26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3839 í B-deild Alþingistíðinda. (3187)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það er ekki hæstv. landbrh. til sóma að vera með útúrsnúninga eins og þegar hann segir að hann hafi stuðlað að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum á betri kjörum en ég telji rétt. Þetta lá ekki í mínum orðum. Alls ekki. Það sem ég er hins vegar andvígur en hann er hlynntur er það að ég vil ekki mismuna fyrirtækjum eins og þarna á sér stað. Það vita allir sem vilja vita að hæstv. landbrh. mun ekki gera samninga við fleiri aðila sem fela í sér þessa kosti. Það liggur alveg ljóst fyrir. M. a. eru ákvæði í samningnum við Íslandslax sem tryggja að slíkur samningur verði ekki gerður við aðra — enda ræður hæstv. ráðh. ekki yfir miklu meira landi þarna, sem betur fer, en Staðarlandinu.

Ég er sem sagt andvígur þeirri mismunun sem þarna á sér stað og ég óttast að hagsmunir íbúa á Suðurnesjum og Hitaveitu Suðurnesja, sem er sameign allra sveitarfélaganna þarna og ríkisins, kunni að verða fyrir borð bornir. Það hefur ekki verið svarað öllum spurningum sem þarf að svara áður en slík leyfi eru veitt.

Það er rétt hjá hæstv. landbrh. að ekki hafði orðið fullt samkomulag um tengigjaldið. Ágreiningurinn reis á lokastigi málsins vegna þess að leiðin var lengri sem fara þurfti með heimæðina en upphaflega var áætlað. En einingarverðið breyttist nákvæmlega ekki neitt.

Það væri fróðlegt að vita á hvaða forsendum, ég ætlast ekki til að hæstv. landbrh. svari því, hann veit það sjálfsagt ekki, fyrirtækið Íslandslax hóf framkvæmdir þegar um áramót. Á hvaða forsendum ætli það hafi verið? Þeir vissu vel þá hvert verðið yrði sem þeir þyrftu að borga til Hitaveitu Suðurnesja, en þeir hafa kannske líka vitað þá hvað þeir áttu í vændum frá hæstv. ráðh. í byrjun mars. Þetta væri fróðlegt að vita. Á grundvelli annars hvors hljóta þeir að hafa hafið framkvæmdir. Og það lá mikið á á milli jóla og nýárs, haldnir aukafundir í stjórn Hitaveitu Suðurnesja til að reyna að ljúka málinu.

Í þessu sambandi er líka rétt að nefna, sem hefur reyndar þegar komið fram hjá hæstv. ráðh., að bæjarstjórn Grindavíkur hefur óskað eftir að fá Staðarlandið keypt. Það var gert með bréfi í desembermánuði, en því er ekkert ansað. Það eru að vísu höfð góð orð um að það megi semja um það, en á bak við þetta allt er svo það að fyrst þarf að semja við SÍS. Svo getum við talað við bæjarstjórn Grindavíkur um kaup á landinu.

Svo er eitt enn. Þessu máli er alls ekki lokið. Samningurinn hefur alls ekki öðlast gildi þótt hæstv. ráðh. og þeir sambandsmenn hafi undirritað hann. Bæjarstjórn Grindavíkur á eftir að staðfesta hann og það verður að gerast vegna þess að ákvæði hans rekast á við vatnsveitureglugerð. En þó að hann hafi ekki tekið gildi er samt byrjað að bora. Það er byrjað að bora eftir heitu vatni og það er farið að dæla upp fersku vatni. Er nú nema von að menn spyrji hvort nokkrum öðrum en félagi í eigu SÍS og fyrirtækja þess mundi líðast svona vinnubrögð?