20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3714 í B-deild Alþingistíðinda. (3051)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég er algerlega sammála því að frv. sem hér hefur verið lagt fram, þó að það sé lítið í sniðum, markar ákveðin tímamót.

Það hefur verið mikið minnst hér á nefndina sem er starfandi í þessum málum og hefur verið starfandi. Hér er sífellt talað um, sem eðlilegt er, mismun á raforkuverði til húshitunar og olíuverði. Ég vil minna á hvernig staðan er hjá hitaveitunum sem eru ekki síðri hitagjafi en rafmagnskynding. Það er þannig, miðað við 1. mars, að dýrasta hitaveitan á landinu, þ. e. hitaveitan á Akureyri, er komin með gjaldskrá sem er 86% á móti óniðurgreiddu olíuverði. Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar er með 80% miðað við óniðurgreitt olíuverð. Þetta verð ég að minna á vegna þeirra nýju veitna sem þarna er um að ræða. Þetta er stórkostlegt vandamál. Ég get jafnframt upplýst að hæstv. iðnrh. er að vinna að þessum málum og vona ég að komi út úr því gott eitt. En ég vil minna hv. þd. og þá nefnd sem um þessi mál fjallar á að athuga einnig mál hitaveitnanna. Það kemur fram einnig að aðrir staðir á landinu, t. d. varmaveitur sem eru kyntar með rafmagni mest og svo olíu, eru með mun lægri gjaldskrá. T. d. er Orkubú Vestfjarða ekki með nema 53% á móti óniðurgreiddu olíuverði. Ég ætla ekki að fara með fleiri tölur, en svona gengur þetta til.

En ég undirstrika að vandamálin eru mest hjá því fólki sem við hinar dýru hitaveitur býr.