25.03.1985
Neðri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3805 í B-deild Alþingistíðinda. (3154)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er greinilegt að hv. skrifari vor hefur ekki fylgst mikið með umr. í Nd. í desembermánuði s. l. þegar þessi mál voru til umr. Er það kannske eðlilegt því að þetta mál var þá rætt á næturfundum eins og oft hefur gerst þó að um mikilvæg mál væri að ræða og hefur hv. skrifari trúlega sofið á sínu eyra þá.

Hann hefði nú ekki, hefði hann fylgst með, þurft að fara neitt í grafgötur um það í hvaða flokki sá sem hér stendur er. En ætli honum sé kunnugt um í hvaða flokki hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson er, forseti Sþ., sem hefur nákvæmlega sömu skoðun í þessu máli og ég? Ætli honum sé ekki kunnugt um í hvaða flokki hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson er, sem lýsti nákvæmlega sömu skoðunum og ég í ræðu í Nd. í desembermánuði s. l., þegar þetta mál var til umr., þó hann léti til leiðast að greiða atkvæði með stjórnarliðinu í málinu? Það er svo annað mál að þar skildu leiðir. Ég greiddi atkvæði þá á þann sama veg og ég talaði og mín skoðun stóð til. Þar skildu leiðir með mér og ýmsum öðrum hv. stjórnarliðum sem töluðu á sama veg og ég, en greiddu ekki atkvæði samkvæmt því.

Hv. þm. Halldór Blöndal hefur oft talað í mín eyru og fleiri í Nd. í svipuðum dúr. En hann er eins og fleiri sem flokksfjötrarnir eru á lagðir og verður oft og tíðum að lúta þeim hlekkjum sem á hann eru lagðir til að flokksaginn gildi. Hann er einn af þeim mörgu í þeim flokki sem ekki bregst flokksaganum. Hann heldur sér við hann og ætlar sér að ganga upp mannvirðingastigann í flokknum í ljósi þess að hlýða foringjunum nánast hvað sem þeir segja.

Ég minni hv. þm., skrifara vorn, Halldór Blöndal á skoðanir hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar sem hefur hvað harðast gagnrýnt og deilt á þá stjórnunaraðferð og það stjórnunarkerfi sem verið hefur hér við lýði varðandi fiskveiðar undangengin tvö ár. Enginn hefur harðar gagnrýnt þetta kerfi en hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Hvar í flokki ætli hann sé? Það ætti hv. skrifari að vita hafi hann verið hér á þeim tíma sem þær ræður voru fluttar eins og hann átti að vera. — Ég veit að hæstv. iðnrh. þolir ekki lengur við, ég sé að hann gengur úr þd., þegar þeir sjálfstæðismenn eru minntir á hversu margir af þeirra eigin flokksbræðrum eru allt annarrar skoðunar en fram kemur þegar atkvæði falla í þd. Ég virði það við hæstv. iðnrh. að hann skuli ekki geta setið undir slíku lengur.

Hér hefur ekki neinn loddaraleikur verið leikinn. Þessum skoðunum hefur verið komið hér á framfæri skilmerkilega og ekkert síður af sumum sem fylgja núverandi ríkisstj., þ. e. úr Sjálfstfl. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt einn einasta hv. þm. Framsfl. andmæla þessu kerfi. (Gripið fram í: Við erum sammála því.) Já, þess vegna andmælið þið ekki, þið eruð sammála. Ég legg þann skilning í það a. m. k. Er það ekki rétt, hv. skrifari til vinstri? Þeir virðast vera æðiruglaðir orðnir í þessu, skrifarar vorir í þessari deild.

Málið er auðvitað númer eitt að hér hefur Alþingi afsalað sér miklu valdi. Með eindæmum er að afhenda einum hæstv. ráðh. svo mikið vald hversu góður sem hann væri, og þessi gagnrýni á ekki sérstaklega við núverandi hæstv. sjútvrh. Hversu góður sem slíkur ráðh. væri er af og frá að löggjafinn geti afsalað sér slíku valdi eins og hér er um að ræða. Það er auðvitað það fyrsta. En fyrst hann gerði það situr þjóðin uppi með krógann þar til öðruvísi verður hægt að ákveða. Vonandi fjölgar þeim svo núverandi stjórnarliðum í Sjálfstfl., það er engin von til þess að það eigi sér stað í Framsfl.,— en vonandi fjölgar svo þeim stjórnarliðum í Sjálfstfl., sem eru á svipaðri skoðun og við sem höfum gagnrýnt þetta kerfi og þessa stjórnun, að hægt verði áður en langt um líður að breyta því til hagsbóta bæði fyrir sjómenn og útvegsmenn og þjóðarheildina.

Hv. þm. Halldór Blöndal sagði áðan að sjómenn og útgerðarmenn væru orðnir sammála þessu kvótakerfi. Man ekki hv. þm. hvernig ástandið var á Fiskiþingi í haust? Voru menn þar sammála því kerfi sem var við lýði árið 1984 og er við lýði nú? Ekki aldeilis. Menn voru ekki aldeilis sammála því. Nauðsynlegt er að alþm., hvar í flokki sem þeir eru, sjái svo um að hér verði breyting á, að sjómenn fái tækifæri til að stunda sína atvinnu eins og þeim er hægast og þjóðarbúinu er hagkvæmast og eins og þeim aðilum sem næst þessari atvinnugrein standa kemur best. Það verður ekki gert undir núverandi stjórnun. Til þess verður breyting að eiga sér stað.