21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3744 í B-deild Alþingistíðinda. (3091)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Utanrrn. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Mér þykir hlýða að taka nú þegar til máls eftir framsöguræðu 1. flm. till. til þál. um að falla frá hugmyndum um að reisa nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi, Steingríms Sigfússonar, og greina þar frá þeim skoðunum sem ég hef varðandi ratsjárstöðvar á Íslandi.

Ég hlýt að hafa nokkurn formála í þessu sambandi og gera grein fyrir því hvers vegna við Íslendingar erum þátttakendur í varnarbandalagi Atlantshafsríkjanna.

Íslendingar vilja lifa frjálsir og í friði í landi sínu. Öldum saman var fjarlægðin nægileg vörn fyrir ásælni annarra ríkja gagnvart Íslandi. Jafnframt var veldi breska flotans það mikið að hann stuggaði ásælnum ríkjum frá landinu jafnframt því að þá þótti ekki eins mikill fengur í Íslandi eins o$ nú er staðreynd. Samt sem áður var það nú svo að Ísland varð að fórnarlambi strandhöggsmanna eins og Jörundar hundadagakonungs og Tyrkja, en yfirleitt má segja að öldum saman höfum við búið hér í friði fjarri alfaraleiðum þótt við höfum þá verið ánauðug þjóð. Nú erum við hins vegar frjáls þjóð og fullvalda í þjóðbraut. En frelsi og fullveldi fylgja skyldur. Við getum ekki ætlast til þess að við verndum frelsi okkar og fullveldi án þess að gera nokkuð til þess að tryggja öryggi landsins og m. a. með því að fylgjast með umferð umhverfis landið. Það er lágmarksskylda frjálsrar og fullvalda þjóðar.

Við Íslendingar höfum gert það upp við okkur að við viljum ekki það stjórnarfyrirkomulag sem ríkir austantjalds. Stjórnarfyrirkomulag okkar kann að vera gagnrýnivert að ýmsu leyfi, en það er ólíku saman að jafna einræði austantjalds og lýðræði vestanmegin járntjaldsins. Hér er um það að ræða að færa ekki út áhrifasvæði þeirrar stjórnmálastefnu sem hefur hneppt þjóðir í fangelsi, fangelsi sem ekki er unnt úr að komast fyrir jafnblásaklaust fólk og dæmin sýna nýverið þegar fræg hjón koma hingað til Íslands og segja okkur frá þeim raunum sínum að saklaus tengdamóðir kvikmyndaframleiðandans og kvikmyndaleikstjórans Tarkovskís og sonur þeirra hjóna 13 ára gamall fá ekki að sameinast fjölskyldunni.

Ég hygg að það sé nauðsynlegt æ ofan í æ að ítreka það að það er ekki að ástæðulausu að við Íslendingar erum þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu. Við viljum ekki að áhrifasvæði einræðis sé fært út í heiminum. Það eru mun færri þjóðir sem njóta lýðræðis og verndar mannréttinda en hinar þjóðirnar þar sem einræði ríkir og mannréttindi eru fótum troðin. En við viljum halda þessum lífsgæðum og lifa frjáls og í friði í okkar landi.

Það er staðreynd að Atlantshafsbandalagið er sterkustu friðarsamtök sem nú eru við lýði, hafa verndað friðinn allt frá lokum seinni heimsstyrjaldar og til þessa dags í okkar heimshluta meðan tugir stríðsátaka hafa átt sér stað annars staðar í heiminum og milljónatugir manna fallið. Ég tel nauðsynlegt að leggja áherslu á þessa grundvallarforsendu fyrir þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og fyrir aðild okkar að varnarsamningnum við Bandaríkin.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði í umr. um aðra þáltill. að hún væri ekki gagnrýnin á Bandaríkin nema vegna þess að Bandaríkin hefðu hér herstöð, eins og hún komst að orði. Hún mundi verða alveg jafn gagnrýnin á Sovétríkin ef þau hefðu hér herstöð. Ég svaraði hv. þm. þá því einu að ef Sovétríkin hefðu hér herstöð væri hv. þm. múlbundinn og þá væri ekki um neina gagnrýni að ræða og þá væri ekki frjálst orð flutt í þessum sal. Þetta er grundvallarforsenda sem við Íslendingar hljótum ávallt að hafa í huga ef við metum einhvers frelsi okkar og viljum stuðla að friði í heiminum.

