cruise- og Pershing- eldflauganna á viðunandi hátt. Og menn spyrja sig hvernig stigmögnun þessa kapphlaups muni enda.

Á s.l. þingi hóf ég umr. utan dagskrár til þess að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann gæti fallist á það að Alþingi Íslendinga fengi að greiða atkvæði um afstöðu Íslands til tillögu Mexíkó, Svíþjóðar og nokkurra annarra þjóða um frystingu kjarnorkuvopna sem þá lá fyrir allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna til afgreiðslu nokkrum dögum síðar. Þetta var 5. des. 1983 og síðan eru liðnar 46 vikur. Á árinu 1981 var ætlað að um 1 millj. dollara rynni til vígbúnaðar í heiminum á hverri mínútu. Ef við notum þessa tölu til viðmiðunar, og er þá líklega naumt áætlað, þá reiknast mér að á þessum 46 vikum sem liðnar eru síðan ég hóf fyrst máls á frystingu kjarnorkuvopna á þessu þingi hafi verið eytt 463 milljörðum 680 millj. dollara til vígbúnaðar í heiminum, a.m.k. Ég þarf ekki að tíunda það við þm. eða þegna þess lands, sem býr við soltinn og skuldugan ríkissjóð, hvað væri hægt að gera við 463 milljarða 680 millj. dollara annað en að kaupa fyrir þá vopn og vígbúnað. Ég þarf ekki að tíunda þann skort á hreinu drykkjarvatni sem hrjáir stóran hluta mannkyns og er undirrót sjúkdóma, sem t.d. eru helsta dánarmein ungbarna í heiminum í dag. Ég þarf ekki að tíunda þá fjölmörgu sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir eða lækna, en eru samt banvænir og skæðir í stórum hluta heimsins og taka ómældan toll mannslífa. Ég þarf ekki að tíunda hungurdauða milljóna barna og fullorðinna eða vannæringu og varanlegt heilsutjón af þeim völdum, örbirgð og menntunarleysi sem þjakar mikinn hluta mannkyns Ég þarf ekki að tíunda þessar hörmungar og ég þarf ekki einu sinni að benda á það hvað hægt væri að gera fyrir heiminn fyrir 463 milljarða 680 millj. dollara eða þaðan af stærri upphæðir annað en að smíða vopn, því að ég stend hér og tala við siðmenntaða, velviljaða og vel alda menn sem tilheyra þjóð sem hefur aldrei borið vopn og er sú sjötta ríkasta í heimi. Þess vegna hlýt ég að treysta þeim til þess að velja gegn vopnum og með lifi.

En ef til vill þyrfti ég að minna þá siðmenntuðu menn sem sitja hjá við afdrifaríkar atkvæðagreiðslur á þann ótta, vonleysi og kvíða sem grefur sig í huga og sál þeirra barna sem nú eru að alast upp. Þessi ótti liggur á bak við áhyggjulitið dagfar, en mótar viðhorf og val barna og unglinga til framtíðarverkefna. Og ég vil vitna í grein í breska blaðinu Sunday Times frá 21. okt. s.l., með leyfi forseta: Þar er greint frá könnun sem gerð var meðal 11–15 ára barna í framhaldsskólum í Bristol. Þar segir að fjöldi barna sé haldinn kvíða og finnist þau vera hjálparvana andspænis möguleikanum á kjarnorkustyrjöld. 91% barnanna halda að þau muni ekki lifa af slíkan hildarleik og 30% halda að slík styrjöld geti orðið á þeirra æviskeiði. Flest börnin segjast hafa fengið vitneskju um kjarnorkuvopn með því að horfa á sjónvarp og 78% þeirra finnst að það ætti að ræða þessi málefni í skólunum. Að dómi 80% barnanna gera stjórnvöld ekki nægilega mikið til þess að minnka hættuna á kjarnorkustríði.

