25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3801 í B-deild Alþingistíðinda. (3140)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. 5. þm. Vesturl. að hér er aðeins um einn þátt í því að ræða sem venjulega er kallað peningapólitík. Ég vil í því sambandi benda hv. þm. á að hér er ekki ríkisstjórnarfrv. á ferðinni, heldur þmfrv. og að hæstv. núv. ríkisstj. hefur stundum framkvæmt eitt eða annað í peningapólitík án þess að allir þættir þeirra mála væru nú til staðar hverju sinni.

Ég tel augljóst fyrir mitt leyti að eftir að hæstv. ríkisstj. ákvað að færa afurðalánin frá Seðlabanka til viðskiptabankanna, en halda jafnframt bindiskyldu í 18%, geta bankar eins og t. d. Búnaðarbankinn ekki með góðu móti sinnt afurðalánunum. Ef viðskiptabankarnir eiga að sinna þessum verkefnum verður að gera þeim kleift að gera það og það er ein ástæða þess að ég er samþykk þessu frv. Ég vil einnig benda hv. þm. á að með þessu móti, þ. e. eftir að afurðalánin hafa verið færð frá Seðlabankanum til viðskiptabankanna og miðað við 10% innistæðubindingu, stendur Seðlabankinn eftir með ívið hærra hlutfall af innistæðubindingu en nú er. Þ. e. afurðalánin eru það stór hluti af því fé sem bundið er í Seðlabankanum frá viðskiptabönkunum að þegar þau hafa verið færð frá Seðlabankanum til viðskiptabankanna er Seðlabankinn með heldur hærra hlutfall í innistæðubindingu en áður var. Eftir sem áður ætti Seðlabankinn því að vera fær um að leggja fé til hliðar til að fjármagna félagsleg verkefni og draga úr erlendum lántökum, reyndar öllu frekar þar sem ívið rýmra er um fé í Seðlabankanum í reynd en áður var. Ef vilji er fyrir hendi í þá átt að nýta fé sem þarna er um að ræða til sameiginlegra framkvæmda og til að draga úr erlendum lántökum kemur þetta frv. ekki í veg fyrir að slíkur vilji nái fram að ganga.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki að okkur hv. þdm. sé nokkuð að vanbúnaði að ganga til atkvæða um þetta mál. Ég er ekki að gera athugasemd við ákvörðun forseta, en ég vil samt taka það fram að að mínu viti hefur verið nokkuð drjúgur tími til að fjalla um þetta mál hér í þinginu.