21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3733 í B-deild Alþingistíðinda. (3090)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um að falla frá hugmyndum sem uppi hafa verið um að reisa nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi, eins og ég svo kýs að nefna. Þetta er 206. mál á þskj. 241 og tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fallið skuli frá öllum hugmyndum um að heimila að reisa nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi og felur ríkisstj. að synja öllum óskum sem kunna að berast um leyfi til að reisa slík mannvirki á íslenskri grund.“

Í grg. eru færð rök fyrir þeirri till. flm. að heimila ekki þá aukningu á vígbúnaði bandaríska herliðsins á Íslandi sem flm. telja að nýjar ratsjárstöðvar óhjákvæmilega yrðu. Þar kemur fram að hér sé að sjálfsögðu fyrst og fremst um hernaðarmannvirki að ræða, enda verða stöðvar þessar, ef til kemur, kostaðar af fjárveitingum til hermála og rekstur þeirra sömuleiðis. Flm. telja að það samrýmist ekki almennum friðarvilja og vaxandi umræðum og áhuga um afvopnunarmál að á sama tíma heimilum við Íslendingar aukin umsvif herveldis í okkar landi. Það má út af fyrir sig deila um hversu þýðingarmikið hlutverk þessar ratsjárstöðvar sem slíkar leika í hernaðartaflinu, en þær eru þó óumdeilanlega liður í almennri uppbyggingu vígbúnaðar, almennri þróun í þessa átt og geta sem slíkar leitt til vaxandi spennu og ófriðlegra ástands umhverfis Ísland og á nálægum svæðum. Auk þess má benda á ummæli háttsettra manna í herafla Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins um að þessar nýju hernaðarratsjárstöðvar séu mjög þýðingarmikill hluti af nýjum áætlunum um vígvæðinguna í norðurhöfum.

Fyrir þessu Alþingi liggja fjöldamargar tillögur um afvopnunarmál og vígbúnaðarmál og utanríkismál almennt. Ég hygg að þær séu með þeirri till. sem hér er mælt fyrir ekki orðnar færri en sex eða þar um bil. Þetta sýnir þann áhuga sem uppi er á hv. Alþingi um aðgerðir í þá veru að draga úr spennu og hindra aukningu á vígbúnaðaruppbyggingunni. Einnig heyrast þær fréttir daglega í fjölmiðlum að stórveldin hafi nú loks sest að samningaborðinu til að ræða möguleikana á afvopnun og einkum og sér í lagi á kjarnorkuafvopnun eða afvopnun kjarnorkuvopna. Þessar vikur er því að mínu viti ákaflega illa valinn tími til þess að taka ákvarðanir um ný hernaðarmannvirki þegar þó er þessi glæta, þessi von um að eitthvað miði nú í rétta átt.

Í fskj. með till. kemur fram að í þeim byggðarlögum þar sem áformað er að setja upp þessar stöðvar er virk og mikil andstaða við þær hugmyndir. Birt er bænarskrá Vestfirðinga til ríkisstjórnar Íslands. Sömuleiðis er birt samþykkt útifundar sem haldinn var í lok friðargöngu á Langanesi 7. júlí s. l. Einnig eru birtar þar tvær greinargerðir eða blaðagrein og greinargerð eftir breskan sérfræðing, sem svarar þar fullyrðingum deildarstjóra varnarmáladeildar utanrrn., Sverris Hauks Gunnlaugssonar, sem hann setti fram í blaðagrein í Morgunblaðinu s. l. haust.

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að fara aðeins yfir aðdraganda þessa máls vegna þess að hann er með nokkuð sérkennilegum hætti, eins og reyndar oftar ber við þegar taka skal ákvarðanir um nýjan vígbúnað hér á landi. Sagan geymir mörg slík dæmi. Ég mun fara hér yfir það hvernig þetta mál hefur borið að höndum, hvernig það hefur birst almenningi í landinu og hvernig að því hefur verið unnið af hálfu utanrrn. og annarra sem beitt hafa sér fyrir því að vinna þessum hugmyndum brautargengi. En fyrst vil ég víkja aðeins nánar að þeirri andstöðu sem við þetta er, bæði í þeim byggðarlögum þar sem til stendur að setja þessar ratsjárstöðvar upp og einnig meðal þjóðarinnar allrar ef marka má skoðanakannanir sem birst hafa þar um.

Til viðbótar þeim fskj. sem ég vitnaði í áðan má nefna að íbúar við Þistilfjörð, úr þremur hreppum, hafa safnað hliðstæðum undirskriftum undir hliðstæða bænarskrá sem afhent var forsrh. og formönnum þingflokka fyrr í vetur. Þá má nefna að almennur borgarafundur í Svalbarðshreppi mótmælti þessum hugmyndum og hreppsnefnd Sauðaness hefur einnig gert samþykkt í sömu átt. Dagblaðið Vísir birti skoðanakönnun fyrir nokkrum vikum þar sem sama úrtak og spurt var um fylgi við stjórnmálaflokka var einnig spurt hvort það væri fylgjandi eða andvígt hugmyndum um byggingu nýrra ratsjárstöðva. Niðurstaða þeirrar könnunar varð sú, að meiri hluti þeirra sem afstöðu tóku var andvígur þessum hugmyndum. Ég tel að það sé því alveg ljóst að andstaða við þessar hugmyndir er mikil og almenn í landinu. Hún er ekki bundin við einstaka stjórnmálaflokka, eins og reyndar má glöggt sjá af mótmælum úr heimahéruðum og af því háa hlutfalli sem er andvígt þessum hugmyndum skv. skoðanakönnunum. Það eru því, að ætla má, bæði þeir sem eru fylgjandi aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og veru bandaríska herliðsins á Íslandi og einnig hinir sem eru þessu andvígir, öðru eða hvoru tveggja, sem hér hafa sameinast um að vera á móti þessum nýju hernaðarmannvirkjum.