12 ára gamalt barn skrifaði t.d.: „Ég hugsa um kjarnorkustyrjöld á hverjum degi. T.d. þegar hlýtt er úti og himinninn heiður og blár, þá hugsa ég hve hræðilegt það væri ef kjarnorkustyrjöld brytist út núna.“ Og barnið skrifar áfram: „Hvað viðkemur því að eignast börn, þá mundi mig að vissu leyti langa til að sjá nýtt líf vaxa upp. En ef barnið yrði sprengt í loft upp, til hvers væri þá að hafa eignast það?“

Í öðrum löndum, þar sem slíkar kannanir hafa verið gerðar meðal barns, hafa svipaðar skoðanir og tilfinningar komið í ljós. Og ég spyr: Friður hvers er friður ógnarjafnvægis? Og ég spyr enn: Hver ber ábyrgð á því að bjóða börnum upp á framtíð sem þau óttast og fyllir þau vonleysi og kvíða? Eru það bara tveir gamlir menn og nokkrir vinir þeirra? Ég segi nei. Það er samtíminn. Það eru allir þeir sem eru fullorðnir og láta ekki til sín taka til að fjarlægja þessa martröð úr lífi barna sinna. Og ég lýsi ábyrgð á hendur þeim. Stærsti óvinurinn í þessu efni er þitt eigið afskiptaleysi.

E.t.v. gæti ég líka minnt þá siðmenntuðu menn, sem trúa á ógnarjafnvægi kjarnorkuvopna, á þær rannsóknarniðurstöður sem hópar bandarískra og sovéskra vísindamanna hafa komist að á s.l. tveimur árum hver í sínu lagi. Þessar niðurstöður benda til þess að auk staðbundins eyðileggingarmáttar og langdrægra áhrifa geislavirkni, sem hafa verið mönnum næg áhyggjuefni hingað til, muni afleiðingar kjarnorkusprenginga jafnframt hafa í för með sér gífurlegar breytingar á loftslagi. Þessar loftslagsbreytingar spanna allan hnöttinn og eru fólgnar í því að hitastig lækkar vegna þess að sólarljós er byrgt af óteljandi reykögnum sem fylla andrúmsloftið í kjölfar þeirra elda sem sprengjan veldur. Lækkun hitastigs færi eftir stærð og sprengimætti sprengjunnar, en væri næg til að leggja á jörðina kjarnorkuvetur þar sem dýralíf og gróður ættu sér lítil sem engin lífsskilyrði og þess vegna ekki heldur menn. Hárr segir í Gylfaginningu um Ragnarök, með leyfi forseta:

„Mikil tíðindi eru þaðan að segja og mörg, þau hin fyrstu, að vetur sá kemur er kallaður er fimbulvetur. Þá drífur snær úr öllum áttum. Frost eru þá mikil og vindar hvassir. Ekki nýtur sólar. Þeir vetur fara þrír saman og ekki sumar milli, en áður ganga svo aðrir þrír vetur, að þá eru um alla veröld orrustur miklar. Þá drepast bræður fyrir ágirni sakar, og enginn þyrmir föður eða syni í manndrápum eða sifjasliti.“

Við utandagskrárumr. um atkvæðagreiðslu Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna — og ég fagna því að hæstv. utanrrh. er genginn í salinn — komu fram hjá hæstv. utanrrh. upplýsingar um þá ákvörðun Atlantshafsbandalagsins að fækka kjarnorkuvopnum í Evrópu. Það var minnst á 1000 vopn samfara framkvæmd tvíþættu ákvörðunarinnar og 1400 til viðbótar síðar. Í þessu sambandi tel ég nauðsynlegt að það komi fram að þau kjarnorkuvopn, sem verið er að fjarlægja, hafa lítið sem ekkert hernaðargildi, skipta engu máli fyrir hið svokallaða ógnarjafnvægi. Þetta eru yfirleitt gamaldags, úrelt vopn, ef svo má að orði komast, stuttdræg, tiltölulega kraftlítil og ónákvæm miðað við hinar nýrri kynslóðir kjarnorkuvopna. Það er því lítil fórn að fjarlægja þessi vopn því að hin nýrri, sem þegar hafa verið sett upp og áætlað er að verði sett upp, eru svo margfalt kraftmeiri, nákvæmari og langdrægari og jafnframt skæðari vopn að engu munar um ógnarjafnvægið þótt hin eldri hverfi. Það má því segja að þótt blessun sé að því að vera laus við þau, þá er fjarlæging þeirra ekki raunhæf tilraun til afvopnunar.

