25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

3. mál, umsvif erlendra sendiráða

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. þó ég hafi margar athugasemdir við hans mál að gera. Ég ætla þó að takmarka mig við mjög fá atriði að þessu sinni. Ég vil taka það fram að ég er ekki sammála hæstv. utanrrh. að því leyti að það sé ekki ástæða til að ræða mál af þessu tagi opinskátt hér á hv. Alþingi. Ég skil ekki hvaða ástæða er til að málefni erlendra sendiráða og takmarkanir sem lagt er til að gerðar verði á starfsemi þeirra séu ekki rædd fyrir opnum tjöldum hér á Alþingi Íslendinga. Ég sé ekki hvaða ástæða er til hinnar minnstu viðkvæmni að því leyti. Við erum hér að fjalla um almennar reglur sem gerð er tillaga um að settar verði og sem við höfum heimild til samkvæmt alþjóðasamningum að setja. Hví skyldum við ekki ræða það innan veggja þessa salar en ekki lokaðri utanrmn. með hvaða hætti eðlilegt er að standa að slíku? Þó svo að hæstv. utanrrh., eftir því sem ég skildi orð hans, virðist hallast að því að það sé vafasamt að setja almennar takmarkandi reglur varðandi störf sendiráða, með tilvísun í að þetta sé ekki algengt með öðrum þjóðum, þá finnst mér full ástæða til þess að Íslendingar brjóti í blað að þessu leyti og setji slíkar almennar reglur. Og ég vænti að hæstv. ráðh. komist að því við nánari athugun að skynsamlegt sé að taka þannig á máli.

Hæstv. ráðh. viðhafði orðin hreinskilni, festa og djörfung í sambandi við þessi mál. Þetta eru stór og falleg orð, en ég spyr hæstv. ráðh.: Af hverju gengur hann ekki fram af hreinskilni, festu og djörfung og notar þær heimildir sem hann hefur lögum samkvæmt til þess að grípa takmarkandi inn í starfsemi erlendra sendiráða sem hann lýsti hér að væri eðlilegt að gera? Hann nefndi eitt tiltekið sendiráð í því samhengi og ég spyr hæstv. ráðh.: Af hverju beitir hann ekki sínu ráðherravaldi til þess að taka á málefnum þess sendiráðs? En ég bendi einnig á það að miklu eðlilegra hlýtur að vera að ganga fram í slíkum efnum og vænlegra til árangurs með því að Alþingi móti almennar reglur eða framkvæmdavaldið á grundvelli lagaheimildar, því ég hygg að þá séu málin, eins og hæstv. ráðh. vék að, ekki hlaðin þeirri viðkvæmni sem hann telur að tengist slíku og vissulega getur verið til staðar í sambandi við takmarkanir gagnvart einstökum ríkjum.

Dylgjur hæstv. ráðh. varðandi okkur Alþb.-menn og okkar viðhorf í þessu efni eru nánast ekki svaraverðar, verð ég að segja, og það er ósköp átakanlegt að gripið skuli til þess af þeim valdsmanni íslenskum sem hefur lagaheimildir til að grípa inn í þessi mál en beitir þeim ekki, þó svo að flokkur hans og málgagn sé gasprandi um það dögum oftar hver nauðsyn sé á í þessu efni varðandi eitt tiltekið sendiráð. En hæstv. ráðh. virðist ekki hafa þá festu og djörfung til þess að taka þá á þeim málum með þeim hætti sem flokkur hans er sífellt með áskoranir um. Ég mun annars ræða þessi mál að sjálfsögðu í hv. utanrmn. Ég vona að þessi tillöguflutningur verði til þess að Alþingi taki á þessum málum og álykti um það að settar verði almennar takmarkandi reglur að þessu leyti. Og ég ítreka það aðeins að lokum, herra forseti, að það er með öllu óhæfa að erlend sendiráð séu hér með nífaldan starfsmannafjölda á við það sem hliðstæð sendiráð íslensk eru með í viðkomandi löndum, og stangast auðvitað gersamlega á við anda og ákvæði alþjóðasamninga um þessi efni.

Ég vek svo aðeins að lokum athygli á því að hæstv. ráðh. svaraði ekki fyrirspurn varðandi takmörkun á húsnæði erlendra sendiráða á grundvelli lagaheimilda, hvort slíkum takmörkunum hefði verið beitt frá því í fyrra að við ræddum þessi mál hér síðast.