Þegar fyrst heyrðist um hugmyndir ráðamanna hérlendis um að til stæði eða æskilegt væri að byggja hér upp nýjar ratsjárstöðvar og endurnýja eldri búnað á vegum herliðsins sem hér situr voru samhliða settar fram fullyrðingar um að þessi nýju tæki yrðu hið mesta þarfaþing og yrðu að miklu liði í ýmsum borgaralegum efnum hér á landi. Þannig var þess gætt vandlega að smyrja á sneiðina strax í upphafi og fullyrðingar voru settar fram um að þessar ratsjárstöðvar kæmu að miklum notum í skipaumferð, flugumferð og hvað það nú var sem þær eiga að geta gert. Hér var þannig unnið, að mínu viti, herra forseti, að óhjákvæmilegt er að staldra nokkuð við. Fyrst eru settar fram fullyrðingar um að svo og svo mikið gagn megi hafa af þessum mannvirkjum. Síðan er hafist handa um að leita raka til að styðja þær fullyrðingar.

Þegar ég spurði hæstv. utanrrh. um það hér á Alþingi fyrir rúmu ári hvaða áform væru uppi í þessum efnum komu þessar sömu fullyrðingar fram um gagnsemi þessara stöðva til ýmissa hluta, en nokkrum dögum áður hafði ég spurst fyrir um það hjá þeim stofnunum í landinu sem helst má ætla að hefðu upplýsingar um slíkt, svo sem eins og Landhelgisgæsla og flugmálastjórn, og þá kom fram í svari talsmanna þeirra stofnana að til þeirra hefði ekki verið leitað og þeir gætu á þessu stigi málsins engar upplýsingar gefið um hvort þetta kæmi þeim að notum eða ekki.

Því hefur verið haldið fram einnig að hér sé um íslenskt frumkvæði að ræða, að það sé íslensk uppfinning og sérfræðingar utanrrn. um rafsjárstöðvar hafi fundið það upp af eigin hyggjuviti og eigin vísdómi að brýn nauðsyn sé fyrir Íslendinga að fá slíkt mannvirki. Sú blekking hefur síðan verið afhjúpuð og gerð harla hlægileg, að mínu mati, þar sem ljóst er að um árabil hafa verið uppi áform meðal Bandaríkjahers um að koma slíkum stöðvum á laggirnar. Einnig er sagan af því hversu mikið gagn þessar nýtískulegu hernaðarratsjár eiga að gera fyrir skipaumferð grátbrosleg því það kemur í ljós þegar málið er skoðað að ratsjárnefnd treystist ekki til að styðja þá fullyrðingu, sem áður hafði verið sett fram, að þessar stöðvar séu gagnlegar í því skyni, en leggur þess í stað til að farið verði fram á það við Bandaríkjamenn að þeir setji upp sérstakar ratsjár innan stöðvanna sem komi að gagni við skipaumferð og yrðu þá aukageta með hinum ratsjárstöðvunum. Því var strax haldið fram af þeim sem þekktu til mála að það væri tæknilega séð mjög ólíklegt að slíkar hernaðarratsjár, sem fylgjast eiga með hraðfleygum flugvélum eða eldflaugum eða hvað það nú er, hentuðu vel til eftirlits með skipum. Nú sýnir sig að sá málflutningur stóð höllum fæti þó reynt sé að bera því við að verið sé að athuga með möguleikana á að breyta þessum stöðvum.

Það væri einnig fróðlegt, herra forseti, að rifja upp nokkur fyrri dæmi af því hvernig okkur Íslendingum hafa'verið matreiddar hugmyndir stjórnvalda um það að koma hér á fót nýjum vígbúnaðartækjum. Suður á Keflavíkurflugvelli eru nú að rísa sprengjuheld flugskýli, ætli þau séu ekki ein níu talsins sem þar eru í byggingu, og ekki eldri maður en ég man vel eftir því þegar fyrst var tekið að ræða um að nauðsyn væri á að byggja slík flugskýli. Þá var ein höfuðröksemdin sú að það væri svo mikið sandfok á Keflavíkurflugvelli að orrustuþotur hersins skemmdust af völdum sandfoks og þess vegna þyrfti að byggja yfir þær flugskýli. Nú má það vel vera að mikið sé um sandfok og það sé óvenjustrítt á Keflavíkurflugvelli, en það eru alveg ný tíðindi ef það þarf að byggja járnbent steinsteypt skýli með 11/2–2 metra þykkum veggjum til þess að halda úti íslensku sandfoki.

Svipaða sögu mætti segja af því þegar Lóran C-kerfið var sett upp hér og mönnum talin trú um að það væri fyrst og fremst til borgaralegra nota þó að ár, jafnvel áratugir, liðu áður en skip og flugvélar hefðu yfir þeim búnaði að ráða sem þarf til að taka á móti þeim merkjum og Lóran C-kerfið væri að sjálfsögðu byggt upp sem leiðsögukerfi fyrir Polaris-kafbáta Bandaríkjamanna og væri liður í þeirri áætlun á sínum tíma.