Það er ljóst að samningaviðleitni milli stórveldanna ræðst að miklu leyti af því hverjir sitja þar við völd og má með sanni segja að skipst hafi á kulda- og hlýviðrisskeið í þessum efnum. Það var sagt um Sigurð Fáfnisbana að þá er hjartablóð Fáfnis kom á tungu hans, þá kunni hann fuglsrödd og skildi hvað þeir fuglar sögðu er sátu nær. Hrædd er ég um að næmi þeirra Reagans og Chernenkos nái einungis að nema hlakk hauka, en kurr dúfna nái ekki gömluðum og döpruðum hlustum þeirra. Ráðgjafar Reagans hafa verið harðlínumenn í hernaðarmálum, ófyrirleitnir landvinningamenn sem hafa viðrað ævintýralegar hugmyndir t.d. um takmarkað kjarnorkustríð í Evrópu sem hægt væri að vinna, limited winnable nuclear war. Sömuleiðis hafa þeir hreyft hugmyndum um kjarnorkuátök í geimnum sem haldast í hendur við vinsælar ævintýramyndir um stjörnustríð úr hinu villta vestri nútímans. Eftir að uppsetning Pershing- og Cruise- eldflauga hófst í Evrópu tóku Rússar til við að flytja SS-20 eldflaugar til landa Varsjárbandalagsins þaðan sem þeim er beint að löndum Atlantshafsbandalagsins í Evrópu. Þetta tafl stórveldanna ógnar fyrst og fremst Evrópu, þessari heimsálfu gamalla menningarþjóða sem verið hefur vígvöllur tveggja heimsstyrjalda auk ógrynni annarra stríða og átaka um aldaraðir. Þjóðir Evrópu geyma flestar sögu blóðugra styrjalda og enn lifa þeir sem muna hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Það er því ekki að ástæðulausu að Evrópa er óttaslegin.

Frá því að uppsetning eldflauganna hófst og meðan kosningabarátta vegna forsetakjörs hefur verið háð í Bandaríkjunum má segja að biðstaða ríki í afvopnunarmálum á alþjóðavettvangi, en búast má við að dragi til tíðinda að loknum kosningum. Í umr. utan dagskrár í fyrra tók hæstv. utanrrh. undir það að á öllu veltur að samkomulag náist milli stórveldanna tveggja, Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Hann sagði enn fremur, með leyfiforseta:

„Í raun og veru sýnir reynslan það, að samþykktir jafnvirðulegrar samkomu og allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna megna litið ef þessi tvö stórveldi ná ekki saman.“

Það er að vísu rétt. En hitt er jafnvíst, að hinar þjóðir heimsins verða að beita öllum brögðum til að knýja þessi óbilgjörnu tröll til viðræðna og gildir þá einu hverjir sitja þar við völd. Þau eiga ekki heiminn og hafa ekkert leyfi til þess að skipta honum á milli sín, hvað þá að þau dirfist að tortíma honum.

