25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

14. mál, frysting kjarnorkuvopna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Á síðasta þingi stóð ég ásamt þm. fimm þingflokka samtals að flutningi till. um nauðsyn afvopnunar og tafarlausa stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna. Sú till. hlaut hér umr. í þinginu og var vísað til hv. utanrmn. Fyrsti þáttur þeirrar till. fjallaði efnislega þá um það mál sem hér hefur verið mælt fyrir, þ.e. tafarlausa stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna, sem flm. kalla frystingu og er tekið eftir ensku heiti á þeirri hugmynd sem þekkt varð þegar bandarísku þm. Mark Hatfield og Edward Kennedy fluttu till. um það efni á Bandaríkjaþingi fyrir tveimur eða þremur árum.

Þegar ég mælti fyrir till. minni og annarra þm. um nauðsyn afvopnunar og tafarlausa stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna í fyrra gerði ég ítarlega grein fyrir þeim hugmyndum sem liggja að baki tillögum manna, bæði þeirra bandarísku þm. sem ég nefndi, svo og þm. frá mörgum þjóðþingum í heiminum sem undir þá hugmynd hafa tekið, og rakti þau rök sem liggja að baki.

Þegar hér kemur fram í þinginu till. frá hv. þm. Kvennalista um frystingu kjarnorkuvopna þótti okkur rétt, þm. Alþb., að flytja við hana brtt. sem viðauka við till. þeirra um tafarlausa stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna til þess að undirstrika að afvopnunarmálin eru víðtæk og að sjálfsögðu miklu víðtækari en hugmyndin ein um stöðvun og að nauðsynlegt er að taka á þessum málum í samhengi. Við teljum æskilegt að Alþingi Íslendinga og hv. utanrmn. fjalli um afvopnunarmálin í ljósi margra þátta sem þau snerta og sem að er vikið í brtt. sem þingflokkur Alþb. stendur að í heild og ég mæli hér fyrir. Brtt. okkar, við þskj. 14, sem er á þskj. 97, er svohljóðandi:

„1. Við tillöguna bætist:

Alþingi ályktar enn fremur að fulltrúar Íslands á alþjóðavettvangi lýsi yfir eindregnum stuðningi við eftirfarandi aðgerðir í afvopnunarmálum:

a) Öll kjarnorkuveldi skuldbindi sig til að beita ekki kjarnorkuvopnum að fyrra bragði.

b) Allar tilraunir með hernað í himingeimnum verði tafarlaust stöðvaðar og gerðir verði alþjóðlegir samningar sem banni öll vopn í himingeimnum og einnig vopn sem beint er að gervihnöttum og öðrum tækjum sem tengjast friðsamlegri nýtingu himinhvolfsins.

c) Norðurlönd geri formlegan samning um kjarnorkuvopnalaust svæði sem banni algerlega flutninga á kjarnorkuvopnum til Norðurlanda. Ísland lýsi sig reiðubúið að gefa út sjálfstæða yfirlýsingu um slíkt bann við flutningum á kjarnorkuvopnum til landsins.

d) Bannað verði að flytja kjarnorkuvopn í hafdjúpum og á hafinu innan efnahagslögsögu Íslands, Færeyja og Grænlands og leitað verði eftir samstöðu við þessar grannþjóðir um framkvæmd á slíku banni.

e) Kjarnorkuveldin hefji á árinu 1985 reglubundna árlega fækkun kjarnorkusprengja og flugskeyta, svo og flugvéla sem ætlað er að flytja kjarnorkusprengjur. Slík áætlun um niðurskurð kjarnorkuvopnabirgðanna miðist við að náð verði a.m.k. helmings niðurskurði á heildarbirgðum fyrir lok þessa áratugar og enn örari niðurskurði á næstu árum þar á eftir uns allsherjarkjarnorkuafvopnun hefur verið náð.

f) Mynduð verði alþjóðleg eftirlitsstofnun sem með nýtingu gervihnatta og reglubundnum eftirlitsferðum verði fær um að fylgjast með framkvæmd afvopnunar og að upplýsa brot á hinu alþjóðlega samkomulagi.

g) Stofnaður verði þróunarsjóður sem veiti fjármagn, sem áður var ætlað til hernaðar, til að hjálpa fátækum ríkjum heims þar sem tugir milljóna manna deyja úr hungri á sama tíma og árleg heildarútgjöld til hernaðar í heiminum nema yfir 50 þús. millj. dollara.

2. Fyrirsögn till. verði: Tillaga til þingsályktunar um aðgerðir í afvopnunarmálum.“

Herra forseti. Um mál þetta og till. okkar Alþb.manna svo og till. hv. þm. Kvennalista, sem hér var mælt fyrir áðan, mætti hafa mörg orð. Ég tel hins vegar að það sé ekki rétt nú eða ástæða til þess í ljósi þeirra umr. sem urðu um þessi mál á þinginu í fyrra að bæta á þessu stigi mörgu við. Ég vísa til framsögu minnar og máls í sambandi við till. um nauðsyn afvopnunar og tafarlausa stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna á fyrra þingi.

Ég tek heils hugar undir till. hv. þm. Kvennalista um tafarlausa stöðvun á framleiðslu kjarnorkuvopna eða frystingu. Ég tel að þar sé vissulega bent á mjög þýðingarmikið skref í þessum málum, en þó aðeins takmarkað skref þar sem frysting ein breytir ekki ástandi til þess vegar eða í þá átt sem þörf er á og þýðing þess að Ísland taki á málum með t.d. öðrum Norðurlöndum og grannþjóðum til þess að bægja frá kjarnorkuvá og vopnakapphlaupi í grennd við landið og á Norður-Atlantshafi er ótvíræð, og það er ekki síður á þá vogarskál sem við eigum að leggja lóð. Ég vænti þess að þessi brtt. okkar geti orðið samferða till. á þskj. 14 til hv. utanrmn. þar sem hún er viðauki við þá till.