Allir þekkja söguna um það hvernig mengunarvarnir urðu allt í einu að margföldu birgðarými og olíuhöfn í Helguvík. Og man einhver eftir því, þegar íslensk stjórnvöld kynntu það fyrir þjóðinni að til stæði að leggja hér í land SOSUS-hlustunarkerfi sem lið í gagnkafbátahernaði, hvernig smurt var á sneiðina þegar við áttum að kyngja því? Í raun og veru held ég að þess hafi ekki þurft því að enginn hafði hugmynd um fyrr en löngu síðar að þessi nýi hlekkur í vígbúnaðarkeðjunni væri kominn hér í land. Sem sagt: Það er algjör skortur á upplýsingum í besta falli eða blekkingar og yfirbreiðslur notaðar til að gera vígbúnaðinn sakleysislegan og telja mönnum trú um að hér sé ekkert nema þá í mesta lagi eðlileg endurnýjun og eðlilegt viðhald á ferðinni.

Það þarf ekki að rekja hér, svo oft sem það hefur komið fram í umr., þá miklu uppbyggingu sem orðið hefur í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli og á öðrum búnaði Atlantshafsbandalagsins hér. Það er ljóst og um það vitna nýútkomnar skýrslur, m. a. frá öryggismálanefnd, að þessar nýju radarstöðvar eru liður í þessari þróun, eru hlekkur í þessu. Höfundur skýrslu sem nú er nýlega komin út hjá öryggismálanefnd, Gunnar Gunnarsson, byrjar nánast skýrslu sína á því að taka fram að allar séu þessar nýju framkvæmdir á vegum hersins nátengdar.

Ég vil lesa hér, með leyfi forseta, úr inngangi þessarar skýrslu, sem er ritgerð nr. 3 gefin út af öryggismálanefnd eftir Gunnar Gunnarsson. Þar segir, með leyfi forseta.

„Hugmyndir um nýjar ratsjárstöðvar eru nátengdar öðrum framkvæmdum og áætlunum sem varða Keflavíkurstöðina, eins og byggingu á steyptum flugskýlum í Keflavík, endurnýjun þeirra orrustuflugvéla sem þar eru, byggingu olíugeyma í Helguvík o. fl.“

Viðleitni ýmissa aðila til að láta fólk líta á þessar ratsjárstöðvar sem einangrað fyrirbrigði, sem einstakt og saklaust tilfelli í sjálfu sér, fær því ekki staðist, hún gengur ekki upp. Ég vona að skýrsla öryggismálanefndar hafi í öllu falli flett ofan af þeim tilraunum. Hvað sem hún kann annað að hafa gert til góðs eða ills, sú margnefnda skýrsla, held ég að engum sem lesi hana dyljist að höfundur fer ekki í grafgötur með það þar að allar séu þessar áætlanir nátengdar.

Það hefur einnig komið fram, og má vitna til sömu heimilda um það, að þessar radarstöðvar á Íslandi tengjast stöðvum á Grænlandi og í Færeyjum sem síðan eru hluti af ratsjárstöðvakeðju sem liggur um Alaska, Kanada, Grænland, Ísland og til Færeyja og er oft nefnd DEW-línan, sem mun vera skammstöfun fyrir Distant Early Warning. Þetta er gömul ratsjárstöðvakeðja sem var sett upp á sjötta áratugnum, að ég hygg, og er nú sem sagt í endurnýjun. Síðustu daga bárust fréttir af því að Kanadamenn og Bandaríkjamenn væru að gera með sér samning þar að lútandi.

Sú staðreynd að þessar ratsjárstöðvar eru hlekkur í þessari keðju segir ákaflega mikið og flettir einnig ofan af þeim áróðri, þeirri blekkingu sem oft hefur verið haldið fram, að sá búnaður sem á Íslandi sé sé einangrað fyrirbrigði og tengist engum öðrum vígbúnaði. Að sjálfsögðu eru þessar stöðvar liður í þessari ratsjárstöðvakeðju með þess kostum og göllum og heyra undir sömu stjórn o. s. frv.

Það er fróðlegt að fjalla örlítið nánar um þessa DEW-ratsjárstöðvakeðju og hvernig hún tengist öðrum vígbúnaði og hvernig hún tengist stjórnun herafla í Bandaríkjunum því ég efast um að menn hafi gert sér grein fyrir því á hvern hátt þessar nýju ratsjárstöðvar féllu inn í þessa heildarmynd. Þetta var eitt af þeim atriðum sem ég spurði hæstv. utanrrh. um í fyrra vegna þess að ég taldi þá og tel enn miklu varða á hvern hátt þessi mannvirki tengjast þessum heildarvígbúnaðarkerfum og ekki síður því hverjir fara með yfirstjórn og hverjir vinna úr þeim upplýsingum sem hér er aflað. Við þessari spurningu minni í fyrra bárust engin svör, alls engin, og vil ég því setja hér fram þær upplýsingar sem ég hef um þetta mál og vænti þess þá að þær verði leiðréttar eða betrumbættar ef aðrir hér á hv. Alþingi hafa betri upplýsingar.