Mér hefur orðið tíðrætt um Bandaríkin og möguleika vestrænna þjóða til að hafa áhrif á stjórnarfar sitt. Það er eðlilegt því að slíkt er leyfilegt og kleift í lýðræðisþjóðfélögum. Í Sovétríkjunum eru ekki greið samskipti við almenning til skoðanaskipta né heldur getur almenningur þar eða utanaðkomandi einstaklingar, hópar eða þjóðir vænst þess að hafa áhrif á afstöðu valdhafa. Þarna er ójafn leikur og gerir dæmið allt miklu erfiðara. Þar eru fjölmennar opinberar friðarhreyfingar, en þær gagnrýna ekki stefnu valdhafa eða hafa áhrif á hana. Þó efa ég ekki að almenningur í Sovétríkjunum þrái frið jafnheitt og íbúar Vesturlanda og við skulum ekki gleyma því að Rússar misstu 20 millj. manna í seinni heimsstyrjöldinni. En ráðamenn í Sovétríkjunum hafa notfært sér mótmæli friðarhreyfinga á Vesturlöndum stefnu sinni til framdráttar og reynt að réttlæta hana með þeirri gagnrýni sem friðarsinnar hafa borið á stjórnvöld landa sinna. Þetta framferði Sovétríkjanna tel ég ófyrirleitið og blygðunarlaust, en það veikir á engan hátt málstað friðarhreyfinganna. Og það undirstrikar einungis nauðsyn þess að rjúfa þá einangrun sem austantjaldslönd búa við. Það er nauðsynlegt að brjóta niður múrana og byggja brýr vinsamlegra samskipta með því að auka verulega vísindaleg, tæknileg og almenn menningarleg samskipti milli austurs og vesturs, svo og ferðamennsku og verslun. Það er nauðsynlegt á þessari öld upplýsingamiðlunar að auka þær upplýsingar, sem þjóðirnar hafa hvor um aðra með notkun sjónvarps og annarra fjölmiðla, til þess að eyða þeim óvinaímyndum sem hafa ráðið viðhorfum manna. Mergurinn málsins er sá, að bæði stórveldin hafa vopnastyrk til þess að gereyða hvort öðru og stórum hluta heimsbyggðarinnar í ofanálag. Það þýðir m.ö.o. að bæði eru í nógu sterkri hernaðaraðstöðu til þess að hafa efni á því að hefja viðræður um afvopnun. Átök um pólitísk valdahlutföll geta ekki notað kjarnorkuvopn sem skiptimynt. Ég álít það vera beinlínis hlutverk stofnunar eins og Sameinuðu þjóðanna að knýja fram og virkja þann pólitíska vilja sem er nauðsynlegur til þess að slíkar viðræður hefjist. Þess vegna þurfa allar aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna að beita sér saman og hver í sínu lagi innan og utan Sámeinuðu þjóðanna til þess að tryggja þennan pólitíska vilja.

þáltill. sem ég flyt hér nú ásamt hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur er endurflutt nær óbreytt frá síðasta þingi, en hún fjallar um frystingu kjarnorkuvopna og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að Sovétríkin og Bandaríkin lýsi yfir tafarlausri frystingu kjarnorkuvopna, annaðhvort með samtíma, einhliða yfirlýsingum eða með sameiginlegri yfirlýsingu. Slík yfirlýsing yrði fyrsta skref í átt að yfirgripsmikilli afvopnunaráætlun sem felur í sér:

1) Allsherjarbann við tilraunum með, framleiðslu á og uppsetningu kjarnorkuvopna. Enn fremur algera stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna til vopnanotkunar.

2) Frystingu sem er háð öllum þeim aðferðum til sönnunar og eftirlits sem þegar hafa verið samþykktar af málsaðilum í Salt I- og Salt II-samningunum auk þeirra aðferða sem þeir hafa samþykkt í grundvallaratriðum í þríhliða undirbúningsviðræðum í Genf um algert bann við kjarnorkuvopnatilraunum.

