20.03.1985
Neðri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3716 í B-deild Alþingistíðinda. (3062)

5. mál, útvarpslög

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig skemmtilegt að fá upplýsingar um það að Alþfl. skuli skyndilega hafa fengið áhuga fyrir útvarpslögum annars staðar en í orði. Sannleikurinn er sá að fulltrúi Alþfl. í menntmn. hefur ekki orðið til trafala á fundum yfirleitt af þeim skiljanlegu ástæðum að hann hefur yfirleitt ekki verið mættur þar þegar fjallað hefur verið um útvarpslagafrv. Ég get nú varla skilið að ástæða sé til þess að menntmn. fjalli öðru sinni um þau mál sem þar hafa verið ítarlega rædd, af þeirri einu ástæðu að Alþfl. sé tilbúinn til spjallsins. Ég held að Alþfl. verði að sætta sig við það að í meginatriðum er þetta mál útrætt í menntmn.

Ég vil í öðru lagi segja það, herra forseti, að það er viðtekin venja hér, ef ágreiningur er um mál, að skera úr um ágreininginn við atkvgr. Ég sé ekki að það auðveldi neitt þótt sú atkvgr. fari fram við 3. umr. fremur en 2.