Hv. flm. hélt því fram að Ísland væri ekki hernaðarlega mikilvægt. Ég skildi flm. þannig. En ef það er misskilningur erum við sammála um það að Ísland er hernaðarlega mikilvægt. Lega landsins er slík, alveg burtséð frá því að hér er 3000 manna bandarískt varnarlið. Ísland er hernaðarlega mikilvægt vegna legu sinnar. Reynslan úr annarri heimsstyrjöldinni segir okkur það og tækniframfarir og breyttur vopnabúnaður síðan þá breytir hér engu um, því að annars vegar er Sovétríkjunum, ef til átaka kæmi, nauðsynlegt að rjúfa siglingaleiðina og aðfærsluleiðir frá Norður-Ameríku til Vestur-Evrópu og hins vegar er Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu nauðsynlegt að halda þessum aðfærsluleiðum opnum og öruggum. Þetta er einföld og auðskiljanleg skýring á hernaðarlegu mikilvægi Íslands sem við Íslendingar verðum að horfast í augu við og gera ráðstafanir okkar til varnar landinu í samræmi við það ef við metum frelsi okkar einhvers.

Það er lágmarksskylda þeirrar þjóðar, sem vill teljast fullvalda og vill lifa frjáls í landi sínu, að vita hverjir ferðast umhverfis landið og nálgast það. Tilgangur ratsjárstöðva er fyrst og fremst sá að tryggja fullveldi landsins. Í öðru lagi að fæla þá frá umferð nálægt landinu sem hér e. t. v. fara með illum hug og af ásælni. Og í þriðja lagi eru ratsjárstöðvar til upplýsinga sem engum kemur að tjóni og enginn getur að fundið sem með friði fer. Ratsjárstöðvarnar eru fyrst og fremst til varnar. Eðli þeirra ratsjárstöðva, sem um er rætt að reistar verði, er það sama og þeirra stöðva sem nú eru reknar á Reykjanesi og Stokksnesi hér á Suðurlandi. En nauðsyn nýrra ratsjárstöðva og endurnýjun þeirra sem fyrir eru byggist á því að Sovétríkin hafa aukið umferð sína í nálægð landsins. Flugferðir sovéskra flugvéla hafa aukist svo mjög að það er vissulega ástæða að fylgjast með því flugi og gera Sovétmönnum það ljóst að fullvalda þjóð gefur ekki sætt sig við það að flogið sé að lofthelgi landsins án þess að nokkur tilkynning um það berist. Sovétríkin hafa tekið í notkun hraðfleygari og langdrægari flugvélar en áður og því er nauðsynlegt bæði að fylgjast betur með þessari umferð og gera gagnráðstafanir eins og t. d. að endurnýja þær flugvélar sem mæta þeim og stugga þeim burt frá landinu.

Hér er í raun og veru um það að ræða að gæta þess að aðrar þjóðir og önnur ríki virði okkar fullveldi. Að þessu leyti var það eðlilegur áhugi að koma upp að nýju ratsjárstöðvum á Vestfjörðum og Norðausturlandi sem starfræktar voru þar fyrir 20 árum. Þessi áhugi er til staðar bæði hjá Atlantshafsbandalaginu og Bandaríkjunum sem með varnarsamningi hafa tekið að sér varnir landsins. Og þessi áhugi er til staðar af hálfu Íslendinga sem telja það skyldu sína að landið sé varið og því eðlilegt að málið sé þess vegna kannað.