3) Frystingu sem gildir í fimm ár til að byrja með en gæti orðið lengri ef önnur kjarnorkuveldi slást í hópinn eins og vonir standa til.“

Í grg. segir, með leyfi forseta:

„Augu æ fleiri stjórnmálamanna eru að opnast fyrir þeirri staðreynd að kjarnorkuvopn eru ekki nothæf til að ná skynsamlegum pólitískum markmiðum né heldur er hægt að nota slík vopn til að öðlast hernaðarlega yfirburði vegna þess að ekki er hægt að nýta þau til hernaðarsigurs.

Eðli vopnanna og gereyðingarmáttur er slíkur að ekki er hægt að beita þeirri hernaðarlist og hugsunarhætti sem þróast hefur um hefðbundin vopn. Veröld okkar stendur því á barmi hyldýpis þar sem mannkynið býr nú yfir tækniþekkingu til að tortíma sjálfu sér. Kjarnorkustyrjöld mundi deyða hundruð milljóna manna á augabragði. Heimsmenningin yrði lögð í rúst og framtíð þeirra, sem kynnu að lifa af, væri ótrygg ef nokkur. Eyðileggingarmáttur þeirra vopnabirgða, sem Bandaríkin og Sovétríkin eiga nú, er langtum meiri en mögulegur fjöldi skotmarka beggja aðila. Því er það blekking að fleiri kjarnorkuvopn, af hvaða gerð sem er, gefi nokkra hernaðarlega eða pólitíska yfirburði.

Í þessu efni eru hagsmunir og velferð Íslands og alls heimsins sameiginleg, þ.e. að kjarnorkuvopnum verði aldrei beitt. Jafnframt er það skylda Íslands eins og allra annarra þjóða að leggja sitt af mörkum til að tryggja lausn þessa ógnarlega vanda.

Stórveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, eru komin í sjálfheldu og halda jafnframt stórum hlutum heimsbyggðarinnar í gíslingu með viðkvæmu og ótryggu ógnarjafnvægi. Óstöðugleiki þessa jafnvægis vex eftir því sem tækni hinna nýju vopna verður þróaðri og má sem dæmi nefna að nú er svo komið að einungis sex mínútur gefast til umhugsunar og ráðrúms til að bregðast við kjarnorkueldflaugum af Pershing Il-gerð sem settar voru upp á þessu ári í Evrópu. Sem svar við þessari ráðstöfun Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna hafa Sovétmenn síðan staðsett SS-20 kjarnorkueldflaugar í löndum Varsjárbandalagsins og þeim er beint að löndum Atlantshafsbandalagsins í Evrópu. Þetta minnkandi svigrúm og stirðar samningaviðræður um afvopnunarmál valda því að spenna í samskiptum stórveldanna fer vaxandi og eykur sífellt hættuna á kjarnorkuátökum.

Þessi till. miðar að því að hindra frekari vopnasöfnun. Hún er jafnframt tilraun til að draga úr þessu hættuástandi og rjúfa þennan vítahring. Mikilvægt er,“ og ég legg áherslu á þessa síðustu mgr., „mikilvægt er að Alþingi fjalli um þessa þáltill. áður en efnislega svipaðar tillögur verða bornar upp til atkvæða á þingi Sameinuðu þjóðanna, sem nú stendur yfir.

Á s.l. ári hafa þing annarra þjóðlanda Evrópu fjallað um afvopnunarmál og tekið afstöðu til þeirra. Má þar nefna bæði lönd innan og utan Atlantshafsbandalagsins. Þykir þá jafnan eðlilegt að utanrrh. framfylgi þeirri stefnu sem þingið hefur ákveðið. Á. s.l. þingi kom í Ijós í tengslum við þetta mál hve mikið vald utanrrh. Íslands hefur í raun og veru til þess að taka ákvarðanir fyrir Íslands hönd á alþjóðavettvangi, án þess að fyrir liggi vilji Alþingis. Það virðist nauðsynlegt að tryggja það að utanrrh. hafi umboð Alþingis þegar hann ákveður veigamiklar atkvgr. Íslands á alþjóðavettvangi, t.d. á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Atkvgr. Íslands í veigamiklum málum getur ekki og má ekki byggja á persónulegri skoðun eins eða neins utanrrh.

