26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3832 í B-deild Alþingistíðinda. (3182)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég vænti þess að kirkjumrh. verði viðstaddur þessa umr. (Forseti: Það verða gerðar ráðstafanir til þess að svo verði.)

Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 595 um vatnstöku Íslandslax hf. í Grindavík. Ég beindi fsp. til landbrh., en síðar komst ég að því að spyrja á kirkjumálaráðh. um þetta efni. Vonandi kemur það ekki að sök því að nú gegnir sami maðurinn báðum embættum. Fsp. er þannig, með leyfi forseta:

„1. Var ráðh. ljóst þegar hann heimilaði Íslandslaxi hf. vatnstöku í landi Staðar í Grindavík að samningaviðræður stjórnar Hitaveitu Suðurnesja og Íslandslax hf. um sölu á heitu vatni voru á lokastigi?

2. Var haft samráð við bæjarstjórn Grindavíkur eða aðra aðila á Suðurnesjum um samning rn. við Íslandslax hf.?

3. Var haft samráð við iðnrh. um þessa samningsgerð?

4. Hafa verið gerðar rannsóknir á því hvað vatnsbólin á Suðurnesjum þola mikla vatnstöku án þess að það hafi áhrif á neysluvatn íbúanna?

5. Hefur rn. í hyggju að gera hliðstæða samninga við aðrar laxeldisstöðvar sem fyrirhugað er að reisa við strendur Grindavíkur?“

Ég vil sérstaklega geta þess að ég er mjög fylgjandi uppbyggingu laxeldisstöðvar á Suðurnesjum og tel frumkvæði Íslandslax hf. mjög lofsvert. Atvinnumál á Suðurnesjum hafa undanfarin ár staðið á brauðfótum og því verið brýn nauðsyn að skapa fleiri störf, stofna til nýrra atvinnugreina. Það verður hins vegar að gera þá kröfu til þeirra sem hyggjast festa rætur á Suðurnesjum að þeir umgangist fólkið þar eins og skyni bornar manneskjur, en ekki af hofmóði og sýni ekki vítaverðan yfirgang. Slíkar kröfur verður einnig að gera til kirkjumálaráðh. sem virðist hafa borið sig að í þessum málum líkt og enskur vagnhestur sem gert er að ganga með augnaskjól til beggja hliða, ganga beint áfram að kröfu sinna húsbænda.

Sú fregn barst til Suðurnesjamanna fyrir nokkru að kirkjumálarn. hefði gert samning við Íslandslax hf. sem m. a. gerði ráð fyrir borun eftir heitu vatni og töku á köldu vatni í miklum mæli. Menn syðra vissu ekki annað en samkomulag hefði náðst milli Hitaveitu Suðurnesja og Íslandslax hf. Samningaviðræður höfðu staðið yfir frá 31. okt. s. l. til 5. febr., en á fundinum 5. febr. töldu fulltrúar Íslandslax hf. að aðilar hefðu náð saman og ekki væri annað eftir en ljúka samningagerð með undirskriftum aðila.

Að sögn samninganefndarmanna hitaveitunnar var allt hljótt um framhaldið að öðru leyti en því að fulltrúar Íslandslax hf. lögðu allan tímann á það áherslu að framkvæmd við hitalögn hæfist hið allra fyrsta og yrði við það miðað að hitalögninni til eldisstöðvarinnar yrði lokið fyrir 1. maí n. k. Fulltrúar Hitaveitu Suðurnesja töldu litlar líkur á því að hægt væri að ganga frá lögn á svo skömmum tíma, enda var pípuefnið ekki til í landinu og starfsmenn Hitaveitu Suðurnesja töldu ekki varlegt að panta efnið fyrr en samningur væri undirritaður.

Leið nú febrúar og ekki var gengið frá samningi. Það var fyrst 4. mars að fulltrúi Íslandslax hf. tilkynnti að samningur við Hitaveitu Suðurnesja skyldi „settur í salt“. Var það undrunarefni hjá samninganefndarmönnum Hitaveitu Suðurnesja, ekki síst vegna þess að ekki komu fram neinar aths. um kostnaðarverð á vatni og tengingu. Ekki áttu menn heldur von á því vegna þess að Íslandslax hafði þegar sætt sig við nákvæmlega sama samning og laxeldisstöð Fjárfestingafélagsins í Vogunum hafði þegar gert.