Það er ljóst að þessar ratsjárstöðvar hér í Rockville og á Stokksnesi og einnig þær nýju, ef til koma, eru hluti af DEW-línunni, sem er eins og ég áður sagði, kerfi ratsjárstöðva sem var sett upp á sjötta áratugnum og nær allt frá Point Bay í Alaska yfir þvert og endilangt Kanada og Grænland alla leið til Íslands. Upplýsingar þær sem þetta kerfi aflar eru sendar til höfuðstöðva NORAD, sem er skammstöfun fyrir North American Air Defense System, í Cheyenne-fjalli í Colorado Springs, þar sem unnið er úr þeim. Síðan eru þær sendar til höfuðstöðva yfirstjórnar strategísks herafla bandaríska flughersins, sem er skammstafað SAC, Strategic Air Command, í Nebraska og annarrar æðstu stjórnstöðvar Bandaríkjahers til frekari umfjöllunar. Það yrði þessi sama stjórnstöð, SAC, sem stjórnaði hugsanlegri kjarnorkustyrjöld Bandaríkjanna við Sovétríkin og ákvæði skotmörk bandarískra kjarnorkuvopna m. a. á grundvelli þeirra upplýsinga sem DEW-línan aflar. Trúi menn ekki þessum upplýsingum geta þeir flett upp í bandarískum handbókum um vígbúnaðarmál þessu til sönnunar.

Ratsjárstöðin á Stokksnesi tengir síðan DEW-línuna við ratsjárstöð NATO í Færeyjum sem er í senn hluti af NADGE-varnarlínunni, sem er Nato Air Defense Ground Environment, og bresku ratsjárstöðvavarnarlínunni UKADGE, sem er United Kingdom Air Defense Ground Environment. Þessi mikla NADGE-lína teygir sig, eins og menn eflaust vita, frá Norður-Noregi suður til Tyrklands. Öll þessi mikla ratsjárkeðja, sem nánast umlykur Sovétríkin, var á sínum tíma reist í því augnamiði að bregðast við hugsanlegri árás sovéskra sprengjuflugvéla.

DEW-línan, sem upphaflega taldi samtals 81 ratsjárstöð, var eingöngu reist í þágu bandarískra varnarhagsmuna og lýtur alfarið bandarískri stjórn þótt íslensku stöðvarnar, kallaðar DYE 5 eftir höfuðstöð íslensku og grænlensku stöðvanna á Cape Dyer á Baffinslandi, falli að nafninu til undir Atlantshafsstjórn NATO. Þessi varnarlína veitti reyndar Bandaríkjunum strax í upphafi umtalsverða strategíska yfirburði. T. d. tryggði hún þeim og tryggir enn þann dag í dag um 2400 km forskot til að bregðast við aðsteðjandi árás eða sem svarar þriggja klst. flugi sprengjuþotu.

Sú áætlun sem nú er uppi um endurnýjun á DEW-viðvörunarkerfinu er kölluð SEEK FROST vestan hafs, en á Atlantshafssvæðinu er hún kölluð North Atlantic Defense System, sem er skammstafað NADS og hefur áður komið fram í umræðum um þessi mál. Framkvæmd, endurnýjun og skipulagning er í höndum sérstakrar deildar innan bandaríska flughersins sem nefnist ESD, Electronic System Division, og hefur aðsetur í Massachusetts. Sjálfur ratsjárbúnaðurinn verður algjörlega endurnýjaður er settar verða upp nýjar ratsjárstöðvar, sennilega af gerðinni General Elecric AN/FPS-117 ratsjár eða hliðstæðar gerðir. Fullkominn rafeindabúnaður þeirra mun gera stöðvarnar miklu fljótvirkari og afkastameiri en áður og þær eiga að geta skynjað miklu smærri hluti en hingað til. Fjarskiptakerfi þeirra verður stórbætt og tölvuvæðing mun spara bæði orku og mannahald, þannig að áætlað er að rekstrarkostnaður lækki um allt að 50%. Hins vegar munu allar þessar framkvæmdir að sjálfsögðu kosta milljarða dollara á milljarða ofan.

Þessar ratsjárstöðvar sem til stendur að setja upp á Íslandi munu að sögn aðmíráls nokkurs, Wesley McDonalds, sem er æðsti yfirmaður Atlantshafsherafla NATO, SACLANT, og Atlantshafsflota bandaríska sjóhersins einnig, CINCLANT, skipta höfuðmáli í því hvernig til tekst með hernaðaráform Bandaríkjanna og NATO í norðurhöfum. Hlutverk þeirra verður einkum tvíþætt: Á stríðstímum eiga þær að tryggja þolgæði, eins og það er nefnt, eða redundancy, loftvarnarkerfanna þannig að jafnvel þótt nokkrar ratsjárstöðvar og fjarskiptatengsl þeirra yrðu jöfnuð við jörðu yrðu nægar eftir til að veita upplýsingar. M. ö. o.: þær munu stórauka herstyrk Bandaríkjamanna á þessum slóðum. Á friðartímum og einkum þegar spenna ríkir munu þær ásamt öðrum eftirlits- og njósnakerfum gera stjórnstöðvum kleift að fylgjast með nánast hverri hreyfingu sovéskra flugvéla á svæðinu og afla þannig mikilvægra upplýsinga um styrk sovéska hersins og aðferðir, en slíkar upplýsingar eru m. a. forsenda þess að Bandaríkjaher geti þurrkað út sovéska herinn strax í fyrstu árás, eða First Strike Capability sem er herfræðilegt hugtak sem mjög er til umfjöllunar í Pentagon á þessum misserum. Þessar stöðvar eiga að sjálfsögðu einnig að gera Rússum og öðrum fjendum ljóst í eitt skipti fyrir öll hver það er sem valdið hefur í norðurhöfum.

