26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3831 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

340. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin þó að ekki hafi nú komið mikið út úr þeim, sem vænta mátti, og greinilegt að bæði stjórnarmönnum í Kísilmálmvinnslunni og m. a. s. hæstv. ráðh. sjálfum, sem hefur þó á sér orð fyrir annað, er býsna tregt tungu að hræra í þessu máli nú um stundir. Það er að vísu gripið til þess ráðs að fela sig á bak við það að taka þurfi tillit til þeirra aðila sem við hefur verið rætt hverju sinni og er býsna undarlegt ef slík leynd þarf að vera yfir þessum málum hér á hæstv. Alþingi, eins og rækilega hefur verið skýrt frá þeim oft í fjölmiðlum og vitnað til aðila sem gleggst mega til þessara mála þekkja varðandi einstaka viðræðuaðila, jafnvel svo að mál væru í þann veginn að komast í höfn hjá þeim tilteknu aðilum sem við hefur verið rætt hverju sinni.

En eins og hæstv. ráðh. sagði verður að sjálfsögðu að fara eftir óskum hinna erlendu aðila. Það hefur hins vegar komið fram frá hæstv. ráðh. til þeirrar nefndar sem um þessi mál hefur fjallað að hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að frá meirihlutaaðild Íslendinga, sem kveðið er á um í lögunum, verði fallið og lagabreyting um það flutt hér á Alþingi. Það hefur einnig komið í ljós að orkuverðið hefur verið hindrun í vegi, þ. e. það orkuverð sem við þurfum í raun og veru að fá og sem gengið var út frá í öllum áætlunum um þessa verksmiðju á sínum tíma þegar við reiknuðum með því að þetta yrði innlent fyrirtæki í okkar eigin eigu og við yrðum að standa ábyrgir að rekstrinum. Þá var reiknað með því orkuverði sem hér er um að ræða. Auðvitað vilja útlendingarnir þrýsta þessu niður, og það tekst þeim vitanlega, m. a. í ljósi þeirra samninga sem gerðir hafa verið um orkuverð við þann erlenda aðila sem frægastur er í viðskiptum við okkur Íslendinga. Ég skil það mætavel að útlendingarnir kæri sig ekki um að fara mikið upp fyrir það verð sem þar þótti hæfilegt að semja um.

Það væri auðvitað býsna viðeigandi að rekja aðdraganda þessa máls, lagasetningu frá 1982 og þá víðtæku samstöðu sem þá náðist um þetta mál og einnig samþykkt þál. 1984 sem var eins konar lokapunktur til þess að unnt væri að vinna að þessu máli. Þá væri freistandi að rekja ýmislegt úr síðustu kosningabaráttu um þessi mál einnig, hvað þá var talað um að seint gengi nú að koma þessu máli í höfn og það kæmist nú heldur betur skriður á ef aðrir kæmust í valdastóla. Og ádeiluefnið var það að þarna væri ekki gengið nógu rækilega til móts við aðild útlendinga. Ef að því atriði væri gengið mundu þessi mál nú leysast fljótt og vel.

Biðin hefur hins vegar orðið býsna löng, þrátt fyrir langa og stranga leit, því það skal viðurkennt að hv. fjallkóngur þeirra leitarmanna, Birgir Ísl. Gunnarsson, og aðrir nm. í stóriðjunefnd hafa verið býsna iðnir við það að fara út um allar grundir til þess að leita að tiltækum aðila sem væri fáanlegur til að framkvæma þessa óskastefnu hæstv. núv. iðnrh. En árangurinn hefur sem sagt ekki orðið meiri en þessi. Í fjölmiðlum um daginn virtist sem svo að nú væri Elkem kannske orðið aðalhálmstráið sem gripið væri til. Mér þótti hins vegar athyglisvert í þeirri umfjöllun að þar var ævinlega talað um hugsanlega verksmiðju hér á landi. Væri e. t. v. ástæða til að spyrja hvort Grundartangi væri kannske kominn inn í myndina. Ég veit að það er ekki vilji hæstv. ráðh., en það er enginn undrandi á því þó að það kæmi fram frá hálfu þeirra Elkem-manna. Það er hins vegar ljóst að þessi mikla leit, þessi ofurtrú hæstv. ráðh. á hinni erlendu eignaraðild, hefur hindrað allar aðrar aðgerðir. Og enn sér ekki fyrir endann á þeirri leit þó að menn láti í það skina að það séu viðræður út og suður, hér og þar, um þessi mál. Ákvörðun er því hvergi í sjónmáli, framkvæmdir enn síður. Það eina örugga í málinu er óvissan.