Þegar umr. fóru fram um þetta mál utan dagskrár í fyrra sagðist hæstv. utanrrh. hafa þegar ákveðið hvernig atkvæði Íslands skyldi falla, en það yrði á sama veg og árið áður, en þá sat Ísland hjá. Þar sem flestum mönnum þótti svo sjálfsagt að styðja slíka till. og það kom fólki á óvart að Ísland skyldi ekki hafa bein í nefinu til þess arna kviknaði talsverð umræða um málið sem leiddi til þess að nokkur fjöldi friðarhreyfinga og annarra hópa sendi áskoranir til alþm. um að styðja þessa till. um að þessi till. skyldi studd á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Í því sambandi langar mig að vekja athygli á grein sem biskupinn yfir Íslandi, herra Pétur Sigurgeirsson, skrifar í Morgunblaðinu í dag. Þar vitnar biskup í ályktun frá Prestastefnu Íslands 1982 þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Vér bendum á að málefni friðar og afvopnunar séu ofar flokkssjónarmiðum stjórnmálaflokkanna. Í málefnum friðar og afvopnunar hljóta allir menn að verða kallaðir til ábyrgðar.“

Og ég vitna til þeirrar ábyrgðar sem ég skírskotaði til áðan og þess afskiptaleysis og þess andvaraleysis sem ræður ferðinni.

Biskup vitnar enn fremur í ályktun Kirkjuþings 1983, með leyfi forseta:

„Kirkjuþing 1982 skorar á Íslendinga og allar þjóðir heims að vinna að friði í heimi, stöðvun vígbúnaðarkapphlaups og útrýmingu gereyðingarvopna. Þingið beinir því til stjórnmálaflokkanna og ríkisstj. að fylgja þessu máli eftir, bæði innanlands sem á alþjóðavettvangi. Þingið lýsir samstöðu með þeim samtökum sem vinna að friði, frelsi og mannréttindum á þeim grundvelli sem Kristur boðar og brýnir fyrir Íslendingum að meta það frelsi sem þjóðin býr við og nýta það til þess að skapa réttlátari heim þar sem almenn afvopnun verður liður í þeirri nýskipan efnahagsmála að lífsgæðum verði jafnað meðal jarðarbarna allra.“

Till. þessi, sem ég hef vitnað til áður, sem Mexíkó, Svíþjóð og önnur lönd báru fram, var samþykkt síðan á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna með 124 atkv., 13 ríki voru á móti og 8 sátu hjá, þar á meðal Ísland.

þáltill. sem ég flyt hér nú er efnislega lík þeirri till. Mexikó og Svíþjóðar sem áður var getið. Hún kom fram á síðasta þingi og var send til hæstv. utanrmn. eftir 1. umr. Þar var skipuð undirnefnd til að freista þess að sameina þær þáltill., sem fram höfðu komið, í eina till. sem Alþingi gæti síðan staðið að. Því miður reyndist ekki unnt að setja saman tillögu sem væri nægilega yfirgripsmikil til að rúma sjónarmið allra, en jafnframt svo innihaldsrík og ákveðin að menn nenntu að leggja henni nöfn sín. Því fór svo á síðasta ári að Alþingi tók ekki afstöðu til afvopnunarmála. En nú er komið annað ár og annað þing og þörfin fyrir afvopnun og stöðvun vígbúnaðar síst minni en áður. Því er þetta mál nú flutt af Samtökum um kvennalista og ég legg mikla áherslu á það að það fái afgreiðslu á þinginu í tæka tíð, áður en atkvgr. um svipaðar tillögur fer fram á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Það væri dæmalaust hugleysi og mikil skömm ef till. yrði tafin og næði ekki afgreiðslu í tæka tíð.

Ég legg svo til að málinu verði vísað til hv. utanrmn. að lokinni 1. umr.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.