Því hefur verið haldið fram að þessar stöðvar gætu komið í veg fyrir að fjölga þyrfti hér ratsjárflugvélum af gerðinni AWACS. Ég er ekki trúaður á það, herra forseti, og tel það vera hugarburð þeirra manna sem slíku hafa haldið fram. AWACS-flugvélunum héðan af Keflavíkurflugvelli er ættað að starfa með hinum nýju F-15 orrustuþotum og flugvélum af risaflugmóðurskipum og flotamálaráðherra Bandaríkjanna John Lehman hefur mælst til þess að fleiri AWACS-vélar verði sendar til aðstoðar orrustuflugsveitum flugmóðurskipa í Noregshafi og í kringum GIUK-hliðið. Bandaríski sjóherinn ráðgerir að kaupa 20 nýjar AWACS-flugvélar í náinni framtíð og flugherinn hefur þegar samið um kaup á tólf AWACS-vélum sem teknar verði í notkun á árunum 1986-1988. Einnig hafa nýlega verið birtar áætlanir um að efla stjórnunar- og fjarskiptabúnað á Íslandi til að hafa betri tengsl við AWACS-vélarnar.

Í ljósi þessarar þróunar er ólíklegt að AWACS-vélarnar verði aðeins tvær á Keflavíkurflugvelli um ókomna framtíð. Ratsjárstöðvarnar nýju munu hins vegar gera það að verkum að AWACS-vélarnar þurfa ekki að hafa eftirlit í næsta nágrenni Íslands eins og ella hefði verið, heldur geta þær einbeitt sér að eftirlitsstarfi lengra í burtu í Noregshafi og allt norður í Barentshaf og fullkomnað þannig getu Bandaríkjanna til að fylgjast með hverri hreyfingu í og yfir Norðurhöfum.

Herra forseti. Ég taldi óhjákvæmilegt að koma hér að þessum fróðleik sem ég hef undir höndum um þessar nýju stöðvar og hvernig þær tengjast almennt vígbúnaði og stjórnun herafla hér á norðurhöfum og á norðanverðum hnettinum. Þessu til viðbótar væri fróðlegt að rifja upp þær umræður sem orðið hafa í grannlöndunum, t. d. í Kanada þar sem endurnýjun DEW-línunnar hefur verið tengd geimstríðsáformum Ronalds Reagans og hans manna. Þar hafa orðið heitar umræður um hvort þessi mikla endurnýjun og sú mikla áhersla, sem nú er allt í einu lögð á endurnýjun þessarar gömlu ratsjárstöðvakeðju, tengist þessum áformum. Ég get vitnað í Gunnar Gunnarsson enn, starfsmann öryggismálanefndar, sem hefur látið hafa það eftir sér í fjölmiðlum, m. a. í Dagblaðinu Vísi nýverið, að stöðvarnar á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum tengist þessari keðju, ef menn eru enn í efa um að svo sé.

Og aftur að stjörnustríði. Fróðlegt er að upplýsa það, eins og menn eflaust vita, að hingað eru væntanlegar nýjar orrustuþotur, jafnvel á þessu ári, af gerðinni F-15 Eagle sem munu vera að sögn bandaríska flughersins hans fullkomnustu orrustuþotur. Þær hafa helmingi meiri flugdrægi eða vígradíus en fyrri vélar. Eitt sem þær hafa enn sér til ágætis er að þær geta borið þau flugskeyti sem ætlað er að leika aðalhlutverk í nýjustu geimstríðsáformum hernaðarhaukanna í Bandaríkjunum. Þær geta sem sagt borið þess konar flugskeyti sem ætlað er að setja á sprengjuodda til að eyða eldflaugum í ytri lögum gufuhvolfsins þegar þær eru væntanlegar þangað niður aftur. Þetta er sem sagt seinna þrepið af tveimur í geimstríðsáætluninni. Þessar orrustuþotur eru, eins og áður sagði, væntanlegar hingað alveg á næstunni.

Herra forseti. Ég hef áður vikið að því að gengið hafi illa að fá upplýsingar um þetta mál. Reyndar er það einkenni á öllum slíkum tilfellum, þegar verið er að læða hér inn nýjum vígbúnaði eða nýjum tækjum, að óskapleg þoka umlykur öll þau mál. Það hefur vakið nokkra athygli að bandarískur þm., þm. fyrir New York-fylki, Ted Weiss að nafni, skrifaði bandaríska flughernum og spurðist fyrir um þessar væntanlegu radarstöðvar, hvers konar stöðvar þar væru á ferðinni, hvaða tilgangi þær ættu að þjóna og hvort samtímis því að reisa þessar stöðvar ætti einnig að fjölga AWACS-flugvélum hér á landi og hvers vegna. Svör hersins voru stutt og laggóð: Öll ítarleg umræða um þessar nýju framkvæmdir varðar hernaðarleyndarmál og er það auðvitað af tvennum ástæðum, eins og herinn tekur fram: vegna hins hernaðarlega hluta málsins og einnig vegna þess að íslensk stjórnvöld eru sérstaklega viðkvæm fyrir því að um slík mál sé fjallað. Þetta er enn ein sönnun þess við hvað menn eiga að búa þegar taka skal ákvarðanir í þessum efnum. Mönnum er ætlað að trúa sölumönnunum sem koma og smyrja þykkt hunang á sneiðina og tala mikið um borgaraleg afnot, um ágæti þessara stöðva. Þær eiga jafnvel að vara bændur við rigningarskúrum á sumrin og telja hafísjaka og hvað það nú er sem þær geta gert. En sem minnst er fjallað um hernaðarlega hlið málsins sem auðvitað er það sem máli skiptir og hlýtur að ráða afstöðu manna öðru fremur í þessum efnum. T. d. vann nefnd hæstv. utanrrh., sem hann setti á laggirnar og lét vinna hér mikla skýrslu í fallegu brúnu bandi, og hún er líklega einar 34 eða 35 bls., þessi skýrsla, það afrek að fjalla á einni eða tveimur bls. um hina hernaðarlegu hlið málsins, en á 32 og 33 bls. um allt það ágæti sem af þessum stöðvum gæti nú leitt til sjávar og sveita. Það er reyndar fleira óvenjulegt við efnistök ratsjárnefndar. Hún birtir f. d. skýrsluna án þess að vitna nokkurs staðar í heimild og engin heimildaskrá fylgir skýrslunni. Ég veit ekki hvað er sagt í utanrrn. og varnarmáladeild um slík vinnubrögð, en ég veit hvað mér var kennt í gagnfræðaskóla í þessum efnum.

