26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3842 í B-deild Alþingistíðinda. (3191)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það kom fram í svari hæstv. landbrh. að samráð var ekki haft við iðnrn. meðan á samningum stóð, heldur, eins og hann tók fram, mun hafa verið tilkynnt um málið þann dag eða um það bil sem undirskriftir fóru fram. Fullyrðingar hv. 3. þm. Reykv. áðan eru staðlausir stafir sem ég skal víkja að örfáum orðum.

Skv. 2. tölul. 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands fer fjmrn. með eignir ríkisins nema þær séu lagðar til öðru rn. Í 10. gr. 9. lið reglugerðar um Stjórnarráð Íslands eru landbrn. lagðar til þjóðjarðir og kirkjujarðir. Samningar um afnotarétt af jarðhita í landi kirkjujarðarinnar Staðar við Grindavík heyra því skv. gildandi rétti alveg undir landbrn.

Rétt er að taka fram að skv. ákvæðum orkulaga eru almennar takmarkanir á ráðstöfunarrétti yfir jarðhita, t. d. í Il. kafla laga um vinnslu jarðhita þar sem fjallað er um þau álitaefni sem upp koma þegar jarðhitasvæði liggur þannig í landareign tveggja eða fleiri landeigenda að ekki verði aðskilið þegar hagnýtt er. Slík álitaefni hafa ekki komið upp í þessu tilfelli.

Enn fremur er þess að geta að í 17. gr. orkulaga segir: „Um hagnýtingu og hvers konar ráðstöfun jarðhita, sem er í eigu ríkisins, skal leita umsagnar Orkustofnunar áður en til ráðstöfunar kemur.“ Þessa ákvæðis hefur verið gætt.

Þá velti ég því fyrir mér hvort ráðstöfun jarðhita þessa bryti í bága við einkarétt Hitaveitu Suðurnesja sem iðnrn. veitir Hitaveitu Suðurnesja skv. 6. gr. laga nr. 100/1974, um Hitaveitu Suðurnesja, til starfrækslu hitaveitna innan sveitarfélaga þeirra sem aðild eiga að fyrirtækinu. Einkaleyfi til starfrækslu hitaveitu felur í sér einkarétt til að dreifa heitu vatni til almenningsþarfa á umræddu svæði. Um skilning á hugtakinu „einkaleyfi“ skv. 6. gr. laga og um Hitaveitu Suðurnesja er rétt að hafa hliðsjón af 27. gr. orkulaga, en þar segir m. a. svo:

„Ráðh. er heimilt að veita sveitarfélögum eða samtökum þeirra einkaleyfi . . . til þess að starfrækja hitaveitur, sem annist dreifingu eða sölu heits vatns eða gufu til almenningsþarfa . . . “

Ákvæðið breytir því ekki rétti jarðeigendanna, að því er virðist, til að nýta jarðhita í eigin landi til eigin atvinnureksturs. Skiptir þá ekki máli hvort leigutaki jarðar nýtir jarðhita á jörðinni eða eigandi sjálfur.

Ég mun ekki fjalla nánar um hugsanlega hagsmunaárekstra Hitaveitu Suðurnesja og landbrn. vegna þessara samninga, enda á iðnrh. ekki beina aðild þar að. Þess vegna er það, að við þessa samningsgerð þurfti hæstv. landbrh. ekki að gæta þess að sækja neitt til iðnrn. vegna samninganna.

Þetta vil ég að komi fram vegna þessara sérkennilegu fullyrðinga hv. 3. þm. Reykv. um að iðnrh. hefði getað gripið inn í þessi mál. Þær voru, eins og ég sagði, gersamlega úr lausu lofti gripnar.