Ég hef leitast við að kanna málið með þeim hætti að allar upplýsingar væru gefnar. Það er rangt hjá hv. flm. þáltill. að með mál þetta hafi verið farið með leynd. Ég hef svarað fsp. hans hér í Alþingi. Það hafa verið gefnar upplýsingar þegar um það hefur verið beðið. Ratsjárnefnd hefur verið skipuð sem er skipuð fulltrúum frá varnarmáladeild utanrrn., frá Pósti og síma, frá flugmálastjórn og frá Landhelgisgæslu auk sérstaks sérfræðings í þessum efnum. Þessi nefnd hefur starfað allt s. l. ár að öflun og úrvinnslu gagna um endurbætur á ratsjár- og eftirlitskerfi varnarliðsins sem rætt hefur verið um að reisa á vegum Atlantshafsbandalagsins. Helstu viðfangsefni nefndarinnar voru að gera sem gleggsta grein fyrir hlutverki þessa kerfis, umfangi og eðli þeirrar endurnýjunar sem rætt hefur verið um, tæknilegri hæfni þess búnaðar sem settur yrði upp í þessu skyni og hugsanlegum sérafnotum íslenskra aðila af ratsjánum og ratsjárstöðvunum. Einnig hefur ítarlega verið fjallað um staðarval fyrir nýjar ratsjárstöðvar og hvernig staðið yrði að uppbyggingu og rekstri stöðvanna.

Hlutverk þessa ratsjár- og eftirlitskerfis er tvíþætt. Það er annars vegar að fylgjast með og bera kennsl á allar flugvélar sem koma inn á loftvarnareftirlitssvæði landsins og hins vegar að leiðbeina orrustuflugvélum að flugvélum sem ekki er unnt að auðkenna í ratsjá. Þetta hlutverk mundi í engu breytast með fyrirhugaðri endurnýjun en því yrði gegnt á fullkomnari hátt en nú er unnt. Endurbæturnar á kerfinu fælust í byggingu tveggja nýrra ratsjárstöðva á Norðvestur- og Norðausturlandi og endurnýjun á núverandi stöðvum á Miðnesheiði og Stokksnesi. Jafnframt mundi allt eftirlit með flugumferðinni flytjast í sameinaða eftirlitsstöð á Keflavíkurflugvelli. Þannig mundi verða veruleg fækkun í starfsliði stöðvarinnar á Stokksnesi. 11 starfsmenn mundu sjá um rekstur hverrar ratsjárstöðvar og mundu Íslendingar annast hann. Stöðvarnar yrðu búnar langdrægum flugeftirlitsratsjám sem næðu til allt að 200 sjómílna svæðis frá stöðvunum. Nýju stöðvarnar mundu þannig ná til svæða norðanlands sem ekki er hægt að fylgjast með stöðugt í núverandi kerfi.

Sérstök afnot íslenskra aðila af ratsjárstöðvunum yrðu einkum fyrir flugumferðarstjóra og til að hafa eftirlit með skipaumferð í grennd við stöðvarnar. Þannig mætti veita fullkomna flugumferðarþjónustu fyrir millilandaflug og innanlandsflug í algengustu flughæðum og í mörgum tilfellum mætti nota ratsjána til að fylgjast með aðflugi að flugvöllum í grennd við stöðvarnar. Sérstakar skiparatsjár mundu gefa kost á að fylgjast með siglingum allt að 60 sjómílur til hafs. Upplýsingar frá ratsjánum yrðu fyrst og fremst notaðar til að auka öryggi í lofti og á legi auk þess sem þær mundu greiða fyrir flugumferð og gefa upplýsingar um skipaferðir á viðkomandi svæðum.