Herra forseti. Til að gera þetta ekki allt of langt mál, þó að vissulega sé af nógu að taka, er reynandi að draga saman í örfá afriði það sem fyrir mér eru meginatriði þessa máls.

Ég tel að fyrst og fremst sé óumdeilanlega um aukningu á hernaðarumsvifum að ræða. Ég held í öðru lagi að þetta flæki okkur enn fastar í vígbúnaðarnetið, í vígbúnaðaruppbygginguna, og geri stöðu okkar sem eyþjóðar í miðju Norður-Atlantshafinu enn alvarlegri en ella. Við Íslendingar hljótum að geta sameinast um að reyna að bægja vígvæðingunni frá ströndum lands okkar og reyna, að svo miklu leyti sem það er í okkar valdi, að hafa áhrif á að vitfirring vígbúnaðarkapphlaupsins haldi sig sem fjærst okkur, ef ekki er með öðrum ráðum hægt að losna við hana eða koma í veg fyrir hana yfirleitt. Ég held að ný hernaðarmannvirki hér geti ekki undir nokkrum kringumstæðum hjálpað okkur í þessum efnum, þvert á móti valdið hinu gagnstæða að auka spennu og viðsjár í þeim heimshluta sem við búum í. Ég held að þessar stöðvar auki hernaðarlegt mikilvægi Íslands.

Því er oft haldið fram að hernaðarlegt mikilvægi Íslands sé vegna hraunlaganna sem hér eru, sé vegna millilaganna, sé vegna moldarinnar, sé vegna þess að í Atlantshafinu er dálítið af grjóti og mold. Ég held að svo sé ekki. Ég held að fyrst og fremst sé Ísland hernaðarlega mikilvægt nú vegna þess búnaðar sem hér er. Það eru breyttir tímar. Hversu kært sem mönnum kann að vera að skoða heiminn út frá sama sjónarhóli og þeir gerðu í síðari heimsstyrjöldinni eða í miðju kalda stríðinu verða menn að kyngja því að það eru breyttir tímar. Það eru komin til sögunnar ný vopn og nýjar áætlanir um að nota þau vopn og það gerbreytir þessari mynd, einnig því á hvern hátt Ísland er hernaðarlega mikilvægt. Það er ekki lengur hernaðarlega mikilvægt vegna þess að menn geti siglt úr höfn með flota, komið hingað eftir viku, tekið hér land og byrjað að byggja bragga og hreiðra um sig á þann hátt. Þannig reikna menn ekki með að hlutirnir gerist. Kannske ættum við að segja: því miður ef til hernaðarlegra átaka kemur. Ísland verður mikilvægt í þær 15 til 30 mínútur sem slíkir atburðir hafa aðdraganda og þá er það að sjálfsögðu vegna þess búnaðar sem hér er eða hægt er að flytja hingað með örskömmum fyrirvara, ekki vegna hins sem kynni að gerast á vikum eða mánuðum.

Þessar ratsjárstöðvar setja, ef af yrði, hernaðarmannvirki niður í landshluta sem engin slík hafa fyrir. Slíkt eru að mínu viti umhverfisspjöll. Það yrðu bæði siðferðileg og náttúruleg spjöll á umhverfi manna og það veldur samfélagslegri mengun. Við hljótum einnig að geta sameinast um að hafa slíka hluti á sem afmörkuðustum svæðum ef við þurfum að hafa þá yfirleitt. Þess vegna væri það einnig afturför að þessu leyti ef landshlutar, sem lausir hafa verið um árabil við allt sem minnir á hernað, fengju slíkt til sín.

Ákvörðun um að leyfa þessar framkvæmdir er ákvörðun um að leggja lóð Íslands á vitlausa vogarskál. Þetta er lóð á vogarskál áframhaldandi vígbúnaðar, áframhaldandi tortryggni í stað þess að reyna að stuðla að afvopnun og slökun. Ákvörðun um nýjar hernaðarframkvæmdir er ákvörðun um sóun á fjármunum á bál þessarar vitfirringar sem er mesti glæpur jarðarsögunnar. Þetta er liður í gereyðingarvígbúnaðinum og því kapphlaupi sem sveltandi heimur hefur orðið að horfa upp á á sama tíma og fólk um víða veröld vantar sárlega fjármuni til að geta satt hungur sitt, svo að ekki sé nú talað um annað.

