20.03.1985
Neðri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3724 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

235. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég skal leitast við að svara þeim fsp. sem hv. 3. þm. Vestf. beindi til mín.

Hann spurði í fyrsta lagi hvort með ákvæði um framgang háskólakennara í embættum væri verið að fara bakdyramegin og fram hjá fjárveitingavaldinu. Við lítum ekki svo á. (Gripið fram í: Er það tryggt?) Já. Eins og fram kom í ræðu minni áðan er hér fyrst og fremst um að ræða fitla sem bundnir eru við einstaklinga og þýðir ekki fjölgun í stöðum. Við skulum nefna sem dæmi, að ef dósent er gerður að prófessor fær hann nafnbótina prófessor eftir fræðilega úttekt og eftir fræðilegt mat í samræmi við þær reglur sem Háskólinn setur, en í þá stöðu sem hann var í áður, dósentsstöðuna, verður ekki ráðið. Ef þessi maður hættir síðan störfum af einhverjum ástæðum, fellur frá eða hættir störfum, verður aftur ráðið í dósentsembætti og það verður auglýst sem slíkt. Hér er því fyrst og fremst um að ræða að veita kennurum Háskólans fræðilega viðurkenningu fyrir gott starf, fyrir fræðistörf. Það er vitað að bæði lektorar og dósentar innan Háskólans stunda mjög mikilvæg fræðistörf og í mörgum tilvikum engu minna virði störf en prófessorar vinna sjálfir. Þess vegna er talið rétt að opna möguleika til að veita lektorum og dósentum fræðilega viðurkenningu fyrir vel unnin störf. (KP: Eru þetta nafnbætur?) Þetta eru fyrst og fremst nafnbætur og að sjálfsögðu yrði ekki um að ræða annað en það sem fjvn. samþykkti hverju sinni.

Í öðru lagi var spurt hvort verið væri að auðvelda Háskóla Íslands að etja kappi við einkafyrirtæki. Ég er alveg tilbúinn að etja kappi við hv. 3. þm. Vestf. um það hvor okkar er meiri einkaframtaksmaður. Það skal ég gera hvenær sem er. En ég lít ekki svo á að við séum með þessum tillögum að níðast neitt á einkaframtakinu. Þvert á móti. Við erum að veita þeirri þekkingu, sem Háskólinn býr yfir, út í atvinnulífið og út í einkafyrirtækin. Hér er fyrst og fremst átt við að þær nýju hugmyndir, sem þróast innan Háskólans á fjölmörgum sviðum, geti með þátttöku Háskólans í slíkum fyrirtækjum komið að gagni í atvinnulífinu og skilað þar með auknum tekjum í þjóðarbúið. Auðvitað er hugsanlegt að fyrirtæki sem Háskóli Íslands á þennan hátt tekur þátt í lendi í samkeppni við einkafyrirtæki, en það held ég að sé áhætta sem verður að taka. Ég tel að hér sé fyrst og fremst um að ræða að veita nýjum hugmyndum farveg út í atvinnulífið, en ekki að fara í keppni við fyrirtæki um hugmyndir sem eru til staðar fyrir úti í atvinnulífinu. Ég held því að hér eigi að vera nokkuð vel um hnútana búið og ekki sé hætta á því að sú saga endurtaki sig sem ég vitnaði í áðan og ég tel að hv. 3. þm. Vestf. hafi líka haft í huga, þ. e. þá samkeppni sem Póllinn hf. á Ísafirði lenti í við raunvísindadeild Háskóla Íslands.