21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3778 í B-deild Alþingistíðinda. (3110)

234. mál, brunavarnir í fiskvinnslufyrirtækjum

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um brunavarnir í fiskvinnslufyrirtækjum. Þetta er 234. mál og er á þskj. 310. Flm. auk mín eru hv. þm. Stefán Benediktsson, Kolbrún Jónsdóttir og Kristófer Már Kristinsson. Þáltill. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela Brunamálastofnun ríkisins að rannsaka brunavarnir í fyrirtækjum í fiskvinnslu og gera tillögur til úrbóta sé þeirra þörf. Þessari athugun skulu fylgja upplýsingar um fjölda starfsmanna einstakra fyrirtækja og annað sem sýnir mikilvægi þeirra í atvinnulífi viðkomandi byggða. Niðurstöðum athugana skal skila í skýrslu innan eins árs til félmrh. Kostnaður greiðist með aukafjárveitingu úr ríkissjóði.“

Það eru öllum kunn þau tilefni sem menn hafa haft á undanförnum árum til að velta fyrir sér brunavörnum í atvinnufyrirtækjum um landið allt. Í grg. með þessari till. er farið nokkrum orðum um stóra bruna sem hafa orðið í fiskvinnslufyrirtækjum síðan árið 1981. Menn þekkja þessa sögu. Gífurlegt tjón hefur orðið á eignum og svo hefur auðvitað orðið tjón líka vegna röskunar á atvinnulífi. Þessi fiskvinnslufyrirtæki eru flest burðarásar atvinnulífs hvert í sínu héraði. Þarf því ekki að hafa langt mál um það hvílíkur hnekkir það er atvinnu og lífi fólks á þessum stöðum þegar þessir stóru brunar verða.

Ég ætla ekki að gera það mál út af fyrir sig að umræðuefni, um það er hægt að lesa í grg. En þetta mál hefur reyndar orðið umræðuefni víðar. Stuttu eftir að þessi till. til þál. var flutt barst þingflokki BJ bréf frá Landssambandi slökkviliðsmanna þar sem komu að mínu mati fram afar athyglisverðar upplýsingar. Landssamband slökkviliðsmanna telur að hér sé í raun og veru ekki gengið beint að vandamálunum sem við sé að etja. Landssambandið segir að allar upplýsingar um ástand í þessum fyrirtækjum séu fyrir hendi og þær hafi verið réttum yfirvöldum lengi ljósar. Hins vegar sé ekki orðið við kröfum yfirvalda og eigendum fyrirtækja virðist ganga býsna vel að koma sér undan því að gera þær umbætur sem þeim ber skylda til að gera. Svo að ég vitni í þetta bréf Landssambands slökkviliðsmanna, dagsett 21. janúar s. l., þá stendur þar m. a., með leyfi forseta:

„Rétt er að geta þess áður en lengra er haldið að Brunamálastofnun ríkisins hefur í öll þessi ár haft einn til tvo eftirlitsmenn sem hafa ferðast um landið og tekið út allar helstu brunaáhættur landsins, þar með talin öll frystihús, hótel o. fl. Hafa þeir jafnvel ár eftir ár heimsótt sama staðinn og óskað eftir sömu lagfæringunum án árangurs. Og enn í dag hefur ekki eitt einasta fyrirtæki eða stofnun verið kærð eða lokað vegna ágalla í brunavarnamálum og þó gera allir sér ljóst að nóg er af brotunum og jafnvel nefnið þið eitt dæmi sjálfir frá brunanum á Raufarhöfn þann 20. des. 1984.“

Síðan segir: „Greinilegt er að ekki er tekið nema lítils háttar mark á tilskipunum eldvarnaeftirlitsmanna og Brunamálastofnunar ríkisins vegna þess að eigendur fyrirtækja og stofnana geta verið nokkuð öruggir með að hótanir um umbætur á kostnað eigenda og/eða lokun eru bara orðin tóm. Af framkvæmd verður ekki.“

Þetta eru býsna alvarlegar ásakanir frá þeim starfsmönnum sem gerst ættu að þekkja þessi mál. Þeir segja raunar að lögum sé ekki fylgt og að menn eigi þess kost á einhvern hátt að skjóta sér undan því að gera þær umbætur sem þeim ber skylda til.

Síðar í bréfi slökkviliðsmannanna segir, með leyfi forseta: „Þykir stjórn Landssambands slökkviliðsmanna því ljóst að annað tveggja þurfi að gera, ýta við Brunamálastofnun ríkisins þannig að hún starfi eftir þeim lögum sem henni eru sett eða, ef hún er ekki nægilega sterk, þá þarf að breyta þeim þannig að þau virki eins og til er ætlast.“

Hérna kemur það álit slökkviliðsmannanna að það sé ekki vegna upplýsingaskorts sem þessi mál eru eins og raun ber vitni heldur sé það vegna linkindar við framkvæmd laganna, að ekki sé farið að lögum, ekki sé gengið eftir því að menn geri þær umbætur sem þeim ber skylda til og að stjórnvöld í héraði, þ. á m. héraðsdómarar, gangi ekki eftir því að rekstur sé stöðvaður í byggingum eða byggingum lokað ef hætta stafi af.