Þá er enn ónefndur einn þáttur þessa máls sem lítið hefur farið fyrir í umfjöllun fjölmiðla og að sjálfsögðu enn þá minna í umfjöllun utanrrn., varnarmáladeildar og ratsjárnefndar, en það er sú ákvörðun að með því að byggja þessar stöðvar og starfrækja þær með þeim hætti sem hugmyndir eru uppi um á að flækja alíslenskar stofnanir, svo sem Landssímann, flugumferðarstjórn, Landhelgisgæslu, tilkynningarskyldu og fleiri slíka aðila inn í hernaðarleg málefni. Ég held að þar sé á ferðinni stórvarasöm fyrirætlun. Ámælisvert er hvernig talsmenn þessara stofnana hafa hagað sér að því leyti að það virðist ekki hafa valdið þeim neinum áhyggjum að borgaralegar stofnanir, alíslenskar stofnanir í landi sem ætlar sér að vera herlaust land í þeim skilningi að við ætlum ekki að standa fyrir uppbyggingu hernaðar sjálfir, skuli eiga að ljá tæki og búnað til að flytja boð til þess að vinna úr og til þess að senda áfram upplýsingar sem eru liður í gagnasöfnun herveldisins. Og hver þekkir þá hvað verður hvers þegar svo er komið að fjarskiptabúnaður Landssímans, net hans um landið verður undirlagt til þessara nota, þegar flugumferðarstjórn, Landhelgisgæsla, tilkynningarskylda og fleiri slíkir aðilar verða í meira og minna mæli farnir að senda áfram upplýsingar af þessu tagi? Hver dregur þá mörkin á milli þess sem er hernaðarlegt og borgaralegt og hver stendur þá í þessum ræðustól og fullyrðir að Ísland eigi engan her og standi ekki fyrir slíkri starfsemi?

Þetta er einnig hættulegt vegna þess að þessar stofnanir yrðu þá efnahagslega háðar þessum umsvifum og enn þá síður en áður færar um að standa á eigin fótum, en það er reyndar einkenni allra hernaðarumsvifa hvar sem þau eiga sér stað að þau ræna menn, þá sem við þau vinna og nálægt þeim búa, efnahagslegu sjálfstæði og gera þá að brauðþiggjendum þessara aðila. Reyndar er svo komið að þegar er í stöðvum Pósts og síma búnaður á vegum herliðsins og það hefur lítið farið fyrir því, a. m. k. svo ég hafi heyrt, að um það hafi verið rætt hvaða stefnubreyting þar á sér stað. Ég hef nú lagt fram fsp. til samgrh. á hv. Alþingi um það hvernig þessa ákvörðun bar að höndum, hvenær sú ákvörðun var tekin að heimila herliðinu að staðsetja búnað sinn á tvist og bast innan um búnað Landssímans. En ljóst er í öllu falli, að yrðu þessar stöðvar að veruleika og sá starfrækslumáti hafður á sem nú er fyrirhugað yrði þetta allt samtvinnað, starfsemi þessara borgaralegu stofnana og hersins.

Ég held, herra forseti, að væri því tækifæri sleppt að neita þeim sem á þrýsta um að setja upp þessar stöðvar, þá væri það sóun á tækifæri fyrir Íslands hönd til að sýna hug sinn í verki. Það er greinilegt að almenningur í landinu telur nóg komið af vígbúnaði og nóg komið af hernaðaruppbyggingu. Og það ræður þeirri afstöðu manna, jafnvel þeirra sem styðja að öðru leyti veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og veru hersins hér að þessi mannvirki eigi ekki rétt á sér og séu óþörf, að fólk telur að nóg sé komið. Það er nú svo að hátíðlegar ræður, hvort sem þær eru fluttar héðan úr þessum virðulega ræðustól eða einhvers staðar annars staðar á sunnudögum, verða marklitlar og missa fljótt gildi sitt ef aðgerðir manna eru alltaf í öfugu hlutfalli við ræðurnar. Ég verð að segja alveg eins og er, að ég mun eiga erfitt með að hlusta á sunnudagsræður ýmissa aðila um einlægan afvopnunarvilja þeirra ef það gerist síðan æ ofan í æ að þegar við Íslendingar fáum í okkar túngarð tækifæri til að sýna vilja okkar í verki látum við það tækifæri ónotað.

Að mínu viti hefur ekki verið sýnt fram á það með neinum haldbærum rökum að tilkoma þessara nýju stöðva auki á öryggi íslensku þjóðarinnar, geri hana öruggari í hverfulum heimi og geri mönnum kleift að sofa rólegar en ella. Ég hef a. m. k. ekki orðið þess var að fólk á Norðurlandi eystra og Vestfjörðum hafi sofið verr þessi síðustu 15–20 ár sem það hefur verið laust við hernaðarmannvirki í þeim fjórðungum. Ég held þvert á móti að því fylgi vellíðan og ákveðin uppbót fyrir erfiða lífsbaráttu við ysta haf að vera þá í öllu falli ekki daglega minntur á þessa vitfirringu vígbúnaðarkapphlaupsins. Menn hafa a. m. k. trúað því margir sem þarna hafa streðað að þeir væru nokkuð langt frá heimsins vígaslóð og mættu leyfa sér að lifa sælir í þeirri trú. Það er ljóst að um slíkt verður ekki að ræða ef menn mega ekki lengur líta til fjalla án þess að sjá mannvirki sem minna þá á hernað og vígbúnaðarkapphlaup.

Ég held. herra forseti, að sú afstaða, sem birtist í málflutningi þeirra manna sem vilja gagnrýnislaust beygja sig og taka á móti þessum radarstöðvum, sé undirstrikun á ósjálfstæði Íslendinga í utanríkismálum, á algeru ósjálfstæði og algerum beygjuskap okkar Íslendinga gagnvart þeim mönnum sem þrýsta á um þessar framkvæmdir. Hvers vegna eigum við ekki, hvort sem við erum fylgjendur eða andvígir veru okkar í varnarbandalagi, fylgjandi eða andvígir herstöðinni í Keflavík, að skoða sjálfstæð slík tilfelli og leggja okkar mat á hvort þetta sem slíkt auki öryggi okkar, sé í okkar þágu, eða hvort við getum t. d. með því að fallast ekki á þessar framkvæmdir lagt okkar lóð á vogarskálar slökunar í þessum heimshluta?

