26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3828 í B-deild Alþingistíðinda. (3179)

340. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 545 hef ég leyft mér að beina svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh. um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði:

„1. Við hvaða innlenda og erlenda aðila hefur verið rætt um þátttöku í byggingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði og hver hefur orðið niðurstaðan úr viðræðum við hvern um sig?

2. Um hversu mikla eignarhlutdeild í verksmiðjunni hefur verið rætt í hverju tilviki?

3. Út frá hvaða raforkuverði til verksmiðjunnar hefur verið gengið í þessum viðræðum?

4. Hver er staða verksmiðjumálsins nú?

5. Hvaða skilyrðum þarf að vera fullnægt til að ráðh. beiti sér fyrir því að ríkisstj. taki ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir við verksmiðjuna?“

Þessi fsp. þarfnast ekki langs formála. Allir liðir hennar skýra sig í raun sjálfir. Ljóst er að úrslit þurfa að fara að fást í þessu máli svo lengi sem það hefur verið í deiglunni. Fyrir íbúana á þessu svæði skiptir það vissulega miklu að fá sem fyrst um það svör hver framtíð málsins verður, hvort verksmiðjan verður staðreynd eða ekki.

Nú hefur þetta mál verið í höndum hæstv. ráðh. í nær 22 mánuði og umfjöllun um málið verið mest í fjölmiðlum. Hún hefur oftast nær verið tengd viðræðum svokallaðrar stóriðjunefndar við þennan eða hinn aðilann úti í heimi og ærið oft verið látið að því liggja að málið væri nú að komast í höfn, fyrir þá tilstuðlan einhvers þess erlenda aðila sem við hefur verið rætt hverju sinni. Enn hefur þó ekkert raunhæft gerst í þessum efnum, svo vitað sé, en alþekkt er sú stefna hæstv. iðnrh. að meirihlutaaðild og helst full aðild útlendinga að þessari verksmiðju sé í raun og veru forsenda fyrir því að hægt sé að ráðast í framkvæmdir. Ég hef hins vegar talið rétt og sanngjarnt að gefa hæstv. ráðh. gott ráðrúm til að leysa þetta mál og hrinda því í framkvæmd eftir sínum leiðum án þess að ég fari nánar út í umræðu um kosti og galla þeirrar aðferðar eða um eignaraðildina almennt.

Eftir svo mikla umfjöllun og alls konar véfréttir um þessi verksmiðjumál öll og eftir svo langan meðgöngutíma tel ég hins vegar ekki eftir neinu að bíða með að hæstv. ráðh. gefi Alþingi upplýsingar um gang mála til þessa, upplýsi hér um höfuðþætti þessa máls og greini um leið frá horfum og ákvörðunum um framkvæmdir og hvað til þurfi að koma til að sú ákvörðun verði tekin sem svo sannarlega er beðið eftir og hefur verið beðið eftir í raun og veru allt frá lagasetningu á Alþingi 1982, að ekki sé nú talað um eftir staðfestingu þál. hér á Alþingi 1984.

Því er svara við þessum fsp. beðið með eftirvæntingu, sérstaklega af þeim sem þetta mál snertir, íbúunum á því svæði þar sem kísilmálmverksmiðjan fyrirhugaða á að rísa.