25.03.1985
Neðri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3809 í B-deild Alþingistíðinda. (3160)

315. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þetta er 315. mál á þskj. 500. Flm. eru Sighvatur Björgvinsson og Guðmundur J. Guðmundsson. Brtt. eru tvær greinar og hljóða svo með leyfi forseta:

„1. gr. Á eftir 2. tl. C-liðar fyrri mgr. 30. gr. III. kafla laganna komi nýr tölul. er verði 3. tl. og orðist svo: Frádráttur til fiskvinnslufólks sem nema skal 10% af beinum tekjum af störfum við fiskvinnslu hjá fólki með starfsstéttamerkingu 35, þ. e. hjá ófaglærðu verkafólki, 34, þ. e. hjá faglærðu starfsfólki í fiskiðnaði, og 33, hjá fólki við verkstjórnarstörf í fiskiðnaði.“

Þessi starfsstéttarmerking er nú hagstofuatriði. Meginatriðið í þessu og meginatriði frv. er það nýmæli að 10% af beinum tekjum af störfum við fiskvinnslu verði frádráttarbær frá tekjuskatti.

„2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 1985 vegna tekna ársins 1984.“

Ég vil fyrir fram vara hv. þm. við því að segja að ekki sé hægt að láta þessa skattalækkun á fiskvinnslufólki koma til framkvæmda vegna tekna ársins 1984. Það hefur verið margleikið hér í hv. Alþingi þegar aðrir eiga í hlut.

Í grg. okkar flm. er minnt á þann aðstöðumun sem nú er hjá þegnunum í landinu gagnvart tekjuskatti, annars vegar þeirra sem hafa rekstur undir höndum og svo almennra launamanna. Þá er og minnst á einstaka hópa með eigin atvinnurekstur, þó smár sé, eða geti verið, hversu auðveldlega margir þeirra komast undan tekjuskatti og á hvern hátt það stuðli í vaxandi mæli að því að það eru að verða tvær þjóðir í þessu landi. Þá er ítrekuð sú staðreynd í grg. að sjómenn og fiskverkunarfólk hafi orðið hvað harðast úti í þeirri kjaraskerðingu sem átt hefur sér stað að undanförnu.

Eins og hv. þm. er kunnugt eru lögin um frádrátt sjómanna frá tekjuskatti sennilega um 30 ára gömul. Þessi lagaákvæði leystu á sínum tíma harðvítugt verkfall sem togarasjómenn stóðu í. Sjómenn hafa nú um 180 kr. á dag í frádrátt fyrir hvern dag sem þeir eru skráðir á skip. Auk þess hafa fiskimenn 12% frádrátt af tekjum þegar lagður er á tekjuskattur. Þetta hefur verið að breytast í gegnum tíðina, breyttist t. d. í vetur úr 10% í 12. Við flm. leggjum til að næst á eftir greininni um sjómenn í skattalögunum komi ný grein um að 10% af tekjum fiskverkunarfólks verði undanþegin tekjuskatti.

Ég vil taka það skýrt fram, svo að enginn misskilningur eða rangtúlkun eigi sér stað, að ég er í einu og öllu sammála ákvæðunum um skattafrádrátt sjómanna og styð þau lagaákvæði af heilum hug. Og enginn skyldi taka þetta lagafrv. okkar þannig að því sé stefnt gegn sjómönnum. Ekkert er fjær okkur. En nú spyrja sjálfsagt margir: Hvers vegna að mismuna þegnunum? Svar mitt er: Það er alltaf verið að mismuna þegnunum í skattalögum. Það er ekki langt síðan stórlækkaðir voru skattar á fyrirtækjum. Það fór nokkuð hljóðalítið í gegnum þjóðfélagið og meira að segja án mikillar hörku hér á hv. Alþingi. Frádráttarbær frá skatti eru nú kaup á hlutabréfum í fyrirtækjum. Þetta er nýmæli, á sér ekki langa sögu.

Hvað um tekjuskattinn á bændur? Nýlegar fyrningarreglur, sem ganga út yfir bústofninn, verka þannig að bændur fá yfirleitt ekki tekjuskatt. Ég skal viðurkenna að bændur eru yfirleitt ekki ofhaldnir. En í fjölmörgum sveitum eru það vinnumenn og ellilífeyrisþegar sem bera hæstu skattana en góðbændur eru lægri. Ég er ekki að sjá ofsjónum yfir hag bænda, fjarri því. En ákaflega eru skattalögin þeim hagstæð. Við skulum því ekki fullyrða hér að ekki sé um neina mismunun að ræða í skattamálum þegnanna. Hún er þegar til staðar í þessu þjóðfélagi.