Ég spyr kirkjumálaráðh. hvort hann hafi virkilega ekki haft hugmynd um þessa samninga, en hafi svo verið, hvort honum hafi ekki dottið í hug að kynna sér aðstæður og búskap hitaveitunnar, hvort hann hafi ekki séð eða heyrt í fjölmiðlum eða eftir öðrum leiðum að samningaviðræður stæðu yfir, hvort hann hafi stungið bréfi frá bæjarstjórn Grindavíkur frá því í des. s. l., þar sem óskað er eftir kaupum á jörðinni Stað, undir stól, hvers vegna hann hafi ekki virt bæjarstjórnina svars. Taldi hann sig ekki þurfa að hafa samráð við iðnrh. um þessi mál, en sem kunnugt er hefur hann með orkumál að gera, líka á Suðurnesjum?

Það kann einhvern að undra viðkvæmni Suðurnesjamanna vegna vatnstöku. Margur hefur þar sjálfsagt í huga að það rignir stundum á Suðurnesjum og því hljóti þar að vera nóg vatn. Á fundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2. og 3. nóv. s. l. fluttu tveir sérfræðingar frá Orkustofnun erindi sem kalla má „svarta skýrslu“. Þar var því haldið fram að vatnsforði syðra væri af skornum skammti. Sveitarstjórnarmenn fóru afar svartsýnir af þeim fundi. Erindi þessara sérfræðinga varð til þess að fundurinn gerði eftirfarandi samþykkt, með leyfi forseta:

„Aðalfundur SSS, haldinn 2, og 3. nóvember 1984, vekur athygli á vaxandi ásókn í vatnsforða Suðurnesjasvæðisins og nauðsyn þess að vatnsbúskaparmál svæðisins verði samræmd og skipulögð. Stjórn SSS er því falið að fylgjast náið með þróun þessara mála og stuðla að samræmdum aðgerðum sveitarfélaganna.“

Mér er kunnugt um að síðan hefur SSS unnið að þessum málum. Það virðist hins vegar ljóst nú að gjörðir kirkjumrh. stefna í aðra átt. Þær koma í veg fyrir að sveitarfélögin geti skipulagt vatnsnýtinguna. Í greindum samningi er reglugerð bæjarstjórnar Grindavíkur um vatnsmál gjörsamlega hundsuð. Fordæmi hefur kirkjumrh. gefið fyrir því að hver einasti landeigandi sem vill geti borað eftir vatni án þess að bera það undir lögbæran aðila.

Ég spyr að lokum: Er það ætlun kirkjumrh. að gera hliðstæða samninga við aðrar laxeldisstöðvar. Nú hafa fimm eða sex laxeldisstöðvar tryggt sér land á Reykjanesi.

Ég tek það aftur fram að ég fagna hverju nýju fyrirtæki á Suðurnesjum. Ný framsækin fyrirtæki eru nauðsynleg til að bæta afleitt atvinnuástand á svæðinu. Í þessu tilfelli tel ég að kappi hefði mátt fylgja forsjá. Suðurnesjamenn vilja njóta þeirra atvinnumöguleika sem ný atvinnufyrirtæki gefa. Það vekur hins vegar tortryggni hvernig staðið er að málinu. Á það við iðnaðarmenn, en þrátt fyrir minnkandi atvinnu iðnaðarmanna á svæðinu hefur þetta fyrirtæki kosið að ganga fram hjá þeim. Í því sambandi vil ég geta þess að rafvirkjar og pípulagningamenn að sunnan hafa hvergi fengið nálægt að koma. Ég spyr: Þarf þetta fyrirtæki ekki heldur að sinna löggildingarákvæðum iðnaðarmanna á þessu svæði?

Ég er undrandi yfir andvaraleysi kirkjumrh. og hvernig hann fyrirlítur kjörna aðila þar syðra. Ég taldi áðan að gerðir hans minntu á enskan vagnhest, en þeir hlýða húsbændum sínum skilyrðislaust. Ástæða er til að spyrja líka: Hver er húsbóndinn?