Áætlað er að bygging nýju ratsjárstöðvanna muni taka tvö ár. Rekstur þeirra gæti því hafist í lok ársins 1987 með bráðabirgðabúnaði sem yrði notaður um tveggja ára skeið eða þar til endanlegur ratsjárbúnaður stöðvanna yrði tilbúinn til notkunar. Jafnframt yrði eftirlitskerfið sameinað til bráðabirgða í ratsjárstöðinni á Miðnesheiði þar til endanleg eftirlitsstöð á Keflavíkurflugvelli tæki til starfa. Íslensk stjórnvöld og íslenskir tæknimenn mundu taka virkan þátt í þessum framkvæmdum og hönnun mannvirkja og búnaðar mundi verða í samræmi við íslenska staðla og taka mið af aðstæðum hér á landi.

Hér hefur því verið haldið fram í umræðum um fyrirhugaðar ratsjárstöðvar að í þeim fælist stigmögnun vígbúnaðar sem við Íslendingar ættum ekki að standa að. Hér er um mikinn misskilning að ræða. Ratsjárstöðvar sem þessar eru viðurkenndar hvar sem er í heiminum. Þær auka eftirlit með umsvifum hernaðarlegs eðlis og eru í fullu samræmi við SALT-samkomulag kjarnorkuveldanna svo og Helsinki-sáttmálann. Hér er um það að ræða að fylgjast með umferð af okkar hálfu 200 mílur í haf út, þ. e. að vita hverjir eru á ferð yfir og að nokkru leyti um okkar eigin efnahagslögsögu.

Við Íslendingar vorum sammála og sameinaðir í baráttu okkar til að tryggja okkur yfirráð yfir 200 mílna fiskveiði- og efnahagslögsögu. Nú þykir það goðgá að reisa stöðvar til þess að vita hverjir fara þarna um og yfir. Það sýnist nú ekki vera stórmannleg hugsun hjá þeim Íslendingum sem telja slíkt stigmögnun vígbúnaðar. Eru þeir Íslendingar, sem beita sér gegn þessari framkvæmd, í raun og veru að gefa öðrum þjóðum tækifæri til að segja sem svo að þessar ratsjárstöðvar, sú staðreynd að við viljum fylgjast með umferð um 200 mína efnahagslögsögu okkar, séu tilefni til gagnráðstafana af þeirra hálfu?

Öll ríki hafa í raun og veru ratsjárkerfi. Það eru til 100 ratsjárstöðvar frá Noregi til suður-Tyrklands. Það eru ekki bara Atlantshafsbandalagsríkin sem reisa og reka ratsjárstöðvar. Það eru einnig ríki eins og Svíþjóð og Finnland. Þær ratsjárstöðvar sjá langt inn fyrir landamæri Sovétríkjanna. Það skyldu þó vera einhverjir þar í löndum, í Svíþjóð og Finnlandi, sem hafa þá skoðun að það sé stigmögnun vígbúnaðar af hálfu Svíþjóðar og Finnlands að reisa og reka ratsjárstöðvar og fylgjast með flugumferð í nágrenni þeirra landa? Við urðum varir við það um daginn þegar sovéskt flugskeyti flaug yfir Noreg og Finnland að bæði þessi lönd höfðu ratsjárkerfi og töldu það sjálfsagt að fylgjast með umferð í nálægð landa sinna. En nú segir hv. flm. að það sé stigmögnun vígbúnaðar og mér skildist ekki betur á honum en svo að þetta væri ögrun við Sovétríkin að ætla sér að fylgjast með umferð í okkar eigin efnahagslögsögu í u. þ. b. 2000 km fjarlægð frá Sovétríkjunum og tilefni til gagnráðstafana af Sovétríkjanna hálfu. Hvert eru þeir Íslendingar á vegi staddir sem þannig hugsa? Slík skoðun, sem þarna er látin í ljós, ber ekki vitni um sjálfstæði í stefnumótun í utanríkismálum.

Því er haldið fram að það sé óheppilegt að við reisum þessar stöðvar einmitt nú þegar viðræður eru að hefjast milli stórveldanna, kjarnorkuveldanna, um afvopnun. Ég hygg að ástæðan til þess að þessar viðræður hófust hafi fyrst og fremst verið sú að Sovétríkin gerðu sér grein fyrir því að Atlantshafsbandalagsríki voru staðráðin í því að gera fullnægjandi varnarráðstafanir og því hafi Sovétríkin gengið að samningaborðinu um málefni sem þau höfðu áður neitað að semja um.