Við höfum fyrir okkur dæmin, bæði úr Atlantshafsbandalaginu og einnig úr varnarsamstarfi Eyjaálfuþjóðanna við Bandaríkin, hvernig menn geta ef þeir vilja haft sínar sjálfstæðu skoðanir á því hvernig þeir standi að slíku samstarfi, hvað þeir leyfi og hvað þeir leyfi ekki. Sá kotungs- eða nýlenduríkishugsunarháttur að okkur beri óhjákvæmilega að taka við öllum óskum og verða við öllum óskum um aukinn vígbúnað hér á landi er til mikillar minnkunar þeim mönnum sem fyrir slíku tala.

Ég held að fyrsta skilyrði þeirra manna sem ætla að selja okkur þessar framkvæmdir, eins og ég hef oft orðað það, væri að sanna það fyrir okkur að þetta væri nauðsynlegt vegna öryggishagsmuna Íslands og þetta stofnaði okkur ekki í hættu vegna tengsla við annan vígbúnað í heiminum, t. d. ef menn legðu fram sannanir fyrir því að upplýsingar og boð frá þessum stöðvum færu aldrei út fyrir landsteina Íslands og yrðu eingöngu notuð hér innanlands til að tryggja okkar eigið öryggi en ekki í öðru skyni. Slíkar sannanir hef ég hvergi séð, þykist þess reyndar fullviss að hið gagnstæða eigi sér stað í verulegum mæli, að þetta sé liður í heildarupplýsingasöfnun og vörnum Norður-Ameríku og komi okkur sjálfum minnst við.

Ég held að það væri ákveðið siðferðislegt skipbrot fyrir okkur Íslendinga, fyrir þetta háa Alþingi, sem flutt hefur fjöldann af tillögum um afvopnunarmál, að láta það afskiptalaust að tekin sé um það ákvörðun að auka vígbúnað á Íslandi einmitt á þessum vikum eða mánuðum, því að, eins og ég áður sagði, núna eru þó í gangi viðræður á milli stórveldanna sem ganga í þessa veru og það er ýmislegt fleira á döfinni sem gæfi gefið vonir um að eitthvað tæki að rofa til í þessum efnum. Mér finnst því sérkennilega valinn tíminn til að þrýsta nú á um þessar framkvæmdir.

Herra forseti. Hæstv. forsrh. mun ekki vera hér í salnum og kemur svo sem ekki að sök. Hann hefur þó nokkuð tengst þessu máli sem eðlilegt er og ég hef fyrir því orð þriggja grandvarra manna, sem gengu á hans fund með mótmæli við því að þessar stöðvar yrðu settar upp í þeirra heimahéraði, að hæstv. forsrh. hafi þá látið að því liggja að þessar stöðvar yrðu ekki settar upp í andstöðu við meiri hluta heimamanna á viðkomandi stað. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. utanrrh., ef svo ólíklega vildi til að hann hygðist taka þátt í umr. um þessa till. á eftir, hvort hann sé sama sinnis og hæstv. forsrh. og sé þá tilbúinn að lýsa því hér yfir að slík mannvirki verði ekki sett upp í andstöðu við vilja meiri hluta í hverju því byggðarlagi sem til greina kæmi, því að auðvitað hlýtur þetta einnig að snúast að nokkru leyti um rétt þess fólks sem þar býr til að ráða sjálft málum í sínu héraði. Ég vil a. m. k. trúa því að hann sé einhver sá réttur, rétturinn til þess að fá að lifa og starfa í sínu sveitarfélagi og sinni byggð laus við slík mannvirki.

Herra forseti. Skyldi einhverjum vera ókunnugt um það ætla ég ekki að leyna því hér að ég er alinn upp í Þistilfirði, einu af því sveitarfélagi sem hér á í hlut, og ég hef vanist þar frá barnæsku og fram undir síðustu ár fagurri og hreinni fjallasýn sem engan skugga hefur borið á til þessa í mínum huga. Ég held að sá fjallahringur yrði aldrei samur og jafn og það yrði ekki eins fyrir þau börn, sem þar eiga að alast upp í framtíðinni, ef þar stæðu hernaðarmannvirki og bæri við loft. Ég hygg að hugur margra heimamanna, sem skrifað hafa undir mótmæli eða á annan hátt staðið fyrir mótmælum gegn þessum framkvæmdum sé eitthvað svipaður. Ég held þvert á móti að það fólk sem þar býr og vonandi miklu, miklu fleira sé tilbúið að leggja nokkuð á sig, jafnvel taka nokkra áhættu til að reyna að komast út úr þeim vítahring vígvæðingarinnar sem mannkynið er fast í. Það væri vissulega þess virði og það væri hægt að meta það við þessa kynslóð ef hún væri tilbúin til að kosta nokkru til, að taka nokkra áhættu, að leggja nokkuð á sig að stíga fyrstu skrefin, jafnvel þó að þau séu erfið, til að reyna að búa börnum heimsins betri framtíð og reyna að losa þau við þessi vígtól og aukna hernaðaruppbyggingu.

Ég vil a. m. k. forða mínu heimafólki við Þistilfjörð og öðrum þeim, sem á mál mitt vilja hlýða í þessu efni, frá því að taka skref í öfuga átt meðan ég fæ nokkru um það ráðið.