25.03.1985
Neðri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3815 í B-deild Alþingistíðinda. (3163)

315. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ekkert er mér fjær en að hafa á móti bættum kjörum fiskvinnslufólks í þessu landi. Ég er sjálf runnin úr þeim herbúðum og tel mig þekkja nokkuð vel kjör þess fólks og hef sjálf unnið við fiskvinnslu. Þetta þýðir samt ekki að ég hljóti ekki að gera verulegar athugasemdir við þetta frv. og hlýt að eyða í það nokkru máli, herra forseti.

Þegar Alþingi Íslendinga er að setja lög í landinu er verið að búa lífi fólksins í landinu framtíð eða gera því einhvern farveg til nokkurs tíma. Frv. eins og þetta þykir mér afar vont frv. að því leyti að hér er aðeins vikið að mjög litlum hluta af vandamáli verkafólks í þessu landi og til mjög stutts tíma og til mjög lítils gagns. Það er algerlega ljóst að það gerir ekkert fyrir sjávarútveginn í landinu þó það, eins og hér segir, sé til þess að bjarga ömurlegum kjörum fiskvinnslufólks í landinu að það fái að taka 10% af beinum tekjum til frádráttar við álagningu tekjuskatts. Í fyrsta lagi er ég í meginatriðum hlynnt því að allir launþegar í landinu greiði skatt af tekjum sínum og ekki síður hinir sem enga skatta greiða, en hafa obbann af fjármagninu í landinu. Ég hlýt að spyrja: Hvers eiga þeir að gjalda sem vinna t. d. á saumastofum landsins? Ekki alls fyrir löngu kom ég á saumastofu á Akranesi þar sem sátu 30 konur og framleiddu dýrindis ullarflíkur sem seldar eru fyrir háar upphæðir á erlendum vettvangi. Hálfs dags starfsmenn, sem sitja þar og sauma, fá innan við 7000 kr. á mánuði. Mér er alveg ljóst að það bjargar ekki þeim konum að þær fái að draga 10% af beinum tekjum frá tekjuskatti vegna þess að þær komast ekki nálægt neinum tekjuskatti. Þess vegna hlýt ég líka að benda á, eftir að hv. flm. hefur hér haldið fram að vissulega sem við öll vitum — sé um afskaplega ótrygga atvinnu að ræða í fiskvinnslu, að sé nú fólk atvinnulaust mánuðum saman, þá held ég að í ljós hljóti að koma að frádráttur frá tekjuskatti geti ekki komið þessu fólki að miklu gagni. Þess vegna vildi ég gjarnan vilja spyrja hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson: Hvers vegna var ekki farið út í það að fólk fengi frádrátt frá útsvari? Það má vera misskilningur minn, en ég hefði giskað á að það kæmi að meira gagni.

En mergur þessa máls er sá að um árabil hefur þetta fólk verið afar illa launað. Í staðinn fyrir að greiða fólki sómasamleg daglaun fyrir vinnu sína hefur verkalýðshreyfingin fallið í þá gryfju að leita annarra leiða, svo sem alls kyns launahvetjandi kerfa, bónuskerfa, vitandi að þau stórskaða verkafólkið í landinu. Loksins, u. þ. b. tveim áratugum seinna, einum og hálfum kannske, eru mönnum að opnast augu fyrir því að þetta gengur ekki. Það er auðvitað engin leið til að bæta kjör landsmanna að misbjóða heilsu þeirra. Ef bónuskerfið yrði bannað, eins og hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði áðan, er ég ansi hrædd um að verði að ganga heldur rösklega til verks og hækka dagvinnulaun. Fyrir mér er þetta mál allt komið í einn allsherjar rembihnút og ég tel það varla sæmandi að við alþm., jafnvel þó við fáum klapp af þingpöllum, föllumst á hvað sem er til að leysa bráðan vanda einstakra starfsstétta í landinu og ekki þess ómerkasta eins og fiskvinnslufólk er, þó að mér sé nú heldur í nöp við það að æ ofan í æ sé talað um einstakar starfsstéttir þjóðfélagsins á mismunandi hátt, sumar séu gagnlegar og aðrar ekki. Það stríðir mjög á móti allri minni vitund um störf verkafólks þessa lands. (Gripið fram í.)

Ekki síður fer það fyrir brjóstið á mér, hv. þm. Karvel Pálmason og aðrir þeir sem hér hafa talað, þegar talað er um að ekki skuli ræða hér málefni Háskólans, menningarmál og menntunarmál í landinu, á meðan ekki sé búið að bæta kjör fiskvinnslufólks. Háskóli Íslands og fiskvinnslufólk í þessu landi eru ekki tveir aðskildir aðilar í þjóðfélaginu, heldur ættu að hafa miklu nánari tengsl.

Það mætti margt fleira segja um þetta og það má vel vera að mál mitt verði illilega misskilið. Það er nú einu sinni reynt við öll tækifæri. En ég á erfitt með að fallast á að hér á Alþingi sé gripið til þess með löggjöf að bæta til bráðabirgða kjör eins hóps manna í þessu þjóðfélagi og náttúrlega ekki með því að fela atvinnurekendum að greiða þeim laun, heldur á auðvitað að ganga í ríkiskassann og láta hann borga. Ég hlýt að spyrja: Hversu lengi er hægt að ganga í hann? Hvaða starfsstéttir eiga endanlega að greiða skatta? Væri ekki nær að reyna að ná til þeirra sem fara með fjármagnið sem fiskvinnslufólkið í landinu framleiðir og leikur sér með það án þess að borga til sameiginlegra þarfa þjóðfélagsins? Það er fyrir þetta fólk sem við, fiskvinnslufólkið og við alþm. og aðrir launamenn í landinu, erum að greiða skólavist barna, heilbrigðisþjónustu og allt það sem þetta þjóðfélag hefur upp á að bjóða. Það fólk tekur ekki þátt í því. Við gerum það hin.