En snúum okkur nú að fiskvinnslufólkinu. Hvernig er að því búið? Það býr við algert öryggisleysi í atvinnumálum, eins og ég hef margítrekað úr þessum virðulega ræðustól að undanförnu. Hvort sem það hefur starfað í 30 ár eða 3 mánuði í starfsgreininni, þótt hjá sama atvinnurekanda sé, þá má segja því upp kauptryggingu með viku fyrirvara. Var einhver að tala um mismunun?

Það kom nýlega fram í sjónvarpi að nú ætti að fara að segja upp fiskvinnslufólki á Ísafirði, segja því upp kauptryggingu og það væri í fimmta sinn síðan í haust. Ég gæti farið allt í kringum landið og rakið uppsagnir fiskverkunarfólks, þar sem það hefur verið atvinnulaust ekki aðeins í viku, hálfan mánuð eða mánuð, heldur tvo, þrjá, fjóra mánuði.

Tímakaup þessa fólks er það lægsta sem þekkist hjá Verkamannasambandinu, svona 81–86 kr. á tímann. Meginhluti þessa fólks vinnur hins vegar í bónus undir gífurlegu álagi, það miklu álagi að skv. nýlegri könnun voru um 70% þessa fólks með einkenni atvinnusjúkdóma og verulegur hluti þeirra mjög alvarlegur. Að vísu aukast tekjur við bónusinn. En það er mjög alvarlega til umræðu hjá verkalýðshreyfingunni, vegna þess sem ég hef getið hér að framan, að banna bónus.

Og vinnutíminn, hvernig er hann? Ýmist uppsagnir og atvinnuleysi eða of oft mjög langur og óreglulegur vinnutími, 10–16 tímar mjög algengt. Þessu fólki er það annt um framleiðsluna að það leggur á sig þennan vinnudag til að bjarga verðmætum.

En hver er svo þróunin í þessum málum? Þróunin er sú að það er stórfelldur flótti úr þessari atvinnugrein, lág laun, lítið atvinnuöryggi, mikið vinnuálag og einhæf vinna. Flóttinn er ekkert bundinn við Reykjavík. Víðast hvar á landinu leitar fólk úr fiskvinnu ef það á kost á annarri vinnu. Íbúðaverð á gróskufyllstu stöðum á landinu hefur hríðfallið vegna þess að fólk er að leita burt úr þessari atvinnugrein og það af stöðum þar sem gjaldeyrisframleiðslan er hvað mest á hvern íbúa. Sér nú ekki hver maður að þetta ástand getur ekki gengið? Eða vita ekki allir að við lifum fyrst og fremst af fiski? Ef þetta fólk heldur áfram að flýja fiskiðnaðinn þá hríðfalla gjaldeyristekjur okkar og þjóðin kemst á vonarvöl. Það þýðir ekkert að reyna að bjarga þessu með því að auka innflutning á fólki frá Ástralíu eða Norðurlöndum. Reyndar tollir enginn frá Norðurlöndum hér vegna þess hve kaupið er lágt og vinnan erfið. Eða er það hagstæðara fyrir íslenska ríkið að borga vinnulaun verkafólks í erlendum gjaldeyri? Það væri kannske athugandi að borga íslensku verkafólki laun í erlendum gjaldeyri. Hvers konar þjóðarbúskapur er þetta eiginlega?

Það var fróðlegt að hlusta á Magnús Gústafsson, forstjóra Coldwaters í Bandaríkjunum, í útvarpinu s. l. laugardag. Hann sagði efnislega eitthvað á þá leið að við gætum stóraukið verðmæti fiskafurða okkar ef við hefðum vinnuafl til að vinna fiskinn í dýrari pakkningar. Og við mættum engan tíma missa ef ekki ætti enn verr að fara. Það er forstjóri Coldwaters sem þannig talar.