Ég get ekki fengið mig til að trúa því að til séu Íslendingar sem í raun og veru vilja láta undan þrýstingi frá Sovétríkjunum og halda því fram að bygging og rekstur ratsjárstöðva til að fylgjast með umferð í okkar eigin efnahagslögsögu sé ögrun við önnur ríki. Er þrýstingur Sovétríkjanna orðinn slíkur að við erum ekki sjálfráð gerða okkar í okkar eigin landi og innan okkar eigin efnahagslögsögu? Það ber ekki á öðru. Þetta er geigvænleg tilhugsun sem ég vil helst ekki hugsa til enda.

Þá er því haldið fram að þessar ratsjárstöðvar séu reistar fyrir Bandaríkin en ekki Ísland. Hér fara menn villir vegar. Hér er um það að ræða að ratsjárstöðvarnar eru reistar vegna varna Íslands og siglingaleiða um Norður-Atlantshaf. Ratsjárstöðvar þessar koma vörnum Bandaríkjanna út af fyrir sig ekki að gagni. Flugvélar, sem ætla sér til árásar á Bandaríkin fljúga ekki yfir Ísland heldur yfir norðurpólinn og Kanada. Í þeim tilgangi hafa Bandaríkjamenn og Kanadamenn gert samning nú nýverið um það að endurnýja ratsjárkerfið sem áður var til staðar í Kanada, vegna þess að þau tæki sem fyrir voru voru úrelt orðin, alveg eins og endurnýjun á þeim tveim ratsjárstöðvum sem nú eru reknar og bygging tveggja nýrra ratsjárstöðva er nauðsynleg vegna þess að tækniframfarir hafa orðið á síðustu 20–30 árum og mun fullkomnari tæki eru nú til en áður.

Þessi samningur Bandaríkjanna og Kanada, sem undirritaður var fyrir nokkrum dögum, hefur orðið að umræðuefni. M. a. hefur varaforsætisráðherra Kanada og varnarmálaráðherra gert grein fyrir þessum samningi í kanadíska þinginu. Gagnstætt því sem hv. flm. vildi meina, að þetta ratsjárkerfi, sem ætti að reisa af hálfu Kanada og Bandaríkjanna, og þær ratsjárstöðvar, sem ætlunin væri að reisa og reka hér á Íslandi, væru þáttur í stjörnustríði framtíðarinnar, sem Bandaríkin hygðust heyja að því er mér skildist á hv. síðasta ræðumanni, þá er það tekið alveg skýrt og greinilega fram í framsöguræðu kanadíska varnarmálaráðherrans að þessar ratsjárstöðvar í Kanada séu hvorki hannaðar, staðsettar eða byggðar til þess að finna langdræg kjarnorkuflugskeyti eða önnur tæki sem um geiminn fara. Það er og svo að ratsjárstöðvar, sem ná ekki nema 200 mílur út eru ekki til þess fallnar.

Þegar sagt er að ratsjárstöðvarnar séu reistar til varnar Bandaríkjunum en ekki Íslandi er rétt að hafa í huga að það eru ekki önnur mannvirki kostuð af Atlantshafsbandalaginu en þau sem hafa þýðingu fyrir bandalagsríkin sem heild. En þessi mannvirki eru kostuð að mestu leyti af Atlantshafsbandalaginu. Þessi mannvirki verða rekin af Íslendingum og hvað snertir tengsl við aðra bandamenn okkar innan Atlantshafsbandalagsins eða tengsl þessara mannvirkja við önnur slík í ríkjum Atlantshafsbandalagsins, þá er það að segja að vitaskuld á sér stað upplýsingamiðlun t. d. frá ratsjárstöðvum í Noregi til varnarliðsins hér á Íslandi.

