26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3840 í B-deild Alþingistíðinda. (3189)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það eru sérkennileg embættisverk sem þeir sessunautarnir, formenn þingflokka stjórnarflokkanna, hafa tekið að sér á Alþingi. Þegar verulegur hluti kjósenda Framsfl. er óánægður með ákvarðanir ráðh. Sjálfstfl. í ratsjárstöðvamálum tekur hv. þm. Páll Pétursson að sér að veita vissa friðþægingu þessum óróleikaöflum í Framsfl. með því að vera á móti þeim gerningi hér á Alþingi. Þegar óánægja með framsókn SÍS er orðin óþægileg í Sjálfstfl. og ráðherrar Sjálfstfl. hafi ekkert hafst að til að koma í veg fyrir framsókn Sambandsins tekur hv. þm. Ólafur G. Einarsson að sér að rísa upp hér í þingsalnum og vera með hávaða út af Sambandinu nokkra stund. Auðvitað breytir það engu um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið og mun á engan hátt setja Sambandinu stólinn fyrir dyrnar. Það er minni háttar pólitísk æfing í þingsalnum til að kjósendur Sjálfstfl. og lesendur Morgunblaðsins og Dagblaðsins verði aðeins minna óánægðari með það sem er að gerast. Þeir geta þá sagt: Það hefur þó allténd einn af „okkar mönnum“ haft manndóm í sér til að standa upp og mótmæla þessu.

Auðvitað er alveg ljóst að ef ráðherrar Sjálfstfl. og Sjálfstfl. væru á móti þessum gerningi væri hægðarleikur fyrir hæstv. iðnrh. að grípa þar inn í. Staðreynd málsins er hins vegar að hæstv. iðnrh. gerði það ekki. Það hefur ekkert komið fram í þessum umr. um að nokkur ráðh. Sjálfstfl. hafi gert nokkuð í málinu. Menn verða að horfast í augu við það, og það er gömul saga, að þegar Framsfl. er í ríkisstj. og þegar sambandsforstjórarnir vilja halda inn á nýjar lendur og fá nýtt forræði yfir eignum almennings í landinu annast Framsfl. auðvitað þessa fyrirgreiðslu. Það hefur alltaf gerst. Spurningin er hvað menn vilja stuðla lengi að því með því að stjórna með Framsfl. (ÓE: Enda þekkir ræðumaður það.) Já, hann þekkir það mjög vel. (ÓE: Allt of vel.) Allt of vel, það er alveg rétt.

Herra forseti. Hæstv. landbrh. viðurkenndi hér í seinni ræðu sinni áðan að hann hefði framselt eignir almennings í landinu á lægra verði en raunvirði og markaðsverði. Hæstv. ráðh. viðurkenndi að hann hefði selt fyrirtæki eignir þjóðarinnar, sem honum hefði verið falið að varðveita, á lægra verði en hefði verið hægt að fá fyrir þær og sambærilegt væri við sölu til annarra aðila. Þetta er mjög merkileg viðurkenning hér úr ræðustól. Nú ber ég fram fsp. til hæstv. landbrh.: Hver er munurinn á markaðsverðinu og raunverðinu, sem ráðh. vék að áðan, og á því verði sem SÍS var látið greiða? Hæstv. ráðh. hlýtur að hafa gert sér grein fyrir því. Honum bar embættisleg skylda til þess. Fram kom áðan að hann hefur gert það. Rétt er að fram komi á Alþingi hver er hinn raunverulegi styrkur af almannafé og þjóðareign sem hæstv. ráðh. hefur yfirfært til Sambandsins.