Að auki vill þannig til að í Morgunblaðinu í dag birtist grein þar sem haft er viðtal við Inga R. Helgason sem er forstjóri Brunabótafélags Íslands og sömuleiðis, trúi ég, formaður stjórnar Brunamálastofnunar. Ég vil, með leyfi forseta, vitna aðeins í þessa grein vegna þess að þar koma líka fram alvarlegar upplýsingar og alvarlegar ásakanir að mínu mati. Með leyfi forseta, byrjar þessi grein á þennan hátt:

„Tjón af völdum eldsvoða í atvinnuhúsnæði eru óeðlilega mikil hér á landi miðað við þá fækkun sem orðið hefur á brunatjónum í íbúðarhúsnæði á sama tíma að mati Inga R. Helgasonar forstjóra Brunabótafélags Íslands og formanns stjórnar Brunamálastofnunar. Og það sem verra er, rannsóknir sérfróðra skoðunarmanna á vettvangi ýmissa helstu eldsvoða hérlendis síðustu þrjú árin benda iðulega ýmist til stórfelldrar vanrækslu og gáleysis eða hreinlega íkveikju.“ Þetta segir einn helsti brunamálaforstjóri landsins. Síðar segir í framhaldinu, með leyfi forseta: „Í samtali við Morgunblaðið segir Ingi R. Helgason enn fremur að skoðunarmennirnir kvarti iðulega yfir því að búið sé að hreinsa til í brunarústunum þegar þeir komi á staðinn og eyðileggja mikilvæg rannsóknargögn.“ Síðan segir: „Skoðunarmennirnir hafa sýnt fram á að í nokkrum tilfellum hinna meiri háttar eldsvoða á þessum tíma hafi verið um íkveikju að ræða,“ segir Ingi „en aldrei hafi sá fundist óyggjandi sem valdur var að íkveikjunni.“

Síðan koma fram í þessari grein nokkrar dæmisögur þar sem vettvangsrannsókn hefur sýnt að það hefur verið notuð olía eða önnur íkveikjuefni eða kæruleysið alveg stórkostlega vítavert í sambandi við meðferð elds. Ég ætla ekki að rekja þessi dæmi, þau eru sum þeirra sömu dæmin og eru hérna í þáltill. okkar bandalagsmanna. En síðar í viðtalinu segir, þar sem því er lýst hvernig brunamenn, kunnáttumenn um þessi mál, vinni þegar þeir eru að rannsaka brunaleifar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar verð ég að segja að mér þykir lögreglurannsóknir vegna þessara mála, bæði yfirheyrslur og aðrir þættir rannsóknarinnar, sjaldnast vera í takt við þessar upplýsingar og niðurstöður.“ Er þá vísað til þeirra upplýsinga og niðurstaðna sem brunatæknimennirnir hafi komist að í sinni könnun.

Þetta eru að mínu mati mjög alvarlegar upplýsingar sem koma fram bæði í viðtali við Inga R. Helgason og í bréfi Landssambands slökkviliðsmanna sem ég hygg að allir þm. hafi raunar fengið — það stendur í þessu bréfi að afrit sé sent öllum þm. Alþingis.

Ef við tökum þetta saman í stuttu máli segir Landssamband slökkviliðsmanna í fyrsta lagi að eftirlitsmenn þurfi að heimsækja sömu staðina ár eftir ár án þess að nokkrar úrbætur séu gerðar. Í öðru lagi að forráðamenn geti verið nokkuð öruggir um að hótanir um lokun eða umbætur á þeirra kostnað skv. lögum séu raunar orðin tóm. Í þriðja lagi segja slökkviliðsmenn að ýta þurfi við Brunamálastofnun þannig að hún starfi eftir lögum.

Í öðru lagi kemur hérna greinilega fram í máli Inga R. Helgasonar að hann hefur verulegar athugasemdir um þessi mál. Hann segir það í fyrsta lagi að það séu óeðlilega mikið um eldsvoða í atvinnufyrirtækjum. Í öðru lagi segir hann að ýmsir helstu eldsvoðar undanfarinna ára séu vegna stórkostlegrar vanrækslu eða jafnvel beinnar íkveikju. Í þriðja lagi telur hann að eyðilögð séu mikilvæg rannsóknargögn á vettvangi. Og í fjórða lagi telur Ingi R. Helgason að lögreglurannsóknir séu sjaldnast í takt við niðurstöður eldvarnasérfræðinga sem hafi rannsakað vettvang.

Ég vil beina því til hæstv. félmrh., sem ég harma að skuli ekki vera hér, en hann á að hafa forsvar í þessum málaflokki og er fyrrv. slökkviliðsstjóri í Ólafsvík, að taka nú rækilega á þessum málum og kanna þessar fullyrðingar. Ég tel að hér séu komnar fram svo alvarlegar upplýsingar að ekki sé hægt að sitja undir þeim án þess að gera athugasemdir við. Varðandi till. okkar BJ-manna vil ég segja að hún er samin í nánu samráði við Brunamálastofnun ríkisins og því kemur mér það á óvart að slökkviliðsmennirnir, sem ættu að vita nokkuð gjörla hvernig þessi mál standa, segja að með till. sé skotið fram hjá höfuðvandanum, sem sé ekki upplýsingaskortur heldur linkind kerfisins, þar sem ekki sé gengið eftir því að lögum sé framfylgt.

Ég vona að á þessi mál verði litið í hv. nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar og sannleikurinn verði dreginn fram í dagsljósið. Og ef svo fer að vandinn er annar en upplýsingaskortur, þá trúi ég og vona að viðkomandi ráðh. og rn. geri að því gangskör að bæta úr.

Að þessari umr. lokinni legg ég til að málinu verði vísað til hv. allshn.