26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3843 í B-deild Alþingistíðinda. (3193)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Eiður Guðnason:

Herra forseti. S. l. laugardag hringdu fréttamenn Ríkisútvarpsins suður til Togo til að inna frétta af íslenskri pólitík, en nú er mjög til siðs að hringja þangað suður. Það var rætt við varaformann Sjálfstfl., hv. þm. Friðrik Sophusson, sem lét svo ummælt að Framsfl. væri hagsmunaflokkur. Þegar oftlega var gengið eftir hvað hann ætti við með því svaraði varaformaður Sjálfstfl.: Framsfl. situr í ríkisstj. til að gæta hagsmuna Sambands ísl. samvinnufélaga.

Nú hefur komið í ljós í þessum umr. að það eru fleiri sem sitja í ríkisstj. til að gæta hagsmuna Sambands ísl. samvinnufélaga, þess volduga auðhrings. Hæstv. viðskrh., þm. Reykn., hefur ekki sagt eitt einasta orð í þessum umr. Hæstv. iðnrh. kemur hér í þennan ræðustól og fer með lagaflækjumál um að málið komi honum eiginlega ekkert við. Nú er sagt frá því að þetta mál hafi verið kynnt í ríkisstj. Ég spyr: Hreyfðu hæstv. ráðherrar, viðskrh., þm. þess kjördæmis sem hér um ræðir, og hæstv. iðnrh. og orkumálaráðh., engum andmælum þegar þetta mál var kynnt í ríkisstj.?

Allt ber þetta mál mjög undarlega að. Það hefur komið fram hér að verið er að afhenda verðmæti úr þjóðareign Sambandi ísl. samvinnufélaga. Þetta kemur svo sem ekkert á óvart þegar Framsfl. á í hlut. Ég get tekið undir það, sem varaformaður Sjálfstfl. sagði, að það er meginhlutverk Framsfl. í hverri ríkisstjórn að standa þar dyggan vörð um hagsmuni Sambands ísl. samvinnufélaga. Þetta er ekkert nýtt, en það er kannske nýtt að Sjálfstfl. og hæstv. ráðh. Sjálfstfl. hjálpi þeim framsóknarmönnum við þetta verk í jafnríkum mæli og nú er á daginn komið.

Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að fyllsta ástæða er til þess að Alþingi láti þetta mál til sín taka og þetta mál verði kannað betur, en á meðan sú könnun stendur yfir verði boranir og aðrar framkvæmdir þarna stöðvaðar, í bili a. m. k.

Þau svör sem hæstv. landbrh. hefur gefið eru að mínu mati engan veginn fullnægjandi. Mér sýnist það vera deginum ljósara og þessi umr. hafi leitt það mætavel og einkar skýrt í ljós að verið er að hygla Sambandi ísl. samvinnufélaga og færa því fyrirtæki, eins og réttilega var sagt, gjafir á gulldiskum.