26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3838 í B-deild Alþingistíðinda. (3185)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég verð að játa að mér finnast þau svör, sem hér hafa komið fram, vera ansi rýr. Það kemur þó fram að ekkert samráð hefur verið haft við bæjarstjórn Grindavíkur. Það er þeirra fullyrðing að svo hafi verið. Þeir heyra þetta með samninginn sem furðufrétt, enda fulltrúar tengdir Grindavík í samninganefnd hitaveitunnar og þeir vissu ekki annað en frá samningamálunum hefði verið gengið.

Varðandi vatnstökuna er látið liggja að því hér að sérfræðingar Orkustofnunar séu ekki marktækir. Bæjarfulltrúar eða sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum tóku samt mark á þeim og hafa miklar áhyggjur af því hvert ástand vatnsmála er á svæðinu. Ég furða mig á því að svona ákvarðanir skuli vera teknar án þess að tala við nokkurn mann. Þetta er gert með leynd. Þetta er gert á þann veg að það er komið aftan að mönnum og ber að átelja það.

Það er greinilegt að hæstv. landb.- og kirkjumrh. hefur misskilið mig áðan. Ég gerði mér ljóst að drottinn sjálfur var yfir hann hafinn, en ég var að velta fyrir mér hver væri húsbóndinn ofar honum í þessu máli.