21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3750 í B-deild Alþingistíðinda. (3092)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér í ræðustól til þess að lýsa stuðningi Samtaka um kvennalista við þá tillögu sem hér er til umr., þá tillögu að fallið verði frá hugmyndum um að reisa nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi. Eins og segir í stefnuskrá Kvennalistans erum við Kvennalistakonur mótfallnar allri aukningu á herbúnaði hér á landi, hverju nafni sem nefnist. Þar sem hernaðarratsjárstöðvar eru óumdeilanlega ný hernaðarmannvirki — og má þar m. a. vísa til nýútkominnar skýrslu öryggismálanefndar um Keflavíkurstöðina — erum við mótfallnar því að slíkar stöðvar verði reistar hér á landi.

Kvennalistinn telur einnig að virða beri óskir heimamanna um að mannvirki þessi verði ekki reist við bæjardyr þeirra. Síðasti landsfundur Kvennalistans ályktaði sérstaklega um þetta mál og vil ég nú með leyfi forseta lesa þá ályktun:

„Landsfundur Samtaka um kvennalista haldinn á Hótel Loftleiðum 3. og 4. nóvember s. l. lýsir eindregnum stuðningi við bænarskrá Vestfirðinga til ríkisstjórnar Íslands um að ekki verði leyfð uppsetning ratsjárstöðva á Vestfjörðum eða annars staðar á landinu. Kvennalistakonur aðhyllast rök Vestfirðinga þar sem þeir segja um ratsjárstöðvarnar, hér er vitnað í bænarskrá Vestfirðinga, með leyfi forseta, að þær auki á vígvæðingu þjóðanna sem stefnir jarðarbyggð í geigvænlega hættu. Við álítum að voðinn fellst ekki aðeins í beitingu vígbúnaðarins heldur ali tilvist hans jafnframt á tortryggni, ótta og hatri og við óttumst að fjárfestingar í umræddum stöðvum hér á landi kalli á fjárfrekar mótframkvæmdir annars staðar. Slíka sjálfvirkni síaukins vígbúnaðar ber að stöðva. Því verða góðviljaðir menn að einsetja sér að snúa farnaði veraldar af þessari óheillabraut. Við getum heldur ekki varið það fyrir samvisku okkar að frekara fjármagni verði varið til vígbúnaðar meðan sultur og vannæringarsjúkdómar hrjá hálft mannkyn. Jafnframt óttumst við að bygging þessarar umræddu stöðvar geri heimabyggð okkar að skotmarki í hugsanlegum hernaðarátökum. En hvað viðvíkur öryggi íslenskra loft- og sæfarenda, sem að hefur verið vikið í þessu sambandi, teljum við að okkur beri sjálfum skylda til að tryggja það.“

Þessi rök styður Kvennalistinn. Landsfundur Kvennalistans skorar jafnframt á ríkisstjórn Íslands að leyfa ekki byggingu ratsjárstöðvar á Langanesi og taka til greina andmæli íbúa á Norðausturlandi gegn fyrirhugaðri ratsjárstöð. Svo öldum skiptir hafa Íslendingar leyst deilumál sín án vopna. Hlutverk Íslendinga ætti að vera að miðla öðrum þjóðum þessum arfi í stað þess að leggja sífellt meira af landi okkar undir vígbúnað.“

Þessi ályktun lýsir grundvallarskoðun okkar í þessu máli og því er sjálfgefið að við styðjum þá till. sem hér er til umr. Af hálfu stjórnvalda og einnig af hálfu hæstv. utanrrh. hér áðan hefur töluverð áhersla verið lögð á það að þessar ratsjárstöðvar gætu tryggt betur en nú er öryggi loft- og sæfarenda hér við land. Af þeim sökum vil ég taka það fram að við Kvennalistakonur teljum það vitaskuld eðlilegt og sjálfsagt að öryggi þeirra, sem um loft fara eða um höf sigla, sé vel tryggt. En við teljum það vera í verkahring Íslendinga sjálfra að sjá um að svo sé, ekki annarra, og því eðlilegt að Íslendingar geri sjálfir þær endurbætur á ratsjár-, vita- eða fjarskiptabúnaði hérlendis sem nauðsynlegar eru í því skyni.

Um nauðsyn þess að tryggja öryggi íslenskra eða annarra loft- og sæfarenda er ekki deilt hér. Það er hernaðarþáttur þessa máls sem hér er til umræðu og þá um leið hugsanlegar breytingar á eðli herstöðvarinnar hér á landi og því hlutverki sem henni er ætlað að gegna í þeirri vígbúnaðarkeðju sem hún er óumdeilanlega hluti af. Ratsjárstöðvar eru í sjálfu sér ekki hættulegar vígvélar eins og hvert mannsbarn sér og skilur. Það er ekki tækjabúnaðurinn sjálfur sem er til umræðu heldur er hér verið að ræða um hlutverk þessara stöðva í heildarvígbúnaðarkerfinu, því að þær eru hluti af því, og hvað uppsetning þeirra og aðrar samhliða framkvæmdir á vegum hersins hér á landi þýða fyrir stöðu og hlutverk Íslands á friðar- og ófriðartímum. Sem leiðir okkur að þeirri grundvallarspurningu hvort við teljum að ógnarjafnvægi vopnanna tryggi heimsfriðinn. Þessari spurningu höfum við Kvennalistakonur þegar svarað fyrir okkar leyti. Við teljum ekki að vitfirrt vígbúnaðarkapphlaup tryggi heimsfriðinn. Við viljum enga aukningu á vígbúnaði eða hernaðarmannvirkjum, hvorki hér á landi né annars staðar. Rödd Íslands á að hljóma lífsins megin á alþjóðavettvangi og einnig heima fyrir.

Hæstv. utanrrh. gerði það að kjarna máls síns hér áðan hve mikil nauðsyn okkur væri á vörnum til að tryggja frelsið. Við skulum ekki spyrja: Hvert er frelsið í skugga sprengjunnar? Það kann að drepa umræðunni á dreif þótt mikilvæg sé spurningin og það er ekki ætlun mín. Hins vegar er ég fullviss um það að hver einasti þm. sem sæti á hér á hv. Alþingi er sammála því að okkur er nauðsynlegt að tryggja það sem við köllum frelsi hér á landi.

En hverjar eru bestu varnirnar, hver er besta leiðin í þessu máli? Að mínu viti eru bestu varnirnar þær að hrinda af okkur og öðrum þjóðum heimsins ógnun vígbúnaðarins. Og hvernig gerum við það? Ekki með því að taka þátt í hernaðaruppbyggingu heldur með því að leggja áherslu á nauðsyn afvopnunar og sýna það með verkum okkar, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi, þ. á m. með því að taka ekki við þeim hernaðarmannvirkjum sem hér um ræðir.

Um þetta má hafa langt mál, virðulegi forseti, en í rauninni er hér fyrst og fremst um grundvallarafstöðu að ræða og ég læt orðum mínum hér um lokið í bili.