26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3844 í B-deild Alþingistíðinda. (3195)

374. mál, vatnstaka Íslandslax hf. í Grindavík

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það er ljóst að þrjú atriði þurfa nánari skýringar við í þessu máli. Þau eru öll mjög alvarleg.

Hæstv. viðskrh. var að enda við að lýsa því yfir að honum hefði ekki verið kunnugt um málið fyrr en búið var að undirrita samninginn. Það hefur verið upplýst hér í umr. að málið var kynnt á ríkisstjórnarfundi. Var hæstv. viðskrh. fjarverandi þann ríkisstjórnarfund? Það er óhjákvæmilegt að upplýst sé hvaða ráðherrar voru viðstaddir á þeim ríkisstjórnarfundi. Hæstv. iðnrh. hefur einnig lýst því yfir að hann hafi ekkert vitað um málið fyrr en átti að fara að undirrita. Hvaða ráðherrar Sjálfstfl, voru viðstaddir á þessum ríkisstjórnarfundi? Er hægt að fá það upplýst hér? Það er leitt að hæstv. forsrh. skuli vera fjarverandi. Það er alveg ljóst að það verður að upplýsa hér og nú hverjir voru viðstaddir á þeim ríkisstjórnarfundi þar sem málið var kynnt. Hvaða ráðherrar Sjálfstfl. bera ábyrgð á því að hreyfa ekki andmælum? Er það kannske formaðurinn í ráðherraflokknum, hæstv. utanrrh., sem ber ábyrgðina á því? Ég vænti þess að hæstv. landbrh., sem fór með málið, upplýsi í umr. hvaða ráðherrar Sjálfstfl. voru viðstaddir á þessum ríkisstjórnarfundi. (Gripið fram í: Hann má ekki tala oftar.) Ég er alveg viss um að hæstv. forseti veitir honum leyfi til að gera stutta aths.

Í öðru lagi reyndi hæstv. landbrh. að draga í land með að hann hefði lýst því í seinni ræðu sinni að það væri munur á markaðs- og raunvirði þeirra þjóðarverðmæta sem þarna eru látin í té og því sem Sambandið hefði verið látið borga. Er einfalt fyrir þm. og þingfréttaritara að fara út í ræðuritun og biðja um afrit af ræðu hæstv. ráðh. til að staðfesta það. Það sem hæstv. ráðh. sagði um Hitaveitu Akureyrar kom síðar í ræðunni. Það er einmitt í ræðunni þar sem hæstv. ráðh. rakti að eftir nokkur ár yrði málið skoðað aftur til að koma í veg fyrir forréttindi til frambúðar. Þannig liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. ráðh. vék að því nokkrum orðum að útskýra að þarna hefði verið um mun að ræða á eðlilegu markaðs- og raunvirði þessara verðmæta almennings og þjóðarinnar allrar og því sem SÍS væri látið greiða, a. m. k. á næstu 5–6 árum.

Þetta er annað atriði, herra forseti, sem verður að upplýsa hér vegna þess að hæstv. ráðh. hefur haft um þetta önnur orð. Það er alveg rétt, sem nokkrir þm. hafa sagt, að hér er verið að láta af hendi þjóðareign til Sambands ísl. samvinnufélaga. Alþingi á að bera ábyrgð á því að þjóðin fái fullt verð fyrir sínar eignir. Það er þess vegna lágmarkskrafa, eins og hér var sett fram, að þessar framkvæmdir verði stöðvaðar og ráðherrar Sjálfstfl. og aðrir, sem virða einhvers þá skyldu sína að tryggja að þjóðin fái verðmæti fyrir eign sína, gangi í það að skoða rækilega hvað í samningnum felst.

Í þriðja lagi fór hæstv. iðnrh. hér með lagaskýringu, sem greinilega var samin fyrir þessar umr., til að reyna að afsaka að hann, sem á að gæta eignarréttar Hitaveitu Suðurnesja, hafði ekki afskipti af málinu. Það var léleg afsökun, hæstv. iðnrh. Ljóst er að rn. sem fer með málefni Orkustofnunar og fer með málefni hitaveitna átti að vera með í ráðum þegar slíkur samningur var gerður.