En enn heldur flóttinn áfram úr fiskvinnunni, rekinn af stjórnvöldum og Alþingi. Ég skal segja ykkur örfáar staðreyndir sem ég hef persónulega 30 ára reynslu af. Í kjarasamningum er ekki jafnerfitt að fá bætt kjör fyrir neinn hóp og fiskverkunarfólk. Ég held að atvinnurekendur séu að skilja það fyrst núna að þetta ástand getur ekki gengið. Þeir segja og það með töluverðum rétti: „Við getum ekki velt þessum kauphækkunum út í verðlagið eins og aðrir. Það verður þá að koma fram í gengislækkun. Sjávarútvegurinn er rekinn með tapi á meðan ýmsir aðrir stórgræða.“ Eitt er víst, að fiskverkunarfólk stórgræðir ekki á sjávarútvegi. Að vísu hafa atvinnurekendur of oft verið skammsýnir í þessu. En það skal enginn ímynda sér að undan því verði vikist að kjör fiskverkunarfólks verður að bæta.

Ríkið getur komið þarna inn sem aðili með því að lækka skatta á fiskverkunarfólki eins og frv. þetta gerir ráð fyrir. Margt af þessu fólki hefur þó nokkrar árstekjur með því að leggja hart að sér í bónus og með mikilli yfir- og helgarvinnu. Mér er mjög til efs að ríkið tapi hér nokkru fé ef dýpra er skoðað. Þjóðartekjurnar standa og falla með því hvort vel eða illa er að verki staðið í fiskvinnslu. Við björgum því ekki með útlendingum. Til hvaða lands ætli verði leitað næst til að fá óvant fólk í fiskvinnslu meðan við erum að hrekja þjálfað fólk frá þessum störfum?

Hvernig á að beita tekjuskatti? Hafa ákvæðin sem stöðugust, segja sumir. Þau eru nú stöðugust á launafólki ákvæðin um tekjuskattinn. Ég held að það skipti ákaflega miklu máli fyrir þjóðarbúið að við getum haft tekjuskattinn sveigjanlegan þegar undirstöðuatvinnuvegur okkar stenst ekki samkeppni um vinnuaflið og sveigja þá tekjuskattinn þessu fólki í vil. Tekjuskattur getur nefnilega verið sterkt hagstjórnartæki. Ég held að hv. Alþingi verði að athuga þessa hlið málsins. Það er ekki einungis verið að hlaupa undir bagga með þessu fólki. Það er verið að hlaupa undir bagga með sjávarútveginum sjálfum svo að hann fái fólk til starfa. Svo sannarlega þurfum við á sveigjanleik að halda. Lækkum tekjuskattinn á þessu fólki sem ásamt sjómönnum vinnur grunnframleiðslustörfin í þjóðfélaginu, fólki sem vinnur langan og óreglulegan vinnudag en er svo atvinnulaust á milli, oft vikum og mánuðum saman, fólki sem vinnur undir það miklu álagi að meðal þess eru atvinnusjúkdómar sennilega tíðastir á Íslandi. Athugið að þetta fólk verður iðulega fyrir stórfelldum tekjumissi af þeim sökum. Þetta fólk skuldar ekki þjóðfélaginu. En þjóðfélagið skuldar því. Eigum við að byggja á auknum innflutningi erlends vinnuafls í þessar greinar og greiða vinnulaun í erlendum gjaldeyri? Eigum við að ýta undir þá þróun að við seljum hráefni okkar í vaxandi mæli í ódýrari pakkningum af því að við höfum ekki vinnuafl í þessari starfsgrein? Ég er sannfærður um að þjóðfélagið í heild mundi græða á samþykkt þessa frv. sem hér er lagt fram. Það leysir ekki allan vanda, fjarri því. En það er spor í rétta átt. Ég hef margar tillögur í þeim efnum en ég skal ekki verða langorðari hér.

Herra forseti. Ég legg til að þessu frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. í trausti þess að sá andi ríki í nefndinni að hún skilji að hér er verið að fjalla um kjör fólks, sem ekki hefur gengið út frá störfum sínum, heldur fólks sem er margrekið út af vinnustað þegar atvinnurekendum hentar, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur jafnvel 6–7 sinnum á sama árinu.

Ég held að við verðum að fara að átta okkur á þýðingu starfa þessa fólks. Ég vara hv. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar við því að reyna að svæfa þetta frv. í nefnd. Ég vil ekki trúa því að skammsýnin sé svo mikil að nefndin vilji hjálpa til við að leggja íslenskan sjávarútveg í rúst.

Herra forseti. Ég vil ljúka ræðu minni með því að segja að ég vona að hv. þd. beri gæfu til að afgreiða þetta frv. fljótt og undanbragðalaust.