20.03.1985
Neðri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3716 í B-deild Alþingistíðinda. (3061)

5. mál, útvarpslög

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Áður en atkvgr. fer fram eftir 2. umr. um frv. ríkisstj. til útvarpslaga vil ég fyrir hönd þm. Alþfl. taka fram eftirfarandi:

Í nóvemberlok kynntu þm. Alþfl. ítarlegar tillögur til breytinga á frv. Þær voru síðan lagðar fram á þskj. 518 21. febrúar s. l. Af okkar hálfu eru þar gerðar tillögur um margvíslegar breytingar, m. a. gerbreytta kaflaskiptingu og allt aðra en í frv. ríkisstj. er. Þar að auki liggja fyrir brtt. frá meiri hl. menntmn., tveimur öðrum minni hl. og frá einstökum þm. Eins og málið kemur frá nefnd er ljóst að uppi er mikill ágreiningur um ýmis meginatriði frv. Á hinn bóginn fjalla margar brtt. nánast um sömu atriði.

Ljóst er að mörg ágreiningsatriði geta risið við atkvgr. og hún verður ekki auðveld í framkvæmd. Því höfum við Alþfl.-menn ákveðið að draga brtt. okkar til baka til 3. umr. til þess að greiða fyrir framgangi málsins og auðvelda afgreiðslu þess á þessu stigi. Jafnframt viljum við hvetja til þess að aðrar till..um þau meginatriði sem mestur ágreiningur er um verði og dregnar til baka til 3. umr. Þetta er gert til að freista þess að enn verði reynt að skapa víðtækara samkomulag um þetta mikilvæga mál. Enn fremur er það tillaga okkar að á milli 2. og 3. umr. starfi samvinnunefnd að málinu, þ. e. menntmn. beggja deilda, til að gera úrslitatilraun til þess að málið geti hlotið endanlega og farsæla afgreiðslu á þessu þingi.

Þetta þýðir ekki að við höfum horfið frá þeim hugmyndum sem fram eru settar í brtt., alls ekki, heldur munum við flytja þær að nýju við 3. umr. málsins eftir því sem efni standa þá til. Samkvæmt þessu eru brtt. okkar á þskj. 518 dregnar til baka til 3. umr. til að greiða fyrir afgreiðslu málsins. Í ljósi þessarar afstöðu mun þingflokkur Alþfl. sitja hjá við þá atkvgr. sem nú fer fram við 2. umr. málsins.

Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi skýrt fram nú, áður en gengið verður til atkvæða.