20.03.1985
Neðri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3728 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

235. mál, Háskóli Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni fyrir svörin sem hann veitti við fsp. mínum. Ég þakka sömuleiðis hv. þm. Gunnari G. Schram fyrir það sem hann lét frá sér fara sem mér sýnist nú, í sumum tilvikum a. m. k., stangast á við það sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson sagði. Ég held að sú sé niðurstaðan, eða ég skildi það svo, að hv. þm. Gunnar G. Schram telur þessar breytingar hafa í för með sér nokkra kostnaðaraukningu. Menn geta deilt um hversu litla eða mikla. En spurningin er sú: Er hér verið að reyna að komast fram hjá fjárveitingavaldinu sem á að ákvarða um þessi efni? Lítið kallar hann þriggja til fjögurra flokka launahækkun. Sumir hafa þurft að heyja harða baráttu til þess að fá laun hækkuð um þrjá til fjóra launaflokka. (Gripið fram í.) Lítið, segja menn, en eftir orð hv. þm. Gunnars G. Schram treystist ég frekar í þeirri trú að hér sé verið að fara bakdyramegin — lítil skref í byrjun kannske sem trúlega eiga eftir að verða afdrifaríkari áður en langt um líður.

Menn vitna mikið til reglugerða. Ég legg ekki mikið upp úr slíku. Ég veit mörg dæmi þess, og það veit ég að margir hv. þm. hér inni vita líka, að ýmsar reglugerðir, settar af ráðuneytum og ráðherrum, hafa gengið þvert á löggjöfina sem reglugerðin hefur átt að vera sett eftir. Í þeim efnum er framkvæmdavaldið farið að ganga þvert á ákvarðanir löggjafarvaldsins. Það eru mörg dæmi þessa, þannig að ég gef lítið fyrir það þó að menn vitni í að þessu verði kannske að mestu bjargað með reglugerð.

Ég er ekki endilega að tala sem fjvn.-maður. Ég er að tala sem þm., sem skattborgari, og vil vita á hvern hátt menn vilja láta fjármagn nýtast með öðrum hætti en hefur gert til þessa. Ég ætla ekki að fara að ræða um það við hv. þm. hvort launakjör háskólakennara eru góð eða slæm. Ég hef mína skoðun á því hver kjör t. d. prófessora við Háskólann kunna að vera. Um kennsluskyldu fengust upplýsingar á Alþingi á sínum tíma, hversu mikil kennsluskylda var á þeim tíma a. m. k., og hver launakjör þar voru. Ég ætla ekki að ræða um það. En ég ítreka enn að mér sýnist að hér sé verið að fara bakdyramegin fram hjá fjárveitingavaldinu þannig að þarna geti aðilar innan stofnunarinnar sjálfrar ráðið, að þessu leytinu a. m. k., án þess að spyrja Alþingi að.

Menn segja í sambandi við hitt atriðið að verið sé að koma í veg fyrir samkeppni. Ég er ekki sannfærður um að svo sé. Ég gæti miklu frekar ímyndað mér að hér væri verið að ýta undir samkeppni af hálfu opinbers aðila, í þessu tilfelli Háskólans, með fjárstuðningi úr ríkissjóði við ýmsa þá sem hafa verið að brasa í þróunarverkefnum af litlum efnum, en margir hverjir sýnt mjög góðan árangur. Þrátt fyrir þau svör sem fram komu hjá hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni við minni fsp. er ég enn ekki sannfærður um að hér séu menn að gera rétt. Og í ljósi orða hv. þm. Gunnars G. Schram er ég enn sannfærður um að nokkuð mikið sé til í þeim efasemdum sem ég hef uppi um þetta mál.

Ég skal ekki ræða hér hvor okkar hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar er meiri einkaframtaksmaður. En mér hefur sýnst og hef vikið að því nokkuð oft, a. m. k. í ræðum á Alþingi, að ýmsir, a. m. k. menn innan hins eina og sanna einkaframtaksflokks sem menn hafa viljað tala um til þessa, séu farnir að víkja nokkuð út af þeirri trú.