Síðan er reynt að fylgjast með ferðum ókunnra flugvéla þar til þær eru þekktar og komið er í veg fyrir að þær rjúfi lofthelgi Atlantshafsbandalagsríkjanna. Slík upplýsingamiðlun liggur í eðli varnarbandalagsins sem slíks og að þessu leyti höfum við gagn af ratsjárstöðvum Norðmanna og því um eðlilega og sjálfsagða gagnkvæmni að ræða að við veitum þeim samsvarandi upplýsingar ef þeim mætti að gagni koma. En að öðru leyti er ekki um tengsl að ræða, eins og hv. flm. vildi gefa í skyn.

Þá varð hv. flm. tíðrætt um það að þessar ratsjárstöðvar væru byggðar í tengslum við árásarstefnu Bandaríkjanna á Norðurhöfum. Þessi skoðun hv. flm. mun eiga rætur sínar að rekja til þess að umræður hafa átt sér stað um það í Bandaríkjunum að varnarlínan, ef til átaka kæmi á Norður-Atlantshafi, yrði dregin norðar en almennt hefur hingað til verið talið. Ég fæ ekki betur séð en það ætti að vera í samræmi við hagsmuni okkar Íslendinga að varnarlínan færist norður fyrir landið en liggi ekki um landið þvert. Hvað snertir nytsemi þessara ratsjárstöðva varðandi þá stefnu Bandaríkjanna, ef hún er á rökum byggð, þá býst ég við að floti Bandaríkjanna mundi verða fyrir Noregsströndum norður af Bretlandi og fyrir utan 200 mílna langdrægni þeirra ratsjárstöðva sem áhugi er á að koma upp.

Þá hefur því verið haldið fram að ratsjárnar væru skotmörk, sérstaklega í kjarnorkustyrjöld, og gætu verið ástæða til þess að við Íslendingar yrðum fyrir kjarnorkuárás. Við hv. flm. vorum á fundi á Þórshöfn eigi alls fyrir löngu. Þá sagði einn ræðumannanna sem svo að þetta væri álíka gáfuleg staðhæfing og það að slátra lambi með kanónu. Það er ekki talið að þessar ratsjár séu slík skotmörk að á þær væri eyðandi kjarnorkuvopnum. En ratsjárnar eru út af fyrir sig ekki frekar skotmörk, hvorki kjarnorkuvopna eða hefðbundinna vopna, umfram það sem orkuver eru, flugvellir, vegir eða hvað eina sem notað er í daglegu lífi.

Þó fór hv. flm. mörgum orðum um það að verið væri að smyrja á sneiðina, eins og hann nefndi, vegna þess að á það hefur verið bent að við Íslendingar höfum margvísleg not af ratsjárstöðvunum í daglegu lífi okkar. Það er ljóst að í innanlandsflugi mundu slíkar ratsjárstöðvar koma okkur að miklu gagni og auka öryggi flugsamgangna innanlands. Það er minnst á það sérstaklega í skýrslu ratsjárnefndar að aðflug að mörgum flugvöllum mundi verða mun öruggara eftir en áður. Þá hefur verið bent á að við Íslendingar höfum tekið að okkur flugumferðarstjórn á mjög stóru svæði hér á Norður-Atlantshafi á vegum alþjóðaflugmálastjórnarinnar. Það munu vera um 30 stöðugildi sem alþjóðaflugmálastjórnin greiðir kostnað af í þessum tilgangi. Þeir starfsmenn, sem við þessa alþjóðaflugumferðarstjórn starfa, vinna jafnhliða að flugumferðarstjórn í þágu okkar Íslendinga einna. Okkur er mjög í mun að halda þessu verkefni hér innanlands, en hætta er á að þetta verkefni verði af okkur tekið ef framkvæmd þess styðst ekki við fullkominn tæknibúnað. Af þeim sökum er nauðsynlegt að endurnýja útbúnað ratsjárstöðvanna sem fyrir eru og reisa tvær nýjar ratsjárstöðvar á Vestfjörðum og Norðausturlandi.

