21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3778 í B-deild Alþingistíðinda. (3108)

349. mál, þróunarstofur landshlutanna

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um þróunarstofur landshlutanna. Þetta er 349. mál og er á þskj. 557. Flm. auk mín eru hv. þm. Kristín S. Kvaran, Stefán Benediktsson og Kolbrún Jónsdóttir.

Þetta mál var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en kom þá ekki til lokaafgreiðslu. Ég mun því ekki hafa um þetta langt mál heldur vísa til framsöguræðu sem flutt var um málið í fyrra. Þáltill. fjallar um það í stuttu máli að efla frumkvæði heimamanna í atvinnumálum og efla sjálfsforræði þeirra um áætlanagerð, ákvarðanatöku og fjármagnsútvegun sem þeim er nauðsynleg í þessum efnum. Það er mikilvægt að heimamenn geti haft forgöngu um mótun byggðastefnu og þau mál sem hana varða. Þess vegna er þessi þáltill. flutt.

Það sem er mikilvægt í þessu efni er að gera sér grein fyrir að þetta á kannske enn þá meira erindi við okkur nú í ár en áður. Nú eru mjög uppi hugmyndir og umræður um aukið sjálfsforræði héraða eða landshluta og því vænti ég þess að þessi till. geti verið mikilvægt innlegg í það mál. Að auki vil ég minna á aðrar hugmyndir okkar, sem þessu tengjast, um almennar kosningar héraðsstjórnvalda sem mundu auðvelda lýðræðisleg vinnubrögð og þátttöku heimamanna í þessum efnum.

Að þessari umr. lokinni mælist ég til að málinu verði vísað til hv. atvmn.