26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3824 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

325. mál, samfelldur skólatími

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. En þau koma að vísu mjög lítið við því máli sem hér er á dagskrá. Þál. sú, sem samþykkt var hér á síðasta þingi, fjallaði um það að Alþingi ályktaði að fela ríkisstj. að láta meta kostnaðarauka ríkissjóðs og sveitarfélaga sem hlýst af því að komið yrði á samfelldum skóladegi grunnskólanema. Sú kostnaðarkönnun átti að miðast við einsetinn skóla, samfelldan skóladag og skólamáltíðir handa nemendum og starfsliði. Niðurstöður þessarar könnunar átti að leggja fyrir næsta löggjafarþing, þ. e. þetta löggjafarþing. Svarið er því mjög einfalt, hæstv. ráðh., og hefði verið hægt að svara því strax á síðasta fundi: Að þessu hefur sáralítið verið unnið.

Nefnd sú, sem ráðh. talar um og ég minntist raunar á þegar ég talaði fyrir fsp. minni, átti í raun og veru að gera allt annað og ég get rifjað það upp. Sá vinnuhópur, sem hæstv. forseti Ed. veitti forstöðu, var skipaður með bréfi menntmrh. 12. júlí 1983 og hann átti að athuga sérstaklega tengsl fjölskyldu og skóla og gera tillögu um hvernig bæta megi þau tengsl. Þá var honum ætlað að athuga sérstaklega hvernig samræma mætti betur vinnutíma foreldra og skólabarna, hvað unnt er að gera í skólastarfi til að styrkja samband barna og foreldra og þar með að stuðla að samheldni fjölskyldunnar. Þetta er raunar töluvert annað verkefni þó að það vissulega tengist því sem hér er um rætt.

Í þeirri áfangaskýrslu, sem við höfum fengið í hendur frá þessari nefnd, eru auðvitað engar tillögur. Það er engan veginn hægt að nefna það, sem þó er kallað tillögur hér, sem tillögur þær sem gert er ráð fyrir í þál. Þetta eru lauslegar hugmyndir um hvernig megi, eins og hér segir, bæta skipulag og stundaskrárgerð, taka tillit til samfelldni við hönnun skólahúsnæðis og í framkvæmdum við skólabyggingar, að efla skólasöfn og vinnuaðstöðu nemenda utan fastra kennslustunda, gefa kost á nestispökkum eða máltíðum á skólatíma og skipuleggja skólastarf á sveigjanlegan hátt. Hér er vissulega komið að sumu af því sem varðar umrædda þál. En svar ráðh. er á engan hátt svar við því sem ég var að spyrja um, sem var einfaldlega hver hefði orðið framkvæmd á þegar samþykktri þál.

Ég verð að lýsa því yfir hér að mér finnst alveg furðulegt að heyra ráðh. tala um að fræðslustjórum hafi verið skrifað og þeir spurðir hvort slík könnun væri gagnleg. Það ber ekki að spyrja neina fræðslustjóra að því. Alþingi Íslendinga hefur talið þessa könnun gagnlega og samþykkt að hún yrði gerð. Ég verð því að lýsa yfir hneykslun minni yfir svona svörum. Það liggur einfaldlega ljóst fyrir að þessi þál. hefur að mestu verið höfð að engu. Hún hefur verið til málamynda send inn í nefnd sem átti í raun og veru að fjalla um allt annað. Það liggur einnig ljóst fyrir að það nægir ekki að Alþingi Íslendinga álykti um ákveðnar aðgerðir. Hæstv. ráðherrar, hverjir sem þeir nú annars kunna að vera, leyfa sér hreinlega að hafa þál. að engu. Ég tel að ég hafi fengið svar við fsp. minni.