Menn gera sér ekki grein fyrir því að um þetta flugumferðarstjórnarsvæði, sem Íslendingar hafa á höndum, er mikil flugumferð. Það er umferð frá Evrópu og til Kyrrahafsstrandar Bandaríkjanna og Asíulanda. Á einum degi að sumarlagi ferðast tugþúsundir manna um þetta flugumferðarsvæði og aðeins brot af þeim hefur millilendingu hér á Íslandi. Öryggi þessara flugfarþega skiptir máli og þar sem við berum ábyrgð á þeim hafandi stjórn á flugumferð á þessu svæði er það okkar hagsmunamál að búa yfir þeirri bestu tækniþjónustu sem völ er á.

Hv. frsm. vildi gera lítið úr nytsemi þess að hafa ratsjár til að fylgjast með skipaumferð. Það er þó svo að það skiptir nokkru máli að þessar ratsjár, þótt um aukaútbúnað kynni að vera að ræða, geta fylgst með skipaumferð á stóru svæði 60 mílur á haf út. Þetta getur haft sína þýðingu ef um skipstapa er að ræða eða slys á sjó. Þetta hefur þýðingu varðandi tilkynningarskyldu skipa og enn fremur í sambandi við landhelgisgæslu þegar sérstakar reglur eru settar um veiðar á tilteknum svæðum. Enn fremur er það upplýst að þessar ratsjárstöðvar geta komið að gagni í sambandi við veðurspár og ísfregnir. Þær þjóna því sjálfstæðum tilgangi í daglegu lífi Íslendinga á friðartímum.

Vegna þessa á ég bágt með að ræða um þessar ratsjárstöðvar sem hernaðarmannvirki. Þetta eru ekki síst mannvirki sem koma okkur að gagni á friðartímum í erli og önn dagsins.

Ég tel að sá andróður, sem uppi hefur verið gegn byggingu þessara ratsjárstöðva, sé ekki á rökum reistur. En þar sem þessi mannvirki eru þáttur bæði í friðsamlegu, daglegu lífi þjóðarinnar og til þess að vernda öryggi hennar þá er þessi mannvirkjagerð mál alþjóðar og þess vegna hlýtur það fyrst og fremst að vera vilji meiri hluta manna á landinu öllu sem ræður því hvort þessi mannvirki verða reist og hvar þau verða reist. Það er hæpið að fela íbúum á afmörkuðu landsvæði úrslitavald í þeim efnum. En ég hef sagt það og get ítrekað það enn að ef fleiri kosta er völ í þessum efnum er sjálfsagt að velja þann kostinn þar sem meiri hluti íbúanna er ekki á móti byggingu ratsjárstöðva.

Ég sé á þessu stigi málsins ekki ástæðu til að fara mörgum fleiri orðum um þessa till. Henni verður vísað til utanrmn. Utanrmn. hefur rætt skýrslu þeirrar nefndar sem fjallað hefur um málið á fleiri en einum fundi. Þar hefur öllum fsp. verið svarað sem fram hafa verið bornar og ef hv. þm. finnst skorta á upplýsingar er sjálfsagt að afla þeirra og koma þeim á framfæri í utanrmn. sem og hér í þingsölum. Hér er engu leynt og það er ímyndun hjá hv. flm. að það hafi verið gert.

Ég vil svo aðeins að lokum leggja áherslu á það að ég lít á þessa mannvirkjagerð sem sjálfsagða eftir þá athugun sem fram hefur farið af hálfu Íslendinga sjálfra. Ratsjárnefndin hefur lagt sjálfstætt mat á þessa mannvirkjagerð frá sjónarmiði hagsmuna okkar Íslendinga og það fer saman að mannvirkjagerð þessi er í samræmi við hagsmuni Íslendinga út af fyrir sig, en er um leið öryggisráðstöfun allra lýðfrjálsra þjóða innan Atlantshafsbandalagsins.