26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3837 í B-deild Alþingistíðinda. (3184)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Þetta þóttu mér heldur lítil svör í þó þetta löngu máli hjá hæstv. ráðh. við spurningum hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar. Það kom fram í svari hæstv. ráðh. að sambandið við Hitaveitu Suðurnesja var ekki annað en það að hitaveitunni var sagt í janúar að ef hún gerði ekki samning við Íslandslax mundi landbrn. gera það og það hefur skeð. Um það var Hitaveitu Suðurnesja hins vegar algjörlega ókunnugt þar til þann 4. mars s. l. þegar stjórninni var tilkynnt með símtali að samningurinn sem búið var að gera skyldi settur í salt, en það er talsháttur sem menn skilja ágætlega á Suðurnesjum þessa dagana. Það má merkilegt vera að menn skuli standa í samningum frá því í desembermánuði og þar til í lok febrúar við fyrirtæki eins og Hitaveitu Suðurnesja þar sem náðst hefur samkomulag um öll atriði — líka verðið — en á sama tíma sé staðið í samningum við hæstv. ráðh. um allt annað. Það eru staðreyndir í þessu máli. Þær liggja alveg ljósar fyrir. 4. mars er sem sagt tilkynnt að samningurinn skuli settur í salt, en þann 7. er undirritaður samningur við hæstv. landbrh. þar sem SÍS eru færðar gjafir ekki bara á silfurbakka heldur á gulldiski.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að samráðið við bæjarstjórn Grindavíkur hefur verið af afar skornum skammti. Ég þekki bréfaskiptin sem hafa farið á milli. Samráð um vatnstökuna, sem er eitt höfuðmálið í þessu, var nákvæmlega ekki neitt.

Það hefur komið fram að samráðið við iðnrh. var ekkert, nema honum var tilkynnt, ef hann hefur verið á ríkisstjórnarfundi þegar hæstv. landbrh. kynnti málið, hvað þarna var búið og gert. Það átti að vísu eftir að skrifa undir, en ég hef grun um að tilkynningin á ríkisstjórnarfundi hafi verið gefin örfáum dögum áður en skrifað var undir. Þetta er auðvitað ekkert samráð.

Um rannsóknirnar, sem þarna hafa farið fram, gæti ég sagt ýmislegt. Ég ætla ekki að gera lítið úr orðum þess mæta manns Jóns Jónssonar jarðfræðings sem ég met mikils, en það liggur þó fyrir hvað stendur í áliti Orkustofnunar sem er kannske minna að marka en álit Jóns Jónssonar, ég skal ekki leggja dóm á það. Í álitsgerð Orkustofnunar frá 28. febrúar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Að svo stöddu er ekki hægt að segja endanlega til um skaðlausa vatnstöku á fyrirhuguðum vatnstökustað eða vatnstökustöðum í Staðarlandi.“

Síðan er talið upp ýmislegt sem vantar af upplýsingum til þess að hægt verði að leggja dóm á það. Þessu er því alls ekki svarað.

Það sem látið er af hendi til SÍS með þessum samningi landbrh. eru 550 hektarar lands. Það eru 20 lítrar á sekúndu af 100 stiga heitu vatni. Það samsvarar 6.7 mw. í varmaafli. Þetta fæst fyrir gjafverð. Það eru 350 sekúndulítrar af fersku köldu vatni. Það eru 25 000 sekúndulítrar af 15 stiga heitum sjó sem er meiri háttar fljót. Ég veit ekki hvort menn átta sig á því hvað 25 000 sekúndulítrar eru mikið. Svo er leigutíminn til 50 ára.

Það má sjálfsagt segja að þetta sé allt saman löglegt, hæstv. landbrh. hafi farið að lögum, en ég dreg í efa að þetta sé siðferðilega rétt. Bæði á ég þar við athafnir ráðh. og ég tala ekki um Íslandslax. En þeir eru ekki til svara hér.

Það er ýmislegt fleira sem ég vildi sagt hafa um þetta mál, en ræðutími minn er búinn í bili. Ég fæ kannske tækifæri til að segja meira á eftir.