Í þetta frv. vantar einnig upplýsingar sem ég held að séu afar nauðsynlegar öllum alþm. áður en þeir geta tekið afstöðu til þess, en það er hvað þetta kemur til með að kosta. Hefur flm. ekki dottið í hug að reikna út hversu miklir peningar það séu sem hér er um að ræða? Ég segi fyrir mig að ég hef ekki hugmynd um hvort það skiptir hundruðum milljóna eða tugum milljóna eða hversu miklum fjárhæðum það skiptir. Það verður sjálfsagt kannað við meðhöndlun í hv. fjh.- og viðskn. (GJG: Er þm. hræddur um að það verði mikið?) Sé það ekki mikið, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, sýnir það aðeins hversu gagnslaust þetta er. Það gerir þá ekkert annað en að upplýsa hversu gersamlega þetta frv. er ónauðsynlegt og gagnslaust ef þetta skiptir ekki fiskvinnslufólkið í landinu verulegu máli. Til hvers þá að vera að flytja frv.? Það er verið að stinga dúsu upp í það, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Ég ætlast ekki til þess að fá klapp héðan af þingpöllum, ég er ekkert vön því og ég þoli það vel, en það sem ég vil gera kröfu til hér í sölum Alþingis, svo að ég haldi nú framboðsræðu líka, er að þetta fólk fái hærri laun. Það á ekki að setja það á einhvern ölmusubekk og bjarga því frá því að greiða skatta, síst af öllu einhvern óverulegan tekjuskatt sem ekki einu sinni er víst að því sé gert að greiða.

Ég held að svona frv. séu engum manni til góðs í þessu landi. Ég hlýt að lýsa þessum skoðunum mínum. Ég vil ekki sitja undir því og taka þátt í því að stinga einhverri svona dúsu upp í launafólk í landinu. Það er orðið ólíft í þessu landi, launafólk á Íslandi hefur ekki lengur í sig eða á og það er vandamálið. Skattamál þess er ekki mestur vandinn. Vandinn er að það fær ekkert upp úr launaumslögunum sínum og náttúrlega ósvífin lög um þess eigið atvinnuöryggi. Og ég hlýt að auglýsa eftir því hvers vegna verkalýðshreyfingin hefur ekki séð um að það búi ekki við þau kjör um atvinnuöryggi sem því er boðið upp á.

Við verðum að reyna að komast niður á það að fara að skoða þessi mál öll í samhengi. Það er ekki hægt að banna bónus vegna þess að þá er fólkið ekki með nein laun. Þetta frv. hér bjargar því ekki. Það þarf að taka upp öll launamál í landinu. Ég get ekki sem íslensk kona á Alþingi Íslendinga tekið þetta í þessu gríni á meðan saumakonurnar, prjónakonurnar og verksmiðjustúlkurnar taka upp úr launaumslögunum sínum — með engum bónus, þær eiga engan kost á honum — 12 og 13 þús. kr. á mánuði. Ég get ekki tekið þátt í því að afgreiða svo eitthvert frv. sem á að lækka lítillega skatta fiskvinnslufólks. Ég hlyti þá að auglýsa eftir á sama tíma: Hvað með alla hina? Ég held að löggjöf þjóðarinnar sé alvarlegra mál en svo, að hægt sé að bera fram svona frv. án þess að skoða þessi mál í víðara samhengi.

Hér hefur margsinnis verið talað um að gera kannanir á launakjörum landsmanna. Eitthvað hefur verið samþykkt í þá veru. Út úr þessu kemur svo sem ekki neitt. Hér sagði einhver hv. þm. áðan — að mér fannst heldur einfeldningslega — að stjórnmálaforingjar landsins hafi ekki hlúð að kjörum fiskvinnslufólks í þessu tilviki. Það vill svo til í okkar litla landi að stjórnmálaforingjar landsins eru mjög gjarnan þeir sem mestra hagsmuna eiga að gæta við að halda launakjörum verkafólks í landinu eins mikið niðri og þeir lifandi mögulega geta. Þetta er sem betur fer aðeins að breytast, svolítið er að verða fjölbreyttari hópur fulltrúa landsmanna á þingi en verið hefur, en í afar mörgum tilvikum hefur enginn áhugi verið á því að hlúa að launakjörum landsmanna og í tíð þessarar ríkisstj. hefur verið unnið að því skipulega — ég segi skipulega — að færa laun landsmanna yfir í vasa braskara sem nú hafa svo mikla peninga til að leika sér með að hæstv. fjmrh. verður að eyða milljónum í að auglýsa í kappi við aðra aðila verðtryggð spariskírteini. Ég held ekki að fólkið hér á pöllunum eigi nokkurn skapaðan hrærandi hlut til þess að kaupa verðtryggð spariskírteini fyrir. Það eru aðrir sem eru með þá peninga. Hitt er svo aldeilis laukrétt að það er þetta fólk sem bjó þá peninga til og framleiddi þá, en það eru aðrir sem leika sér með þá. Þetta litla frv. breytir ekki því. Það er verkefni núv. hæstv. ríkisstj. að breyta notkun á fé í þessu landi. Milljónirnar og hundruð milljónanna sem fara nú í hreinan gróða milliliða og allra mögulegra aðila eru peningarnir sem þetta fólk er að vinna fyrir, fyrir þau smánarlaun sem það hefur. En ég skal ljúka máli mínu, herra forseti. Ég held að einhver hafi orðið að segja þetta. Þetta er ekki leiðin til vinsælda, það er mér alveg ljóst, en ég segi það samt.