25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3793 í B-deild Alþingistíðinda. (3127)

331. mál, náttúruvernd

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil á ýmsan veg taka undir með hv. 5. landsk. þm. þar sem hann ræddi um að ástæða væri til að hreinsa úr lagasafninu ýmis lög sem eru úr gildi fallin. Það er alveg laukrétt. Þessu máli gegnir um ýmis þau lög sem orðið hafa innlyksa í lagasafninu og fjalla um efnahagsmál, tímabundið ástand í efnahagsmálum og sitthvað í því sambandi. En öðru máli gegnir um minjar, eins og þessi lög um friðun héra sem hér komu til umr. Það var margt merkilegt að gerast hér á þeim tíma, margar hugmyndir og mikill framfarahugur í mönnum. Þessi lög, sem eru nr. 23 frá því ári, fela það í sér að Stjórnarráð Íslands geti ákveðið að hérar skuli friðaðir vera nokkurn hluta árs eða allt árið og brot gegn ákvæðum, sem sett verða skv. þessari 1. gr., varði 20 kr. sekt fyrir hvert dýr sem drepið er eða veitt og helmingur sektarinnar renni í sjóð þeirrar sveitar þar sem brotið var framið en helmingurinn til uppljóstrarmanns.

Menn hafa oft verið hugkvæmir í fjáröflunarleiðum fyrir hið opinbera. Mér finnst sjálfsagt að varðveita svona lög sem sýnishorn m. a. af því. En á hitt vil ég leggja áherslu að ákvæði eins og þau sem eru frá 1281 úr landsleigubálki Jónsbókar og fjalla t. d. um merkibjörk og skógarspell eru til prýði og hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En ef sumir (af fleiri sameigendum jarðar) leyfa íneyslu í jörðu en sumir eigi, þá taki sá er eigi leyfði slíkt af áverka sem í jörðu á. En ef fleiri hafa óleyft, þá taki allir slíkt af áverka sem í jörðu á. Nú ferr maðr í skóg annars manns fyrir útan leyfi þess er á, ok vinnr í, þá skal hann er í vann fyrir bæta skógarspell, ok svá þó at maðr rífi hrís á annars jörðu. Ef maðr höggr skýlihögg á viði eða beitir eða skefr svá at spell er á, bæti skógarspell. Hvervitna þar sem maðr hittir áverka í skógi sínum, þá skal hann at ósekju brott taka.“

Síðan eru fleiri ákvæði um áverka á skógi, hvort sem menn höggva í annars manns skóg og ekki eru umferðarmenn fyrir farargreiðabót, „hvárt sem bilar at vögum, sleða eða klyfbera. eða öðrum tréreiða, ok keyrivönd ok til eldsneytis, ef úti býr um nætrsakir í sama stað, nema hann nái hvárki kaupi né orlofi á, ok gengr nauðsyn til, þá höggvi meðan hann þarf, ok bæti skógarspell, ef sá ámálgar er á eða hans umboðsmaðr, svá ok ef á skipi býr.“

Svona ákvæði og ákvæði eins og t. d. þar sem mönnum er sérstaklega heimilað að lesa ber á víðavangi til neyslu á staðnum og fleiri slík eru til prýði í lagasafni okkar og um leið svo mikilvæg sýnishorn af menningarsögu okkar og atvinnusögu sem óneitanlega tvinnast saman við alla löggjöfina á öllum tímum. Það sýnir einmitt sérkenni þessa lands að ýmis af þessum gömlu mörg hundruð ára ákvæðum eiga í raun og veru jafnvel við í dag. En það minnir okkur á, t. d. ákvæðin um skógarhöggið, sem sagt var í Landnámu, að landið hefði verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Það minnir okkur kannske á að einhvern tíma gæti landið orðið aftur svo skógi vaxið að það mætti í alvöru fara að tala um að eitthvað gæti komið fyrir af því tagi sem þessi gömlu lög gera ráð fyrir. Þau eru því í sjálfu sér áminning um það hvernig vernda á náttúruna og hvernig má reyna að bæta fyrir skógarspell liðinna alda.