25.03.1985
Neðri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3804 í B-deild Alþingistíðinda. (3152)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er auðvitað rétt, sem hv. 5. þm. Austurl. sagði, að hér er um alvörumál að ræða, en það vita allir ástæðuna fyrir þessari stöðvun nú. Sú ástæða er það skömmtunarkerfi sem við búum við, það einræðisvald í fiskveiðum og fiskvinnslu sem meiri hluti Alþingis hefur afhent einum hæstv. ráðh. í tvö ár í röð, það er kvótakerfið. Það er ástæðan fyrir því að nú eins og stundum áður er gripið til stöðvunar við ágætis aflabrögð. Það er því frumkrafa þeirra sem með eðlilegum hætti og á sem æskilegastan máta og hagkvæmastan vilja stunda fiskveiðar og fiskvinnslu í þessu landi að létta þessu kerfi af.

Ég minni á það líka, úf af því sem hv. 5. þm. Austurl. sagði um að Alþb. hefði beitt sér fyrir því að veiðar báta af þessari stærð væru utan kvóta, að ég beitti mér fyrir flutningi á brtt. við afgreiðslu kvótamálsins í desembermánuði s. l. um að bæði handfæraveiðar og línuveiðar væru undanþegnar kvóta. Auðvitað var sjálfsagt í ljósi þess sem gerst hafði og var að gerast að taka slíka ákvörðun þá. Það ætti að vera nóg að reyna slíkt stjórnunarkerfi við stærri báta en hér um ræðir þó ekki sé við bætt handfæraveiðum á smábátum og línuveiðum því að það er tiltölulega mjög lítill hluti af þeim þorskafla t. d. sem veiðist hér við land á ári hverju.

Ekkert mælir með því að þær veiðar séu undir slíkri stjórnun sem hér um ræðir. Ástæða þess sem nú er að gerast er sú stefna í stjórnun fiskveiða sem meiri hl. hér á Alþingi, stuðningsmenn núverandi hæstv. ríkisstj., hefur ákveðið, það alræðisvald sem meiri hl. hefur afhent hæstv. sjútvrh.