21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3761 í B-deild Alþingistíðinda. (3099)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Magnús Reynir Guðmundsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um að falla frá hugmyndum um að reisa nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi. Það kom fram hér í umr. áðan að menn óskuðu eftir því að þm. Framsfl., ef einhverjir væru í salnum, létu í ljós skoðanir sínar á þessari þáltill.

Ég verð að segja svona utan við aðalumræðuefnið að það undrar mig stórum að ég skuli vera hér á fundi í Sþ. þar sem eiga að sitja 60 þm. Ég taldi hér 8 áðan en þeim hefur eitthvað fjölgað örlítið, kannske þeir séu 10 eða 12 núna. Kannske bendir það til þess að þm. hafi ekki beinlínis áhuga á því máli sem hér er á dagskránni, kannske til einhvers annars, nóg um það.

Ég er fulltrúi fyrir Vestfjarðakjördæmi hér á Alþingi. Það hefur komið til tals að byggja þar ratsjárstöð, ég segi ekki endilega hernaðarratsjárstöð, en ratsjárstöð er það og það hefur verið talað um að byggja hana upp í samræmi við veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Það er grundvallaratriði, eins og fram hefur komið í þessum ræðustól fyrr í þessari umr., að við höfum ákveðið að vera í Atlantshafsbandalaginu. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu, meiri hluti þjóðarinnar, að öryggi okkar væri betur borgið með aðild að Atlantshafsbandalaginu en utan þess eða í öðrum hernaðarbandalögum. Þetta tel ég vera kjarna málsins. Ég tel að umr. eigi að snúast um það hvort við eigum að vera fullgildir meðlimir í Atlantshafsbandalaginu eða hvort við eigum aðeins að vera þiggjendur þar.

Ég vil í þessari umr. lýsa fyllsta trausti á störfum utanrrh. Ég vil lýsa trausti á þá stefnu sem ríkisstj. hefur markað sér í utanríkismálum, m. a. þá stefnu að verða við þeim óskum sem okkar félagar í Atlantshafsbandalaginu setja fram um að tryggja gagnkvæmt öryggi þeirra þjóða sem mynda Atlantshafsbandalagið. Ég vil vara við þeirri skoðun að hægt sé og nægilegt að viðhalda þeim mannvirkjum sem hér eru á landinu til að tryggja eftirlit og öryggi. Tækninni fleygir ört fram og við skulum ekki ætlast til þess að ekki þurfi að endurnýja þau mannvirki, jafnvel að breyta þeim eitthvað eða byggja ný til þess að fyllsta öryggis sé gætt.

Það hefur verið rætt um ratsjárstöðvar á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Inn í umr. hafa fléttast hugleiðingar um það hvort við Íslendingar gætum haft gagn af þessum stöðvum fyrir okkur eina, m. a. í sambandi við flugöryggi og öryggi sjófarenda. Mér finnst það afskaplega óviðurkvæmilegt að gera lítið úr því þegar við í samvinnu við önnur Atlantshafsbandalagsríki ætlum okkur að hafa gagn af þeim mannvirkjum, sem byggð eru með hagsmuni heildarinnar fyrir augum, í sambandi við þessa þætti. Ég vil minna á öryggi flugsins fyrir t. d. Vestfirðinga. Ég vil minna á það að um Ísafjarðarflugvöll fara á ári á milli 40 og 50 þúsund farþegar. Ef ég stend frammi fyrir því að taka ákvörðun um hvort byggja eigi einhver mannvirki sem tryggja öryggi þessa fólks mun ég að sjálfsögðu ekki bera hagsmuni þess fyrir borð.

Við höfum orðið vitni að miklum og alvarlegum slysum á vestfirsku fiskimiðunum og miðunum kringum landið. Ef hægt er með einhverju móti að minnka hættu á slíkum sjóslysum, sem við höfum orðið vitni að, tek ég þátt í því. Ég tel að við megum ekki vanmeta þann ávinning sem við höfum af slíkum framkvæmdum um leið og við erum að uppfylla skyldur okkar við bandalagsþjóðir.

Hér hefur verið rætt um svokallaða bænarskrá Vestfirðinga sem nokkrir Vestfirðingar hafa skrifað undir. Það hefur komið fram hér í þessum umr. og verið gefið í skyn að þeir sem á þessa bænarskrá hafa ritað nöfn sín hafi gert það í umboði einhverra annarra. Ég vil alfarið mótmæla slíkri skoðun. Ég held að allir, sem undirrituðu þessa svokölluðu bænarskrá, hafi gert það persónulega. Ég ætla ekki hér og nú að draga dul á það að um þetta mál eru skiptar skoðanir. En þó tel ég persónulega að málið sé nú farið að snúast um það hvort við eigum áfram að vera í Atlantshafsbandalaginu eða utan þess.

Það eru um 10 þúsund íbúar á Vestfjörðum. Það eru ekki nema á milli 80 og 100 manns sem hafa skrifað á þessa bænarskrá. Þeir sem styðja þessar framkvæmdir ef til koma hafa lítið látið til sín heyra. Það getur vel verið að það komi að því að þeir verði að gera það. Þó liggur það fyrir og ég vil koma því hér að að bæjarstjórn Bolungarvíkur — en í henni sitja níu fulltrúar — hefur lýst sig fylgjandi þeim hugmyndum að þessi stöð verði byggð í landi Bolungarvíkur. Ég held að það séu átta fulltrúar af níu sem hafa lýst sig samþykka því.

Ég held að Íslendingar séu ekki í stakk búnir til þess í dag að ráðast í stórkostlegar framkvæmdir sem tryggja hér öryggi, m. a. í lofti. Þess vegna skil ég það ekki að menn skuli gera lítið úr því að við getum hugsanlega tryggt fyllsta öryggi um leið og við samþykkjum að tryggja hagsmuni þeirra ríkja sem með okkur eru í NATO.

Ég get að sjálfsögðu ekki talað hér fyrir hönd annarra þm. Framsfl. En ég lýsi þeirri skoðun minni að ég mun ekki greiða þessari þáltill. atkvæði ef til þess kemur að ég verði hér í þessu húsi þegar atkvæðagreiðsla fer fram.