25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

3. mál, umsvif erlendra sendiráða

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir till. til þál. um takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða hérlendis. Ég hygg að það sé rétt að ræða hér ákveðin atriði af þeirri hreinskilni sem hv. flm., 5. þm. Austurl., hefur óskað eftir.

Það kom fram í hans máli að þar sem okkar starfsmenn í Rússlandi hefðu ekki heimild til að fara út fyrir 40 mílna radíus og þyrftu að semja ferðaáætlun, sem þeir birtu með tveggja daga fyrirvara, þá væri sanngjarnt og eðlilegt að Íslendingar tækju upp svipuð vinnubrögð gagnvart Rússum. Þeir skyldu ekki hafa meiri rétt hér á landi en við hjá þeim. Þetta eru trúlega áhrif frá biblíusögukennslu í skólum þegar boðaður var sá boðskapur Gamla testamentisins: auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.

Mér sýnist að ef við tækjum almennt upp þá reglu að fara eftir siðvenjum hvers ríkis og bregðast við á sama hátt hér á landi, þá gætu það orðið ákaflega fjölskrúðugar reglur sem giltu um hátterni erlendra sendiráðsmanna hér á landi og ekki ólíklegt að það þyrfti ekki svo lítinn mannfjölda til að fylgjast með því að allir færu eftir settum reglum sem utanrrh. setti á þessu sviði, en ég vara við þeim hugsunarhætti að Íslendingar fari að setja upp misjafnar reglur um ferðafrelsi sendiráðsstarfsmanna hér á landi, misjafnar reglur um þeirra hátterni sem miðist við hvaða reglur viðkomandi ríki hafa sett upp hjá sér. Erum við þá ekki að hluta til að yfirfæra þeirra stjórnarfyrirkomulag yfir til okkar, vera nokkurs konar spegilmynd af því sem þeir gera? Mér finnst að það geti verið ákaflega hættulegt ef menn ætla að negla sig gersamlega fasta í afstöðu t.d. á þann veg að ef hér er sendiráð með níu mönnum þá skuli a.m.k. vera sendiráð frá okkur hjá viðkomandi ríki með einum manni. Mér sýnist t.d. að ef við tækjum upp þessa reglu væri það eitt af því sem hæstv. utanrrh. þyrfti að gera að vísa Kínverjum strax úr landi. Ég veit ekki til þess að þeir hafi brotið neitt af sér. Þetta yrði kannske líka dálítið erfitt mál svona fyrirvaralaust og miðað við erfiðleika í flugsamgöngum vegna verkfalls og því e.t.v. nauðsyn að fresta örlítið afgreiðslu málsins jafnvel þótt það færi til nefndar.

Það má vel vera að hv. 5. þm. Austurl. telji að áróðurslega séð sé honum nauðsyn að flytja þessa till. En ég er ekki viss um að hann hafi hugsað til fullnustu þann boðskap sem hann er að koma hér á framfæri.