25.03.1985
Neðri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3821 í B-deild Alþingistíðinda. (3166)

315. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Enn einu sinni ræðum við um bág kjör launafólks í landinu, að þessu sinni fólks sem fer höndum um meginhluta útflutningsafurða okkar. Og svo skammarlega léleg eru kjör þessa fólks að enginn lifandi maður treystir sér til að halda því fram að þau séu sómasamleg. En hverju er um að kenna og hvað þarf til að bæta hér um?

Mér er reyndar til efs að þar sé skattheimta hins opinbera stærsti orsakavaldurinn. Til umræðu er frv. til laga um frádrátt frá skattstofni og vissulega er þarna um ofurlitla leiðréttingu að ræða á kjörum fiskvinnslufólks, en þetta er aðeins, eins og hér hefur nú verið vikið að, lítil leiðrétting sem ég efast um að sé til mikils gagns. Og ég vil taka undir röksemdir hv. 10. landsk. þm. í þeim efnum.

Ég hef oft áður varað við þeirri stefnu, sem virðist eiga sér ýmsa formælendur hér í þjóðfélaginu, að hið opinbera eigi að greiða niður laun fyrir atvinnurekendur. Undirrótin að þeim vanda sem hér er verið að tala um er vandi sjávarútvegsins í heild, um það snýst þetta í raun og veru. Það þarf að taka á þeim vanda og gera honum kleift að greiða almennileg laun og það á að búa almennilega að því fólki sem vinnur erfiðustu störfin í landinu. Og fyrst og fremst þarf að tryggja afvinnuöryggi þess. Um það flutti hv. 7. þm. Reykv. frv. hér fyrr í vetur og það frv. styð ég einlæglega. Atvinnuöryggi þessa fólks er númer eitt í mínum huga svo og aðbúnaðurinn sem er vitanlega stór þáttur í kjörum þess. Á ferðum okkar Kvennalistakvenna um landið á s. l. sumri áttum við tal við konur um allt land, konur einmitt í fiskvinnslu og manni rennur sannarlega til rifja hvernig búið er að þeim. Þær eru orðnar útslitnar löngu fyrir aldur fram af bónusvinnu og það er mál sem við þurfum að taka verulega á.

Ég er nú ekki reiðubúin til að taka afstöðu til þess hér og nú hvort ég styð þetta frv. En það má ljóst vera að ég hef um það miklar efasemdir. Mér finnst þetta ekki vera rétta leiðin til að bæta kjör þessa fólks.