26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3827 í B-deild Alþingistíðinda. (3175)

303. mál, reglur um byggingar framhaldsskóla

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Ég ber hér fram fsp. til menntmrh. um hvað líði endurskoðun reglna um byggingar framhaldsskóla. Fsp. er orðuð á þennan hátt í samráði við hæstv. menntmrh. þó svo að slík norm eða reglur séu í raun og veru ekki til. Það hefur auðvitað í för með sér ómælda erfiðleika á mörgum sviðum. Það er verið að fara eftir reglum eða normum, eins og það er kallað í almennu tali manna á meðal, sem til eru og gilda um byggingar grunnskóla.

Grunnskólareglurnar, normin, passa að sjálfsögðu illa og yfirleitt alls ekki fyrir framhaldsskólabyggingar. Þar eru í reynd gerðar allt aðrar kröfur til húsnæðis ef uppfylla á þær skyldur við nemendur sem framhaldsskólum er ætlað. Það sem m. a. er ekki innifalið í grunnskólareglunum en mikilvægt er að byggingar, sem hýsa skulu framhaldsskóla, hafi er í fyrsta lagi öll rannsóknaraðstaða, svo sem fyrir efnafræði, eðlisfræði, rafmagnsfræði, rafeindafræði o. s. frv., í öðru lagi fyrirlestrasalir og í þriðja lagi sameiginlegt rými, sem samkvæmt grunnskólareglunum er mjög takmarkað, en áfangakerfi fjölbrautaskólanna t. d. gerir það að verkum að krafan til samrýmis verður mun meiri. Í fjórða lagi er það krafa til skólans í dag að hann sé fjölbreyttari en áður var. Af þessu leiðir að vinnureglur verða að vera til um framhaldsskólana þar sem tekið er tillit til sérstakra aðstæðna og að frumkvæði ábyrgðaraðilans, þ. e. skólanna sjálfra, sé virkt.

Þegar bygging fjölbrautaskóla stendur fyrir dyrum er gert ráð fyrir að stofnkostnaður ríkisins sé 60% en 40% beri sveitarfélögin. Þegar svo stendur á að grunnskólanormin eru látin gilda þá kann svo að fara að þegar upp er staðið verði um að ræða miklu dýrari byggingu og þá verður hlutur ríkisins í stofnkostnaði ekki lengur 60% af heildarkostnaði við byggingu. Ef stofnkostnaður við framhaldsskóla er t. d. 30% yfir þeirri áætlun sem grunnskólanormin gera ráð fyrir og svo þarf að bæta við þeim þáttum, sem ég nefndi fyrr í máli mínu í fjórum liðum um þær kröfur til húsnæðisins sem gerðar eru til að fullnægja skyldum við nemendur á framhaldsskólastigi, þá verður niðurstaðan sú að hlutur ríkisins verður aldrei meiri en 50%, og er þá hugsanlega of grunnt tekið í árinni.

Vegna framangreindra atriða er nauðsynlegt að fá fram skoðanir hæstv. menntmrh. á því hvort ekki standi til að úrbótum í þessu efni verði ýtt úr vör með nothæfum reglum fyrir framhaldsskóla.